Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 16:19:00 (6687)


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega hárrétt hjá hv. 5. þm. Suðurl. að mig varðar meira um málefnin sem eru að gerast í dag og snerta hagsmuni fólksins en mistök fyrrv. ríkisstjórnar. Ég hef hins vegar velt því nokkuð fyrir mér hvað þau þröngu viðbrögð til landbúnaðarins sem gætt hefur og gætir enn í stjórnkerfinu eru mikið áhyggjuefni og búvörusamningurinn á vissulega sinn þátt í því.
    Þannig kynnti landbrn. Stofnlánadeild landbúnaðarins þann 14. mars að ekki væri lengur unnt að veita ábúendum ríkisjarða veðleyfi vegna dráttarvélakaupa. Slík fyrirgreiðsla samrýmdist ekki lengur ákvæðum stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. Búnaðarfélag Íslands hefur nýlega fengið bréf frá landbrh. um jarðræktarframkvæmdir. Ekki kunni ég við tóninn í því bréfi. Þar er því m.a. neitað að greiða bændum lögboðin framlög sem voru unnin áður en bandormurinn frægi gekk í gildi. Þá vantaði nefnilega bréf upp á vasann, bændurna, til að mega vinna þessi verk.
    Í áfangaskýrslu um mjólkurframleiðslu sem alþingismenn hafa nýlega fengið í hendur segir m.a. um hagkvæmni aukinnar kjarnfóðurnotkunar: ,,Vegna álagningar kjarnfóðurgjalds og tilkomu fullvirðisréttar hefur dregið mjög úr notkun kjarnfóðurs í mjólkurframleiðslunni. Þrátt fyrir það hefur nyt hækkað vegna aukinna heygæða og hagstæðs veðurfars síðustu ár. Í heild hefur styrkleiki fóðurs þó minnkað og má fullvíst telja að ef notkun kjarnfóðurs yrði aftur aukin í það sem hún var fyrir einum áratug kæmi fram afurðaaukning sem næmi hundruðum lítra á hvern grip.``
    Síðan er svo lagt til að hafinn verði innflutningur á nýjum nautgripakynjum sem væntanlega gætu þá að mestu lifað á innfluttu margniðurgreiddu kjarnfóðri. Ég vara við þessum boðskap. Ég vara við þessari áfangaskýrslu. Höggið sem nú er að falla á sveitir landsins verður byggðunum nógu dýrkeypt þó annað bætist ekki við. Ég hlýt að óska þess eindregið að landbn. Alþingis verði afhent öll gögn er þessa áfangaskýrslu varða og að ekki verði gengið frá neinum samingum fyrr en nefndin hefur fjallað um málið. Það er Alþingi Íslendinga sem ber ábyrgð á samningum sem þessum en ekki einhver úti í bæ. Það er mér mikið umhugsunarefni hvað lítið breytist. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég verð að vekja athygli forseta á því að ég hafði óskað eftir ótímabundinni umræðu og ég féllst á það við aðalforseta að hverfa frá henni vegna þröngs tíma í þinginu. Ég ætlast til þess að ég fái að ljúka þessum fáu orðum mínum í friði fyrir einhverjum bjölluhljómi. ( Forseti: Forseti verður að starfa samkvæmt því samkomulagi sem gert var.)
    Það er mér mikið umhugsunarefni hvað lítið breytist þó skipt sé um í stólum í Stjórnarráði Íslands. Jafnvel þótt menn komi glaðbeittir með stífar yfirlýsingar, m.a. um að það skuli ekki verða þrengt að kjörum sauðfjárbænda með flötum niðurskurði á bústofni þeirra, þá gerist það samt. Nú dylst mér ekki góður vilji þeirra sem ráða þessum málum bæði nú og áður. Hvernig má þá vera að ekki skuli betur takast til? Eru niðurrifsöflin gagnvart íslenskum landbúnaði búin að fá fastan sess í okkar stjórnsýslu? Gengur þessi ófögnuður sjálfkrafa í stjórnkerfinu? Er ekki ráð fyrir okkur alþingismenn að huga betur að þessum málum? Hér eigum við skyldur. Völdin eru í okkar höndum. Af kynnum mínum og samstarfi við alþingismenn fullyrði ég að viljann vantar ekki.
    Með bréfi til Ríkisendurskoðunar þann 31. mars leitaði landbn. Alþingis eftir því við Ríkisendurskoðun að hún framkvæmdi ítarlega könnun, ég vil segja rannsókn, á ýmsum mikilvægum þáttum er varða verðmyndun á kindakjöti. Enn fremur leitaði nefndin eftir því við landbrh. með bréfi dags. 7. apríl að upplýst yrði hversu mikils niðurskurðar á rétti sínum sauðfjárbændur mættu vænta á hausti komanda og að jafnframt yrði upplýst hver væru líkleg áhrif þeirrar skerðingar á afkomu bænda og búsetunnar í landinu. Til þessara svara þarf vel að vanda og auðvitað þarf til þess nokkurn tíma. En svör verða að berast og það sem fyrst.
    En umfram allt verða þeir sem hér eiga forustuhlutverki að gegna, bændaforustan og ráðamenn í

þjóðfélaginu, að yfirfara þennan búvörusamning og freista þess að lagfæra þá annmarka sem á honum eru svo ekki þurfi að koma til þeirrar skerðingar á hlut þeirra sem afkomu sína eiga undir þessum samningi með þeim hætti sem nú blasir við.
    Virðulegi forseti. Eigi veldur sá er varar. Ég hef lokið máli mínu.