Málefni fatlaðra

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 16:35:00 (6694)

     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 915 um frv. til laga um málefni fatlaðra frá meiri hluta félmn. Ég mæli jafnframt fyrir brtt. á þskj. 916 við sama frv.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. á fjölmörgum fundum og fengið um það umsagnir frá fræðslustjóra Vesturlandsumdæmis, stjórnarnefnd málefna fatlaðra, Foreldra- og vinafélagi Kópavogshælis, heilbr.- og trmrn., félagsmálastjóra Akureyrarbæjar, fræðslustjóra Reykjavíkurumdæmis, héraðslækninum í Suðurlandshéraði, bæjarstjórn Ísafjarðar, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Vestfjörðum, stjórn Sólheima í Grímsnesi, Félagi framkvæmdastjóra svæðisstjórna málefna fatlaðra, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Austurlandi, Blindrafélaginu, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Norðurlandi eystra, menntmrn., héraðslækninum í Reykjaneshéraði, fræðslustjóra Suðurlandsumdæmis, Öryrkjabandalagi Íslands, Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, Þroskaþjálfaskóla Íslands, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Austurlandi, bæjarstjórn Hafnarfjarðar, ráðningarskrifstofu Reykjavíkurborgar, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Suðurlandi, bæjarstjórn Siglufjarðar, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra, héraðslækninum í Austurlandshéraði, bæjarstjórn Akraness, svæðisstjórn málefna fatlaðra í Reykjavík, biskupi Íslands, Þroskahjálp, Foreldra- og styrktarfélagi heyrnardaufra, svæðisstjórn málefna fatlaðra á Reykjanesi, bæjarstjórn Egilsstaðabæjar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, bæjarstjórn Vestmannaeyja, Félagi sérkennara, bæjarstjórn Selfoss, Félagi þroskaþjálfa, Félagi heyrnarlausra, Sjálfsbjörg, bæjarstjórn Húsavíkur, Samstarfshópi um málefni daufblindra, Sálfræðingafélagi Íslands, bæjarstjórn Njarðvíkur, borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Dalvíkur, stjórn Skálatúnsheimilisins í Mosfellsbæ, Geðhjálp, Kópavogshæli, bæjarstjórn Sauðárkróks, Geðverndarfélagi Íslands, landlækni, Ingimar Sigurðssyni, í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra, Umsjónarfélagi fatlaðra, Félagi nýrnasjúkra og Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Þá fékk nefndin á sinn fund til viðræðna um frv. Braga Guðbrandsson, aðstoðarmann félmrh., Þórð Skúlason og Vilhjálm S. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bjarna Kristjánsson og Soffíu Lárusdóttur frá Félagi framkvæmdastjóra svæðisstjórna fatlaðra, Birgi Guðmundsson, Ólaf Kristinsson og Jóhann Arnfinnsson frá Foreldra- og vinafélagi Kópavogshælis, Sigfús Jónsson, formann sveitarfélaganefndar, Tómas Grétar Ólafsson, frá stjórn Sólheima í Grímsnesi, og Ingimar Sigurðsson, framkvæmdastjóra heilsugæslustöðva í Reykjavík.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frv. með brtt. sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Brtt. miða einkum að því að draga úr þeirri auknu miðstýringu sem margir umsagnaraðilar hafa talið einkenna frv. Í þessu felst að dregið er úr valdi félmrn. og jafnframt leitast við að auka áhrif heimamanna. Til viðbótar eru allnokkrar brtt. sem flestar eru tilkomnar í ljósi athugasemda umsagnaraðila. Brtt. við frv. eru eftirfarandi:
    Lagt er til að síðasti málsl. 3. gr. falli brott. Í fyrsta lagi hefur ákvæðið verið efnislega umdeilt. Í öðru lagi þykir vafasamt að kveða á um skipan Stjórnarráðsins í sérlögum.
    Lagðar eru til þrjár breytingar við 6. gr. Sú fyrsta lýtur að því að svæðisráð geti gert tillögur bæði til svæðisskrifstofa og beint til ráðuneytis. Er þannig lagt til aukið vægi svæðisráðs. Önnur brtt. felur í sér að svæðisráð hafi frumkvæði að aukinni ábyrgð sveitarfélaga í málefnum fatlaðra. Er hér um mjög mikilvægt atriði að ræða. Í frv. er gert ráð fyrir að þetta sé verkefni ráðuneytisins, en telja verður æskilegt að fela heimamönnum þetta viðfangsefni. Í þriðju tillögunni felst að fulltrúum í svæðisráði verði fjölgað um

tvo. Fulltrúi félmrn. er felldur út en héraðslæknir og fræðslustjóri taka sæti í svæðisráðinu. Jafnframt er fulltrúum sveitarfélaga fjölgað um einn og skal sá fulltrúi vera félagsmálastjóri innan svæðisins. Telja verður að svæðisráðið sé betur fallið til að sinna samræmingu þjónustu innan svæðis með setu héraðslækna, fræðslustjóra og félagsmálastjóra í því. Stuðlar þetta og að aukinni samvinnu og samráði félags-, heilbrigðis- og menntakerfis í málefnum fatlaðra. Þá felur þessi skipan í sér aukin áhrif heimamanna og aukið vægi svæðisráðsins.``
    Virðulegi forseti. Það að svæðisstjórnir í málefnum fatlaðra eru lagðar niður í núverandi mynd er gert í því skyni að leysa þá þversögn sem er fólgin í þeim verkefnum þeirra að bera ábyrgð á verkefnum þeirra, að bera ábyrgð á framkvæmd þjónustu annars vegar og hins vegar að hafa eftirlit með þeirri sömu framkvæmd. Samkvæmt frv. verður framkvæmd þjónustu við fatlaða á vegum ríkisins á ábyrgð svæðisskrifstofa. Svæðisráðum er aftur á móti falið eftirlitshlutverkið. Því hefur verið haldið fram að í þessari tilhögun felist mjög aukin miðstýring. Svæðisskrifstofurnar séu útibú frá ráðuneytinu og þær hafi allt vald um framkvæmd þjónustunnar. En svæðisráðin eigi einungis kost á að fylgjast með og gera tillögur. Þannig sé valdið tekið frá heimamönnum sem áður hafi tekið virkan þátt í uppbyggingu og rekstri þjónustunnar með setu í svæðisstjórnum.
    Í fyrsta lagi yfirsést þeim sem þessu halda fram að í frv. eru stigin spor í þá átt að styrkja skrifstofurnar á svæðunum, m.a. með því að flytja verkefni og ábyrgð frá ráðuneytinu, auk þess sem verkefni þeirra og ábyrgð eru skilgreind mun betur en í gildandi lögum. Þetta sjónarmið byggir einnig á vanþekkingu eða vanmati á þeim þýðingarmiklu verkefnum sem svæðisráðunum er ætlað að sinna samkvæmt frv. og ástæða til að draga það fram að svæðisráðunum er ætlað að sinna öðrum verkefnum en skrifstofunum er ætlað. Þau verkefni fela í sér mikla ábyrgð svo sem sjá má í 6. gr. frv. Þannig er þeim ætlað að gera tillögur um þjónustu á svæðunum. Þeim er jafnframt ætlað að sinna samræmingarstarfi á þjónustu á ólíkum sviðum. Þá er þeim ætlað að annast eftirlit með stofnunum fatlaðra, margvíslegri starfsemi og þjónustu sem veitt er á grundvelli laganna. Svæðisráðum ber jafnframt að annast réttindagæslu fatlaðra sem er á meðal merkustu nýmæla þessara laga. Loks skal nefnt hið mikilvæga verkefni að hafa frumkvæði að aukinni ábyrgð sveitarfélaganna í málefnum fatlaðra með gerð sérstakra þjónustusamninga á milli ríkis og sveitarfélags sem kveða á um yfirtöku sveitarfélaga á þjónustu við fatlaða innan vébanda þess að hluta til eða að öllu leyti. Ljóst má vera að hin margbrotnu verkefni sem svæðisráðum er ætlað að sinna skapa þeim sjálfstæða ábyrgð sem tekur fram því óskilgreinda hlutverki sem núverandi svæðisstjórnir sinna. Með þeirri brtt. sem meiri hluti félmn. leggur til að gerð verði á skipan svæðisráða má ætla að þau séu faglega og skipulagslega vel í stakk búin til að sinna þessum viðfangsefnum. Í þessum breytingum felst að fulltrúum er fjölgað um tvo eins og áður er sagt.
    Lagt er til að 8. gr. falli brott. Er það í samræmi vð óskir margra umsagnaraðila. Með þeirri breytingu, sem lögð er til á 6. gr., ætti samráð að vera leyst á hverju svæði fyrir sig og nefnd ráðuneyta að vera óþörf.
    Við 10. gr. er annars vegar lögð til sú breyting að 4. tölul. falli niður þar sem orðið ,,þjónustumiðstöð`` er einungis samheiti þjónustu sem frv. kveður að öðru leyti á um. Ef hagkvæmt þykir að reka fleiri en einn þjónustuþátt saman ætti að vera óþarft að kveða sérstaklega á um það. Hins vegar er lögð til breyting í 4. mgr. sem kveður á um að umsögn stjórnarnefndar er ekki nægileg ein sér og undirstrikar það aukið vægi svæðisráða.
    Lagt er til að 11. gr. verði breytt til þess að útrýma misskilningi sem orðið hefur vart vegna orðalags greinarinnar. Skipulagt svæði samkvæmt skipulagslögum er ýmist íbúðabyggð, stofnanasvæði eða atvinnusvæði. Svo virðist sem orðalag frv. hafi valdið misskilningi. Því þykir rétt að einfaldlega sé kveðið á um að búseta fatlaðra skuli vera í íbúðabyggð samkvæmt skipulagslögum. Með þessu er verið að undanskilja önnur svæði en íbúðahverfi, svo sem iðnaðarhverfi, svæði sem ætluð eru byggingum til almenningsþarfa o.s.frv. og kveðið er á um í skipulagslögum. Í greininni er notað orðið ,,íbúðabyggð`` en ekki íbúðahverfi eins og það er orðað í skipulagslögum. Er þetta gert til þess að leggja áherslu á að átt er við íbúðabyggð hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.
    Lagðar eru til tvær breytingar við 12. gr. Fyrri breytingin felur í sér aukna áherslu á vilja hins fatlaða. Sú seinni lýtur að því breytta orðalagi sem þykir bera vott um of mikið forræði.
    Lagðar eru til fjórar breytingar við 13. gr. Lögð er í fyrsta lagi til breyting við 1. málsl. 1. mgr. sem ætti að taka af tvímæli um að óþarft sé að starfrækja svæðisskrifstofu þegar sveitarfélög taka yfir þjónustu við fatlaða að öllu leyti. Færi um slíkan rekstur samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá er annars vegar lögð til breyting á 1. tölul. 1. mgr. og hins vegar lögð til viðbót við 2. tölul. 1. mgr. Þessar breytingar þykja nauðsynlegar til að taka af tvímæli um að ekki er ætlunin að svæðisskrifstofur hafi yfirumsjón með þjónustu, framkvæmdum og rekstri sveitarfélaga og sjálfseignarstofnana. Í fjórða lagi er lagt til að 2. málsl. 2. mgr. falli brott. Ákvæðið er óþarft og hefur valdið misskilningi. Um ráðningu starfsfólks fer samkvæmt almennum reglum, þ.e. framkvæmdastjóri ræður starfsfólk, enda er ráðningin staðfest af ráðuneyti.
    Lögð er til breyting við 14. gr. og vísast um það til seinni athugasemdar við 6. gr. Í greininni er sérstaklega kveðið á um gerð þjónustusamninga á milli ríkis og sveitarfélaga, um yfirtöku á þjónustu við fatlaða. Ástæða er til að það komi fram að líta verður svo á að heimilt sé að gera þjónustusamninga við

aðra rekstraraðila en sveitarfélög, t.d. sjálfseignarstofnanir, enda þótt ekki sé sérstaklega kveðið á um slíkt í frv. Ljóst er að sjálfseignarstofnanir eru viðurkenndir rekstraraðilar að stofnunum fatlaðra samkvæmt frv. og er heimilt að slíkir þjónustusamningar séu gerðir, enda séu báðir aðilar, þ.e. ríkið og viðkomandi sjálfseignarstofnanir, viljugir til að ganga til slíkra samninga.
    Lagt er til að síðari málsl. 15. gr. falli brott. Veruleg andstaða hefur komið fram hjá mörgum aðilum vegna þessa heimildarákvæðis.
    Lagt er til að 6. tölul. 1. mgr. 17. gr. falli brott. Sjá má af mörgum umsögnum að menn óttast þá miðstýringu á þjónustu sem í ákvæðinu felst. Umsagnaraðilar láta og í ljós efasemdir um gildi göngudeildar fullorðinna á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Í ljósi þessa þykir ekki rétt að stofnað verði til slíkrar deildar, einkum þegar haft er í huga að hún hefði talsverð útgjöld í för með sér. Enn fremur eru lagðar til leiðréttingar við misritun í 7. og 9. tölul. 1. mgr. greinarinnar.
    Lagt er til að 18. gr. verði breytt vegna þess að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sérhæfir sig fyrst og fremst í þroskafrávikum. Því er í mörgum tilvikum eðlilegra að vísa til annarra aðila, svo sem Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands eða Sjónstöðvarinnar.
    Lagt er til að í 20. gr. verði mælt fyrir um að fötluð börn skuli eiga rétt til leikskóladvalar á vegum sveitarfélaga og skuli veita hana á almennum leikskóla með nauðsynlegri stuðningsþjónustu eða á sérhæfðum deildum, sbr. leikskólalög, og er þar um breytingu á setningunni að ræða.
    Breytingin sem lögð er til við 25. gr. felur ekki í sér efnislega breytingu.
    Lögð er til sú breyting við 26. gr. að heimaaðilar taki þær ákvarðanir sem um er að ræða í stað félmrn.
    Lagt er til að 31. gr. verði breytt á þrennan hátt. Í fyrsta lagi er lagt til að eftir 1. málsl. komi nýr málsliður til fyllri skýringar á efni greinarinnar. Þá eru lagðar til breytingar á tveimur síðustu málsliðum til að taka af öll tvímæli um að ákvæði greinarinnar vísar til launaðra starfa.
    Lagt er til 32. gr. verði breytt vegna þess að ekki þykir rökrétt að binda í lög að könnun skuli gera á ákveðnu árabili.
    Lögð er til breyting á 36. gr. vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um akstur fatlaðra en gert er ráð fyrir að Ferðaþjónusta fatlaðra, sem kveðið er á um í greininni, greiðist af sveitarfélögunum. Eins og kunnugt er hefur rekstur Ferðaþjónustu fatlaðra hingað til verið tvískiptur. Ríkið hefur annast rekstur ferðaþjónustu á sérstofnanir fatlaðra, en sveitarfélögin hafa sinnt almennnri akstursþjónustu fatlaðra, t.d. vegna atvinnu og tómstunda. Í þessu hefur falist óhagræði og skilin á milli ábyrgðar ríkis og sveitarfélaga hafa ekki alltaf verið skýr sem hefur skapað ágreining og valdið fötluðum óþægindum. Í mörgum umsögnum um frv. var á það bent að nauðsynlegt væri að ferðaþjónusta fatlaðra yrði á einni hendi.
    Að undanförnu hafa átt sér stað viðræður á vegum félmrn. við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga með þátttöku menntmrn. og fjmrn. um verkefnaflutning á milli ríkis og sveitarfélaga. Niðurstöður þeirra viðræðna liggja nú fyrir og eru þær eftirfarandi:
    Ríkissjóður greiðir að öllu leyti rekstrarkostnað Unglingaheimilis ríkisins og meðferðarheimilisins að Torfastöðum frá 1. jan. 1993. Um er að ræða kostnað vegna þeirra verkefna sem skilgreind eru í 6. gr. reglugerðar um Unglingaheimili ríkisins. Frá sama tíma falli niður daggjöld þau er sveitarfélög hafa áður greitt vegna þeirrar starfsemi.
    Ríkissjóður reki á sinn reikning meðferðarheimili fyrir börn sem ekki geta fengið fósturvistun, svokölluð vegalaus börn. Um er að ræða heimili fyrir börn sem fyrirsjáanlega munu ekki eiga kost á fóstri hjá fjölskyldum annars vegar og börn sem þarfnast langtímameðferðar hins vegar.
    Í þriðja lagi: Sveitarfélögin yfirtaki núverandi skyldur ríkisins vegna aksturs fatlaðra, sbr. lög um málefni fatlaðra, enda verði ákvæðum núgildandi laga um málefni fatlaðra breytt í þá veru. Hið sama gildir um skólaakstur og/eða annan tilkostnað sem komið getur í stað skipulegs skólaaksturs og tengist rekstri sérskóla og sérdeilda á vegum ríkisins. Yfirtakan eigi sér stað þann 1. jan. 1993.
    Í kjölfar þessa samkomulags, sem bréfleg staðfesting af hálfu stjórnar Sambands sveitarfélaga liggur fyrir um, leggur meiri hluti félmn. til breytingar á ákveðnum greinum um Ferðaþjónustu fatlaðra sem ég hef hér greint frá.
    Lögð er til breyting á tilvísun í 49. gr. vegna brtt. við 36. gr. Þá er bætt við greinina ákvæði þess efnis að ríkissjóður greiði þann kostnað sem er umfram almennar greiðslur vegna fatlaðra barna á leikskólum.
    Í 50. gr. er kveðið á um að tekjur sem falla til vegna starfsemi stofnana, svo sem af atvinnurekstri, skuli koma til frádráttar rekstrarkostnaði þeirra. Að gefnu tilefni er rétt að það komi fram að hér er einungis átt við eigið aflafé vegna starfsemi eða þjónustu. Af því leiðir að t.d. gjafafé eða fjáraflanir sjálfseignarstofnana eða félagasamtaka geta ekki fallið undir þessa skilgreiningu og koma því alls ekki til frádráttar á rekstrarframlagi úr ríkissjóði vegna starfseminnar.
    Lögð er til breyting á 52. gr. og vísast til athugasemda við brtt. á 36. gr.
    Lagt er til að 53. gr. verði breytt til samræmis við þá breytingu sem lögð er til við 8. gr. frv.
    Lögð er til sú breyting við 57. gr. að ákvæði 36. og 52. gr., sem byggjast á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um akstur fatlaðra, öðlist gildi 1. jan. 1993. Þá er gerð breyting á gildistökuákvæði frv. er verði 1. sept. í stað 1. júní.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða III falli brott með hliðsjón af breytingum við 49. gr. Þá er lagt til að bráðabirgðaákvæði IV falli niður með hliðsjón af því að síðari málsl. 15. gr. falli niður.
    Meiri hluti nefndarinnar vill að fram komi að hann telji mikilvægt vegna þeirrar óskýru réttarstöðu sem íbúar Kópavogshælis búa við að heilbr.- og trmrh. beiti sér þegar fyrir skipan fimm manna nefndar sem hafi það verkefni að gera tillögur um framtíðarhlutverk og skipan Kópavogshælis. Meiri hluti nefndarinnar telur eðlilegt að félmrh., fjmrh., stjórnarnefnd Ríkisspítalanna og stjórnarnefnd í málefnum fatlaðra tilnefni sinn fulltrúa hver og að jafnframt skipi heilbr.- og trmrh. formann án tilnefningar. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma.
    Undir nál. rita Rannveig Guðmundsdóttir, Guðjón Guðmundsson, Gunnlaugur Stefánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Einar K. Guðfinnsson, Eggert Haukdal, með fyrirvara, Jón Kristjánsson, með fyrirvara, og Ingibjörg Pálmadóttir, með fyrirvara.