Málefni fatlaðra

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 18:45:43 (6699)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vegna orða hv. þm. benda á að samkvæmt frv. og því sem nú liggur fyrir varðandi þetta mál er gert ráð fyrir að svæðisstjórnirnar séu eftirlitsaðilar en ekki svæðisskrifstofurnar.
    Varðandi það að ekki sé komið til móts við sjónarmið hv. þm. vil ég taka fram að í nefndarvinnunni var að mínu mati tekið verulega tillit til sjónarmiða sem þar komu fram hjá umsagnaraðilum og nefndarmönnum og ég tel að formaður nefndarinnar hafi lagt sig mjög fram um að reyna að ná breiðu samkomulagi um þetta mál sem ég tel að hafi bærilega tekist til um. Ég vil líka nefna að ekki fyrir mörgum dögum kom fram hjá fjölmörgum hagsmunasamtökum fatlaðra eindregin áskorun á þingið að afgreiða þetta mál, m.a. frá Öryrkjabandalaginu, Þroskahjálp, Sjálfsbjörgu, Geðhjálp og fleiri aðilum, og ég tel einmitt að nefndin hafi kappkostað um að reyna að leysa þau ágreiningsmál sem voru uppi og brtt. bera þess merki að það hafi verið tekið tillit til ýmissa sjónarmiða sem þar koma fram.
    Ég veit að hv. þm. er með töluvert viðamiklar brtt. og ég tel að milli 2. og 3. umr. getum við vel sest niður og rætt þessi mál og þær brtt. sem hv. þm. er með þó að ég taki fram að það sé án skuldbindinga á þessari stundu af minni hálfu.