Brunavarnir og brunamál

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 19:23:23 (6708)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem upp til að gera grein fyrir brtt. sem ég flyt og þeim fyrirvara sem er af minni hálfu á nál. Hann lýtur einmitt að brtt. minni en ekki þeim tillögum sem hv. formaður félmn. var að kynna. Það er samstaða um í nefndinni að flytja þær tillögur og hygg ég að þær muni færa málið til verulegra bóta. Þetta mál var mjög vel rætt í nefndinni og farið vandlega yfir umsagnir og tekið tillit til þeirra eftir því sem mönnum þótti fært og ég hygg að málið sé komið í þann búning sem best getur orðið á þessu þingi a.m.k.
    Vík ég þá að brtt. minni. Það er mín staðföst skoðun að menn eigi í fullri alvöru að beita sér fyrir því að flytja ríkisstofnanir út á land. Menn eigi ekki bara að tala heldur eigi menn líka að gera, menn eigi að framkvæma. Það er nefnilega þannig með þessa umræðu, sem er búin að dynja árum saman og jafnvel lengur á landsmönnum frá stjórnmálaflokkunum, að menn ættu að vera góðir við landsbyggðina, flytja eitthvað af ríkisstofnunum út á landsbyggðina, að þegar kemur að efndunum, að framkvæmdinni, þá leka menn niður alveg hreint hver á fætur öðrum.
    Hver man ekki eftir Byggðastofnun? Á sínum tíma var atkvæðagreiðsla í stjórn Byggðastofnunar um tillögu um að flytja hana út á land, til Akureyrar minnir mig, sem hv. þáv. þm. Geir Gunnarsson flutti. Þegar kom til efndanna láku niður þingmennirnir hver á fætur öðrum og Geir stóð einni uppi sem greiddi atkvæði með þessari tillögu en þrír voru á móti. Hinir komu sér hjá því að lyfta upp hendinni á annan hvorn veginn.
    Ég hef því fagnað ákaflega einu tilteknu ákvæði í hvítu bók ríkisstjórnarinnar sem ber heitið ,,Velferð á

varanlegum grunni.`` Það ákvæði er á bls. 14, tvær línur að vísu. Það er stutt þannig að að mér læðast nokkrar efasemdir um alvöruna á bak við orðin, en orðin eru góð og setningin sem úr þeim kemur og þau eru svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun á kjörtímabilinu beita sér fyrir því að stofnunum og þjónustu á vegum ríkisins verði komið fyrir utan höfuðborgarsvæðisins.``
    Ég tek heils hugar undir þetta markmið og nú vil ég brýna þingheim að fara frá orðum til athafna. Við skulum rifja upp þetta gamla kjörorð íhaldsins frá 1983, Frá orðum til athafna. Við skulum láta á það reyna hvort Sjálfstfl. hefur þá burði sem þarf til að fara frá orðum til athafna. Því hef ég leyft mér að flytja brtt. við frv. um Brunamálastofnun ríkisins í þá veru að sú stofnun verði flutt út á land og ég geri það með ákaflega hógværum hætti og bendi á í leiðinni að hér er um að ræða stofnun sem er ekki stór, hefur fáa starfsmenn og er mjög meðfærileg í flutningi. Þetta er ein af þeim stofnunum sem hvað auðveldast er að flytja. Ef menn heykjast á þessu eru menn búnir að gefa frá sér, a.m.k. þetta kjörtímabil, að ganga til þeirrar áttar sem þau orð stefndu í sem ég vitnaði til áðan úr hinni hvítu bók, Viðeyjarskruddunni nýju.
    Brtt. eru tvær. Með leyfi forseta er sú fyrri að það bætist ný málsgrein við 31. gr., svohljóðandi:
    ,,Heimili og varnarþing Brunamálastofnunar skal vera utan höfuðborgarsvæðisins samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.``
    Hér legg ég það í vald ráðherra að ákvarða hvar hún eigi að vera. Hún á bara að vera utan höfuðborgarsvæðisins. Menn kunna að spyrja: Hvað er utan höfuðborgarsvæðisins? Og þá svara ég á móti: Það stendur í hinni hvítu bók hvað er utan höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem sömdu hina hvítu bók hljóta að vita hvar höfuðborgarsvæðið endar. Látum þá um að vita hvað þeir skrifuðu um.
    Síðari tillagan er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við 33. gr. bætist ný málsgrein er orðist svo:
    Ráðherra skal fyrir árslok 1992 ákveða hvar heimili og varnarþing Brunamálastofnunar verður, sbr. 2. mgr. 31. gr., og skal flutningi Brunamálastofnunar vera lokið fyrir árslok 1993.``
    Ég held að það sé ekki hægt að fara betur í þetta mál, virðulegi forseti, marka stefnuna, fela ráðherra framkvæmd málsins og gefa honum tíma til ákvörðunar og gefa honum tíma til framkvæmda. Og með skírskotun til hinnar hvítu bókar trúi ég ekki öðru en fyrir þessum tillögum sé yfirgnæfandi meirihlutastuðningur á Alþingi. Ég sé að sá þingmaður Sjálfstfl. sem enn sést í sölum Alþingis er greinilega sammála þessum tillögum.
    Virðulegi forseti. Ég hef þá lokið að mæla fyrir brtt. mínum við þetta frv. sem má segja að séu fluttar undir kjörorðinu ,,Frá orðum til athafna``.