Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 21:26:35 (6716)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér fóru fram fyrr í vikunni gagnlegar umræður um rekstrarvanda sjávarútvegsins þegar rædd var skýrsla sem við nokkrir þingmenn Alþb. höfðum beðið um. Þá gerði hæstv. sjútvrh. grein fyrir því með mjög skýrum hætti hver staða sjávarútvegsins væri og hversu gríðarlegur og yfirþyrmandi bráðavandi greinarinnar væri. Þær upplýsingar voru eins og ég segi greinargóðar, en hins vegar var í þeirri umræðu nokkuð lýst yfir því hvað hæstv. ríkisstjórn hygðist fyrir í formi beinharðra aðgerða. Á það skorti nokkuð í máli hæstv. sjútvrh. í þeirri umræðu og því var hann spurður ítrekað að því af mér og fleiri ræðumönnum hvað hæstv. ríkisstjórn hygðist fyrir í formi beinharðra ráðstafana varðandi rekstrarvanda sjávrútvegsins.
    Ég sagði þá m.a., með leyfi forseta, eitthvað á þá leið hvort hæstv. sjútvrh. sæi að hægt væri að gera einhverjar ráðstafanir af hálfu Alþingis eða ríkisstjórnar. Er t.d. sjútvrh., svo að hann fái einhverjar beinar spurningar, tilbúinn að kanna hreinlega að ákveða að breyta lögum um Verðjöfnunarsjóð og greiða út það fé sem í honum er? Þetta er krafa sem stendur á okkur af fiskvinnslunni sem kvartar undan því að hafa þurft að binda þarna eina 3 milljarða kr. við aðstæður sem þrátt fyrir hátt afurðaverð voru henni það óhagstæðar að hún tapar nú fé og enn er afurðaverðið þannig að það er nokkuð í útgreiðslur á þessum peningum sem fiskvinnslan á þarna bundna í sjóðum. Ég vil segja það fyrir mitt leyti að ég er tilbúinn til að skoða þetta mál og, ef menn yrðu sammála um það hér á Alþingi, drífa þess vegna í gegn frv. um að borga þessa peninga út á næstu mánuðum til fyrirtækjanna. Ég ítrekaði svo síðar í umræðunni þessa spurningu mína til hæstv. sjútvrh. og óskaði eftir því að hann kæmi inn í umræður og svaraði þeim beinhörðu spurningum sem ég hafði þá lagt fyrir hann og bauð aftur fram stuðning minn og okkar alþýðubandalagsmanna við það að tíminn á síðustu dögum þingsins yrði að einhverju leyti tekinn í það að afgreiða lagabreytingar þar sem slíkar ráðstafanir til að bæta rekstrarstöðu sjávarútvegsins væru á ferðinni.
    Hæstv. sjútvrh. svaraði því ekki beint hvort hann væri tilbúinn að standa svona að málum, en það hefur hann nú gert með þessu frv. og ég vil sérstaklega fagna því að þessi umræða hefur væntanlega átt sinn þátt í því að hæstv. sjútvrh. ákvað að láta á það reyna hvort mögulegt væri hér á Alþingi á allra síðustu dögum þinghaldsins að afgreiða slíkar ráðstafanir. Að sjálfsögðu stend ég við mín orð og mun gera fyrir mitt leyti það sem í mínu valdi stendur til þess að frv. nái hér fram að ganga og greiða götu þess.
    Ég vil sérstaklega fagna þessu einnig vegna þess að í þessari sömu umræðu samkvæmt skýrslubeiðni okkar alþýðubandalagsmanna um vanda sjávarútvegsins töluðu einnig þeir hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Þess vegna hef ég m.a. óskað eftir því að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur umræðu og mætti garpurinn sjálfur, hæstv. utanrrh., auðvitað vera það einnig, en ég ætla ekki að hirða um það frekar hvort svo tekst til.
    En þannig var nefnilega að í þessari umræðu varð ekki málflutningur þeirra hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. skilinn á neinn veg annan en þann að ekki stæði til að gera neitt sérstakt í vanda sjávarútvegsins nú á þessum vordögum, alls ekki neitt. Það kom mjög skýrt fram í þeirra ræðum og fleiri en einn og fleiri en tveir ræðumenn vöktu sérstaka athygli á því og það olli mönnum vonbrigðum í þessari umræðu að um algert skilningsleysi virtist vera að ræða hjá hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hvað þennan vanda snerti. Þeim mun meira fagnaðarefni er mér það að hæstv. sjútvrh. hefur nú unnið smásigur í þeirri glímu sem alþjóð veit að hann hefur átt í í ríkisstjórninni um að fá að gera eitthvað róttækt varðandi rekstrarvanda sjávarútvegsins. Það er mér alveg sérstakt fagnaðarefni að sigurinn í þeirri glímu fór á þennn veginn og hæstv. sjútvrh. hefur fengið frið til að leggja fram þetta frv. fyrir úrtölumönnunum í ríkisstjórn.
    Ég tel, eins og ég sagði við umræður um skýrslubeiðni okkar alþýðubandalagsmanna, að þetta sé skynsamleg ráðstöfun. Ég rökstuddi það þá hvers vegna ég teldi svo vera og ég þarf ekki að fara með þau orð aftur. Ég vísa til þess sem ég þá sagði. Ég tel að það sé í sjálfu sér engin sérstök efnahagsleg áhætta tekin með því að ráðstafa þessum fjármunum Verðjöfnunarsjóðsins svona og ég nefndi sérstaklega í minni ræðu þann möguleika að standa svona að hlutunum, þ.e. að ráðstafa fjármununum til greiðslu gjaldfallinna afborgana skulda sjávarútvegsins í sjóðum og gagnvart öðrum skuldunautum. Ég tek það fram að ég hef ekki haft tíma til þess enn þá að fara yfir tæknileg atriði frv. í einstökum atriðum frekar en væntanlega ýmsir fleiri hv. alþm. og tel þess vegna óhjákvæmilegt að sjútvn. fái svolítinn tíma til að fara yfir þá hluti og ræða við höfunda frv. og helstu hagsmunaaðila sem þessu máli tengjast, en vonandi tekur það ekki meiri tíma en svo að auðvelt verði að ljúka því og koma málinu aftur til afgreiðslu.
    En það er ekki hægt, hæstv. forseti, við þessa umræðu nú, það er ekki hægt hversu velviljuð sem við erum málinu og hversu mikið sem við viljum á okkur leggja til að greiða götu þess og spara hér tíma í umræðum að neita sér um að segja fáein orð við hæstv. forsrh. af þessu tilefni.
    Það sem ég ætla að ræða við hæstv. forsrh. núna er fortíðarvandi Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. Það er þetta sjóðasukk, Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins. Það er þessi tómi sjóður sem núv. hæstv. ríkisstjórn tók við í þessum efnum. Við erum búnir að sitja undir því, við sem berum ábyrgð á fráfarandi ríkisstjórn, stanslaust síðan hæstv. forsrh kom til valda að hann hefur rætt viðskilnað þeirrar ríkisstjórnar, hann hefur borið hana óhróðri og hann hefur reynt að fylla þjóðina upp með fordómum gagnvart því að

hann hafi tekið við alveg einstöku þrotabúi, þessi núv. hæstv. forsrh. Þeim mun skemmtilegra er það nú fyrir okkur að geta með þessum sjóði, sem myndaðist í tíð fyrrv. ríkisstjórnar vegna skynsamlegrar ráðstöfunar þá og skynsamlegrar efnahagsstjórnunar og forsjálni þegar batnandi afkoma sjávarútvegsins var að nokkru leyti tekin til hliðar og myndaðar innstæður í staðinn fyrir að fara beint út í verðlag og valda kannski þenslu, komið núna hæstv. ríkisstjórn til bjargar með þessum sjóði, með þessari innstæðu, með þessari ráðdeildarsemi sem verður núna ríkisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar að liði þegar hún á í hvað mestum þrengingum hvað málefni sjávarútvegsins snertir. Vill ekki hæstv. forsrh. vera svo vænn, það þarf ekki að taka langan tíma, að koma hérna upp og útskýra það fyrir mér og e.t.v. fleirum hvernig þessi ráðstöfun núna, hvernig Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins fellur inn í heimsmynd hans um fortíðarvandann og sjóðasukkið frá tíð fyrri ríkisstjórnar? Ég veit ekki betur en hæstv. forsrh. hafi jafnvel óbeðinn tekið sér það fyrir hendur í fjölmiðlum núna í kvöld að mæla fyrir hönd hæstv. sjútvrh. um þessar ráðstafanir og hefði ég nú talið fara betur á því að flytjandi frv., hæstv. sjútvrh. sjálfur, hefði talað fyrir sínum tillögum og sínum ráðstöfunum í þessum efnum. En forsrh. gerði það engu að síður og það er svo sem innanhúsmál í ríkisstjórninni hver talar fyrir hvern þar, en hitt verð ég að segja að ég gat ekki betur skilið fréttirnar en svo að hæstv. forsrh. teldi þetta harla góða ráðstöfun og skynsamlega og hið besta mál og þeim mun meiri ástæða er til þess að hann komi hérna upp og geri okkur þann greiða að útskýra hvernig þetta fellur inn í þindarlaus ræðuhöld hans, linnulaus, sem nú hafa staðið í rúmlega ár um fortíðarvandann og hinn slæma arf sem hann tók við frá fyrri ríkisstjórn.
    Nei, það er eins og ég segi ánægjulegt að geta vegna þess hvernig að málunum var staðið í tíð fyrri ríkisstjórnar komið núna sjávarútveginum til hjálpar með þessum ráðstöfunum og það vonum við svo sannarlega að þetta verði sjávarútveginum til góðs og auðveldi honum að komast í gegnum þá miklu erfiðleika sem hann núna stendur frammi fyrir. Hitt er svo ljóst og það skal ég um það bil láta verða mín síðustu orð að það er ekkert ánægjuefni, auðvitað er það ekkert ánægjuefni að greiða út á einu bretti og nota eins og leggur sig þessa þriggja milljarða innstæðu sjávarútvegsins, að tæma hana núna í einni ráðstöfun. Það er ekkert sérstakt fagnaðarefni að þurfa að grípa til varasjóðsins með þeim hætti að hann sé allur notaður upp á einu bretti, en það er það sem hér er verið að leggja til, að tæma þann verðjöfnunarsjóð sem sjávarútvegurinn náði þó að mynda í tíma batnandi afkomu á undanförnum árum. En við verðum að beygja okkur undir að aðstæður sjávarútvegsins eru þannig að það verður að grípa til einhverra ráðstafana honum til handa og vonandi er að takast samstaða um eina leið af mörgum sem ég hef a.m.k. talið koma til greina í þessu sambandi og bauð upp á fyrir mitt leyti að stuðla að samkomulagi um að gert yrði. Auðvitað hefði maður viljað sjá hér margt fleira fylgja með, svo sem eins og harðari aðgerðir gagnvart rekstrarumhverfi sjávarútvegsins sjálfu með því að taka niður vaxtakostnað og annan tilkostnað og fleira af því tagi, en maður hlýtur að taka fagnandi því sem reynt er þó að gera í þessum efnum.
    Útgreiðsla úr sjóði af þessu tagi er að sjálfsögðu ekki varanleg lausn í þeim skilningi að hún breytir ekki sem slík rekstrarumhverfi sjávarútvegsins, hinum ytri aðstæðum hans, en hún kemur fyrirtækjunum mjög til góða, bætir stöðu þeirra við sína lánardrottna og ætti að auðvelda þeim að lifa af þessa erfiðu tíma.
    Herra forseti. Ég læt þá lokið máli mínu með því að fagna á nýjan leik þeim árangri sem hér hefur náðst og ég vona að það takist að afgreiða þetta mál. Ég vil einnig leyfa mér að halda að þetta sé dæmi um að skoðanaskipti og umræður um málefni t.d. atvinnuveganna hér á hinu háa Alþingi geti haft nokkuð gott í för með sér, jafnvel þó í það fari svolítill tími, hæstv. forsrh. Jafnvel þó hans hátign hæstv. forsrh. verði að sitja undir svolitlum ræðum kemur það kannski í ljós að stundum hefst nokkuð gott upp úr því að menn á Alþingi Íslendinga skiptist á skoðunum og ræði hin stærstu hagsmunamál. Ég a.m.k. vil leyfa mér að trúa því að hér sé að líta dagsins ljós árangur af slíkum skoðanaskiptum og því fagna ég.