Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 21:43:31 (6719)


     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Það frv. sem liggur fyrir gerir ráð fyrir því, eins og fram kom í máli hæstv. sjútvrh., að greiða út eða nota til greiðslu á skuldum sjávarútvegsins nánast allar innstæður í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Þetta er að sjálfsögðu mikilvæg ákvörðun. Um hana má vissulega deila, en það góða er þó að þarna skuli vera til verulegt fé til að koma til móts við sjávarútveginn í þessum erfiðleikum. Þegar Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins var endurreistur vorið 1990 var það gert í verulegri andstöðu við hagsmunasamtök sjávarútvegsins og má segja að nánast enginn vildi standa að því. Það var hins vegar talin mikilvæg ákvörðun út frá hagfræðilegum sjónarmiðum að sjávarútvegurinn legði til hliðar í góðæri og gengi íslensku krónunnar tæki mið af því að sjávarútvegurinn ætti að leggja í sjóð þegar verðlag er mjög hátt og með sama hætti að fá úr viðkomandi sjóðum þegar verðlag lækkaði.
    Með þeirri ákvörðun sem hér er verið að taka er nokkuð gengið gegn upphaflegum tilgangi. Hér er ekki eingöngu um verðfall að ræða heldur líka veruleg vandamál í sambandi við aflabrögð og því má segja að það sé verið að brjóta þau prinsipp sem upphaflega voru sett eða breyta þeim réttara sagt. Að mínu mati þurfa að vera til þess þung rök sem ég tel að séu til staðar við núverandi aðstæður, en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi að halda áfram á sömu braut og viðhalda Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins og þeirri hugsun sem þar liggur að baki. Ég er þeirrar skoðunar að sjávarútvegurinn verði að leggja til hliðar þegar vel gengur vegna þess að það muni alltaf koma ár sem eru verri og þá verði þessi atvinnugrein að eiga innstæður til að mæta áföllunum.
    Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að umræðan um svokallaðan auðlindaskatt sé þess eðlis að það sé nauðsynleg sátt í þeirri umræðu að krefjast þess af sjávarútveginum að hann leggi til hliðar þegar vel gengur þannig að t.d. iðnaðurinn lendi ekki í vandræðum vegna velgengni sjávarútvegsins ef svo má komast að orði. Auðvitað hefur gengisskráningin oft og tíðum verið miðuð við afkomumöguleika sjávarútvegsins og þess vegna orðið til þess að skekkja grundvöll annarra atvinnugreina. Það má segja að sú ráðstöfun sem nú er verið að fara út í sýni hversu fráleitt það var og er að skattleggja sjávarútveginn, sérstaklega við núverandi aðstæður, og sú ákvörðun sem ætti að taka fyrst af öllum er að taka til baka þá sérstöku skattlagningu sem ríkisstjórnin kom á þegar hún komst til valda og flokkarnir komu sér saman um og Alþfl. sérstaklega hefur boðað framhald á. Þess vegna væri mikilvægt að núv. ríkisstjórn lýsti því yfir í eitt skipti fyrir öll að allar slíkar hugleiðingar hefðu verið settar til hliðar og hún tæki til baka fyrri ákvarðanir. Það er óþolandi fyrir greinina að búa við þær hótanir sem hafa legið í þeim orðum, ekki síst af hálfu Alþfl. og ráðherra hans í núverandi ríkisstjórn.
    Ég held að það hafi alltaf legið fyrir að því er varðar þennan sjóð að hann hefur ekki verið tómur og er nú dæmi um inneign sem er mikilvæg við núverandi aðstæður og ég vil líka nefna annan sjóð sem ekki var heldur tómur, sem er Úreldingarsjóður, en hins vegar hefur núv. ríkisstjórn tekið ákvörðun um að greiða mun hraðar út úr honum, sem ég get fallist á, en einnig svipt þann sjóð tekjumöguleikum sínum að verulegu leyti. Þótt það sé mikilvægt að hraða úreldingu fiskiskipa verður það ekki gert úr tómum sjóði og því er alvörumál að það stefnir í það að Úreldingarsjóður eigi litlar eignir eftir tiltölulega stuttan tíma og vantar þess vegna tekjur eins og gert var ráð fyrir að hann mundi búa við samkvæmt eldri lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Þótt ég geti fyrir mitt leyti stutt þessa aðgerð vil ég benda á þá staðreynd að hún ein og sér mun ekki lagfæra rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins er mjög slæmur eins og þegar hefur verið viðurkennt, m.a. af núv. hæstv. sjútvrh., og útgreiðsla

úr Verðjöfnunarsjóði nú breytir í reynd engu þar um. Það er taprekstur og þótt þessir peningar verði greiddir út til þess að greiða niður skuldir mun það ekki lagfæra tapreksturinn nema að litlu leyti eða sem nemur vöxtum af því fé sem þarna kemur inn í sjávarútveginn. En auðvitað verður líka að gera kröfu um að sjávarútvegurinn hafi arð af sínu eigin fé.
    Þetta er hið alvarlega í málinu og þess vegna vil ég taka undir það, sem fram kom hjá hæstv. sjútvrh., að það er nauðsynlegt að gera ýmsar aðrar ráðstafanir sem við höfum rætt mjög ítarlega hér á Alþingi og ég ætla ekki að fara að gera að sérstöku umtalsefni nú. Ég vil hins vegar fagna því, sem hann sagði, að það þyrfti að leiðrétta raungengið, sérstaklega miðað við það sem var í febrúar 1990, en hæstv. utanrrh. notaði orð mín í því sambandi til sérstakra árása á mig og sagði að ég væri að heimta gengisfellingu. Ég er ekki að heimta gengisfellingu, en ég er að heimta, þótt ég vilji ekki nota það orð í þessu sambandi, ég er að krefjast þess að það séu gerðar ráðstafanir til þess að sjávarútvegurinn geti staðið undir öllum þeim skuldbindingum sem hann stendur frammi fyrir og öllum þeim kröfum sem til hans eru gerðar með eðlilegum hætti. Það er engum til góðs að þessi atvinnugrein sé rekin með tapi. Það mun verða til þess að þjóðfélagið mun brotna smátt og smátt niður og það verður að viðurkenna að við Íslendingar getum ekki staðið frammi fyrir því lengi að mikilvægasta undirstöðuatvinnugrein okkar sé rekin með tapi. Það höfum við aldrei getað og við verðum að mæta því með einum eða öðrum hætti. Eitt af því sem er nauðsynlegt í því sambandi er leiðrétting á raungenginu og ég lít svo á að nú sé það stefna núv. ríkisstjórnar að þessi leiðrétting eigi sér stað og því hlýt ég að taka lítið mark á því sem hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson sagði m.a. í þessu samandi.
    Ég vil jafnframt benda á nauðsyn þess að breyta skattastefnunni gagnvart sjávarútveginum, afnema aðstöðugjaldið sem lítt gengur með. Það er jafnframt nauðsynlegt að lækka vexti frá því sem nú er og halda áfram á þeirri braut. Ég viðurkenni vissulega að þar hefur náðst árangur, en vextir eru enn of háir og ekki við því að búast að sjávarútvegurinn geti staðið undir jafnháum raunvöxtum og er í dag, hvað þá að hann geti staðið í miklum fjárfestingum.
    Það er líka nauðsynlegt að taka til baka þá sérstöku skattlagningu sem sett var á sjávarútveginn og hann þarf að byrja að greiða nú á haustmánuðum. Þótt hallarekstur ríkissjóðs sé alvarlegt mál er hallarekstur sjávarútvegsins enn þá alvarlegra mál og er það með eindæmum að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki viðurkenna það því að með því að stofna til skattlagningar á sjávarútveginn og auka halla hans er í reynd verið að draga úr þjóðartekjum. Þótt ríkisbúskapurinn bætist lítillega vegna slíks er það til þess fallið að draga úr tekjuöflun þjóðarbúsins. Skattpíning er til þess fallin oft og tíðum að draga úr möguleikum aðila til að bjarga sér. Þetta er viðurkennt af flestum og þar af leiðandi er hallalaus ríkisbúskapur ekki einhlít aðgerð í sambandi við stöðugleika í efnahagsmálum þótt ég sé á engan hátt að gera lítið úr nauðsyn þess að ríkissjóður sé rekinn á sem bestan hátt.
    Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að halda um þetta mál langa ræðu. Ég tel nauðsynlegt að við fáum tækifæri til að fara yfir það í sjútvn. á morgun. Mér finnst það vera álitamál ef búið er að nota peningana til fyrstu fjögurra atriðanna, þ.e. afborgana og vaxta, skattskulda o.s.frv., að afgangurinn skuli notaður til lækkunar höfuðstóls. Mér fyndist á margan hátt eðlilegra að það væri þá notað til þess að borga fyrst væntanlegar afborganir og vexti ársins 1993 áður en greiðslur gengju til almennrar lækkunar á höfuðstól. Fyrirtækin eru mörg hver þannig stödd að greiðslubyrði þeirra er ekki aðeins mikil nú sem stendur heldur jafnframt á næstu árum og því ætti það að hjálpa betur til í sambandi við fjárhagslega endurskipulagningu jafnvel þótt ég viti að trúlega eru fá fyrirtæki sem eiga eitthvað eftir þegar fyrstu fjórir liðirnir hafa verið notaðir. Þetta er í sjálfu sér ekkert stórmál, en slík atriði hljóta að geta verið til umræðu við umfjöllun á málinu í nefnd á morgun. En ég get fyrir mitt leyti reynt að standa að því að mál þetta verði afgreitt sem fyrst eftir helgina og við stöndum þannig að málum að það hljóti afgreiðslu fyrir þinglok.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa frekari orð um þetta mál, en vildi fyrst og fremst leggja á það áherslu að með þessu er ekki verið að leiðrétta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins eins og þarf að gera og því mun sjávarútvegurinn verða áfram í erfiðleikum þrátt fyrir þessa aðgerð.