Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 21:59:43 (6720)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en fagnað því að hæstv. sjútvrh. beitir sér fyrir því að gripið verður til nauðsynlegra sértækra aðgerða vegna þeirra sérstöku og erfiðu aðstæðna sem eru í sjávarútvegi nú. Vissulega er um örþrifaráð að ræða vegna aðstæðna sem auðvitað hefði verið best að ekki hefðu upp komið. Það er margt sem hefur lagst á eitt að skapa þessar erfiðu aðstæður og sumt af því eru hreinar stjórnvaldsaðgerðir, svo sem það háa vaxtastig sem við höfum búið við, sem hefur íþyngt fiskvinnslunni alveg hreint óskaplega, og það er ekki hægt að segja annað en við höfum varað við þessu frá upphafi. Þetta var fyrirsjáanlegt. Þessu hefði mátt afstýra. Þarna hefði mátt halda betur á spöðunum. Það hefur hins vegar ekki gerst. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að það er fleira sem spilar þarna inn í, en m.a. er nauðsynlegt að grípa til sértækra aðgerða vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem skapast hafa. Ég vona jafnframt að það muni verða viðurkennt eigi síðar en á haustdögum að eins og ástandið er nú í fiskvinnslu hér á landi er ekki hægt að íþyngja henni með því að leggja þær álögur á sem þó hefur verið tekin ákvörðun um með miklum mótmælum okkar stjórnarandstæðinga. Þetta vonast ég til að verði viðurkennt.
    Ég tek það jafnframt fram og vil að það komi hér fram strax að með þessu er ég ekki að taka undir þær raddir, sem heyrast alltaf af og til, að leggja beri sjóðinn niður. Ég tel Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins nauðsynlegan og það sýnir sig kannski best núna þegar við erum að grípa til þessara aðgerða hversu gott er að geta gert slíkt, hversu nauðsynlegt er að eiga eitthvað í sjóði. Ég tek þetta sérstaklega fram vegna þess sem segir í athugasemdum á bls. 4 með frv. og vil taka undir að hér sé um tímabundnar breytingar að ræða. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Tilgangur þessara tímabundnu breytinga á lögum sjóðsins er að stuðla að því að þau fyrirtæki sem myndað hafa þessar inneignir geti ráðstafað þeim til greiðslu vanskilaskulda og þannig lækkað þann mikla vaxtakostnað sem þeim fylgir. Hér er einungis um tímabundna ráðstöfun að ræða og ekki gerð tillaga um neinar varanlegar breytingar á starfsemi sjóðsins að öðru leyti.`` --- Þetta finnst mér mjög mikilvægt að fylgi mínu máli því að það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að það eru háværar raddir um það að þessi sjóður eigi ekki rétt á sér. Undir það get ég ekki tekið. En þess vegna líka varð mér dálítið órótt þegar ég las áfram. Þar stendur: ,,Hins vegar er tillagna að vænta um framtíðarskipan sjóðsins nú í sumar frá nefnd sem sjútvrh. skipaði sl. haust.``
    Mig langar raunar að spyrja út í hvernig þessi nefnd er skipuð þar sem önnur nefnd var áður að starfa að sama máli og þar komu kvennalistakonur að, en mig langar til þess að vita nánar um þessa nefnd og geri ég ráð fyrir að það sé hægt að gera grein fyrir því í örstuttu máli. Um annað er ég ekki að biðja. Ég legg sem sagt sérstaklega áherslu á að þarna er um tímabundna breytingu að ræða og ég tek undir það sem stendur í athugasemdunum.
    Ég vek athygli á því að það eru einhver fyrirtæki sem hafa ekki kost á að fá greiddar sínar innstæður úr sjóði þar sem þau falla ekki undir skilgreiningar um skuldsetningu. Ég þekki ekki aðstæður þessara fyrirtækja og leyfi mér að gera ráð fyrir því að þau þurfi ekki á þessu að halda. Af góðri reynslu af störfum sjútvn. geri ég hins vegar ráð fyrir því að þetta sé eitt af því sem við munum taka fyrir í umfjöllun nefndarinnar og ég get í rauninni ekki ímyndað mér að þetta komi að sök, en vek þó athygli á þessu.
    Varðandi nánari útfærslu höfum við ekki haft í höndunum nema örstutt þetta orðalag og þann hátt sem hafður verður á og ég hugsa að vanda vel og með góðum hug störf í nefnd. Ég geri ráð fyrir að sjútvn. beri gæfu til þess eins og alltaf þegar hún er samstiga að geta fjallað málefnalega um þetta mál þótt ég geri mér grein fyrir því að hér störfum við undir mikilli tímapressu og ég viðurkenni það og er fús til að leggja mitt af mökum til að greiða fyrir málinu.
    Varðandi það að tæma sjóðinn eða svo gott sem er það auðvitað áhyggjuefni. En ég ítreka það enn og aftur að hér er ekki verið að leggja sjóðinn niður og það er grundvallaratriðið.
    Ég tek undir með þeim sem hér hafa bent á að þetta er einungis hluti af þeim ráðstöfunum sem þarf að gera til þess að sjávarútvegur og fiskvinnsla fái þrifist. En það getur verið nauðsynlegt að grípa til sértækra aðgerða og ég fagna því þar með að það hefur verið viðurkennt hér og það hefur verið gert og það hefur verið tekið á því af ábyrgð og festu og í samráði allra. Það væru vinnubrögð sem oftar mættu eiga sér stað á Alþingi að það væri farið út í náið og gott samráð og ég held að það sé farsælast fyrir alla. Þetta er að sjálfsögðu í hróplegri andstöðu við það sem gerðist hér fyrr í dag þegar allt samráð og öll andstaða var hundsuð og keyrt í gegn afleitt frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna.