Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 22:07:13 (6721)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni mjög stórt mál. Hér eru menn að tala um að taka fjármuni úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins í öðrum tilgangi en upphaflega var reiknað með. Þessi ákvörðun skiptir mjög miklu máli fyrir sjávarútveginn. Þó svo að hún þýði ekki að sjávarútvegsfyrirtækin verði rekin almennt eftir hana með hagnaði skiptir hún verulega miklu máli.
    Það þarf auðvitað fleira til að koma. Menn verða að geta gert fleiri ráðstafanir en þær sem hér hafa komið fram og þær sem hér eru á döfinni eftir því sem maður hefur heyrt talað um. Að vísu er ævinlega í hverri ræðu talað um að það sé verið að vinna að því að lækka vexti, en það gengur ansi hægt enn þá þó að vonandi komi nú að því að þeir lækki niður í þær hæðir að atvinnulífið í landinu geti staðið undir þeim til langframa. En ég held að það sjái allir skynsamir menn að þeir vextir sem nú eru í þjóðfélaginu og eru búnir að vera undanfarið geta ekki staðið til langframa vegna þess að það er enginn atvinnurekstur sem getur keppt við þann arð sem fjármagnið gefur af sér í ávöxtun. Auðvitað er það ávísun á atvinnuleysi þegar slíkt ástand varir árum saman eins og það hefur nú þegar gert.
    Í umræðu sem var vitnað til áðan um sjávarútvegsmál sem Alþb. stóð fyrir, þá vitnaði ég í Fréttabréf Samtaka fiskvinnslustöðva þar sem þeir nánast fallast á samkomulag ríkisins og aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör á næstunni en benda raunar á nánast þetta sem eitt af stærstu málunum sem gætu orðið til hjálpar í sjávarútveginum. Það voru ýmsir ræðumenn sem komu að þessu máli og bentu á að þarna væru peningar sem sjávarútvegurinn í landinu ætti og spurðu mjög grannt eftir því hvort ekki ætti að skoða það mál nánar. Það fengust engin svör þá, en svörin eru komin núna. Og það vil ég segja nú að mér finnst að það séu nokkur tíðindi þegar stjórnarandstaðan tekur ábyrgð á slíkri gerð sem hér á að fara að gera.

Þetta er neyðarráðstöfun og það eru mikil tíðindi þegar stjórnarandstaðan tekur þátt í því að skjóta stoðum undir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eins og við erum að gera með því að taka undir og hjálpa til við að láta þetta mál fara hér í gegn því að mér er ekki grunlaust um það að ríkisstjórnarflokkana hafi skort kjark til þess að ráðast að þessum sjóði. En þeim hefur vaxið kjarkur þegar það kom í ljós að stjórnarandstaðan var tilbúin að skoða það mál sem hér er komið á borð þingmanna.
    En ég verð að segja alveg eins og er að ef það á að vera til sjóður sjávarútvegsins sem á að geymast til mögru áranna, hvenær á þá að nota hann ef það á ekki að nota hann nú þegar sjávarútvegurinn býr við mjög erfið skilyrði? En ég vona eindregið að hér verði ekki látið staðar numið. Það verði farnar leiðir sem duga til þess að sjávarútvegurinn komist á rekstrargrundvöll þannig að menn standi ekki frammi fyrir því að láta sjávarútveginn halda áfram að tapa þetta árið, mínus það sem tekið er úr þessum sjóðum, og að upp hlaðist vandamál sem menn standa þá frammi fyrir um næstu áramót, að grundvöllur sjávarútvegsins verði jafnvel orðinn verri en hann er núna og enginn sjóður til að ganga í.
    Ég er tilbúinn að leggja mitt af mörkum til þess að þetta verði samþykkt hér í þinginu og ég vona að stjórnarandstaðan sé ekki að taka ábyrgð á máli sem verði látið eitt duga og sjávarútvegurinn verði látinn halda áfram að trénast upp eins og hann hefur verið að gera undanfarið. Ég tel að þessi aðgerð treysti atvinnu í sjávarbyggðunum í kringum landið. Þó svo hún dugi ekki til er hún mjög mikilvæg.
    Ég ætla ekki að fara að halda hér langar ræður um þessi mál þó að það væri auðvitað nóg efni til þess og vonandi einhver kraftur í hæstv. forsrh. eftir til að hlusta á þær. En mig langar til viðbótar til að segja að ég fagna því alveg sérstaklega að sjóður sem hefur verið til umræðu undanfarna daga, Lífeyrissjóður sjómanna, nýtur góðs af þessu. Í hann koma verulegir peningar og það er fagnaðarefni því að ekki stendur hann vel eftir þeim lýsingum sem hafa komið fram í plöggum sem við höfum séð. ( Gripið fram í: Það er spurning hvort hann á ekki meira.) Spurning, já, hvort hann á ekki meira en þetta. En það er fagnaðarefni að þar skuli koma inn nýir fjármunir. Og ég vil fagna því í lok minnar ræðu að ríkisstjórnarflokkunum hefur vaxið svo kjarkur við þá umræðu sem fór hér fram að tilhlutan Alþb. að þeir hafa komið með raunhæfa tillögu til að létta vanda sjávarútvegsins.