Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 22:14:08 (6722)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég á að fjalla aðeins um rekstrarvanda sjávarútvegsins. Menn hafa verið að því og kannski er ekki ástæða til þess þar sem að hæstv. forsrh. hefur vikið sér frá. En ég hefði kannski eytt örfáum orðum í það hefði hann verið hér. Ég þarf ekki svo mikið að ræða það við hæstv. sjútvrh. Hann hefur heyrt mig segja það hér oft áður því að hann situr venjulega inni þegar við ræðum um þessa atvinnugrein.
    En forsrh. hefur verið mjög tíðrætt um hve þessi undirstöðuatvinnugrein sé mikið skuldsett og segir þá jafnframt --- og hér er hæstv. forsrh. mættur --- að hún skuldi um 90--100 milljarða kr. og það mun rétt vera. Það finnst mér vera galli á framsetningu þess máls af hæstv. forsrh. að mér hefur fundist liggja á milli orðanna að greinin muni ekki geta staðið undir þessari skuldsetningu og hæstv. forsrh. leiðréttir mig þá því að ekki vil ég fara að gera honum upp eitthvað sem ekki er rétt.
    Það var samt svo að árið 1990 gerði sjávarútvegurinn meira en að borga allt sem honum bar á árinu 1990. Árið 1991 stóð nokkurn veginn á sléttu að sjávarútvegurinn gæti staðið við þær skuldbindingar sem á honum hvíldu, sem betur fer. En því miður fór að halla undan fyrir þessari atvinnugrein síðari hluta ársins og við vitum af hverju það var. M.a. vegna vaxtahækkana og ýmissa íþyngjandi aðgerða sem þá voru lagðar á atvinnureksturinn í landinu og einnig þá á sjávarútveginn. Og ég tala nú ekki um það sem liðið er af þessu ári. Þá hefur einnig verið haldið áfram að skattleggja þessa grein. Það er það sem veldur. Ef sjávarútvegurinn, hæstv. forsrh., hefði þau starfsskilyrði sem hann hafði og búið var af síðustu ríkisstjórn að búa þessari atvinnugrein, þá væri ég ekkert hræddur um að greinin mundi ekki spjara sig. Og ég held að hún hefði getað það og ég trúi því núna að menn séu að átta sig á því að það hafi verið gerð alvarleg mistök.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vildi aðeins koma þessu að. Vegna þess að menn fóru að tala almennt um afkomu greinarinnar gat ég ekki setið á mér að draga þetta hér fram.
    Ég fagna frv. náttúrlega eins og aðrir. Það kveður á um útborganir af innstæðum á reikningum sjávarútvegsins úr Verðjöfnunarsjóði. Það er nefnilega þannig að ég hef oftsinnis á yfirstandandi þingi þegar fjallað hefur verið um rekstrarvandann í sjávarútveginum hvatt til þess fyrir það fyrsta að inngreiðslum í sjóðinn væri hætt og einnig að rekstrarumhverfi í greininni væri slíkt að það ætti að greiða úr sjóðnum. Þetta hef ég sagt margsinnis í ræðum úr þessu púlti í vetur. Því fagna ég alveg sérstaklega að þetta skuli nú vera komið fram.
    Það er ekki vafi að þessi aðgerð kemur til með að hafa jákvæð áhrif fyrir atvinnugreinina. En ríkisstjórnin, og þá bið ég hæstv. ráðherra að leggja við hlustirnar, verður hins vegar að gera sér grein fyrir því að hér er aðeins tekið eitt örstutt skref á lengri leið til að draga úr hallarekstri sjávarútvegsins.
    Við þingmenn Framsfl. munum skoða þetta mál með opnum huga og reyna að sjá til þess að frv. nái hér fram. Ég fullyrði ekki um að það verði óbreytt, en að frv. nái hér fram. Við munum leggja okkur fram við það. En ég vil jafnframt taka mjög sterklega fram að við framsóknarmenn munum gera allt sem við megum til að knýja ríkisstjórnina til frekari verka að búa sjávarútveginum viðunandi rekstrarskilyrði.

Það sannast einmitt í kvöld að málflutningur okkar í vetur hefur náð eyrum ríkisstjórnarinnar þannig að það hefur ekki verið til einskis talað í vetur í þessu máli.