Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 23:28:05 (6727)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Vestf. ræðu hans þó að ég sé ekki að öllu leyti sammála því sem hann hefur sagt og reyndar þakka ég hans fyrri ræður. Umræður hafa átt sér stað 4., 14. og 26. nóv. og svo nú aftur, gríðarlega umfangsmiklar umræður. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki nógu minnugur svo að ég varð að lesa aftur umræðuna frá því í nóvember. Hv. þm. sem síðast talaði flutti mjög yfirgripsmiklar ræður þá. Ég verð að segja alveg eins og er að honum tókst þrátt fyrir að hann hafi farið víða um nánast ætíð að tengja umræðuefnið við það sem var á dagskránni þó að hún væri yfirgripsmikil ræðan hans. Ég vona að þau orð sem ég lét falla í hans garð á dögunum hafi ekki sært hann á nokkurn hátt. Það var ekki meiningin.
    Aðeins vegna þess sem hann sagði um borgina, þá er ég þeirrar skoðunar að borg og byggð styrki hvort annað og ég held reyndar að borgin í sjálfu sér geti einmitt verið það viðnám sem þetta land þarf á að halda og byggðirnar þá um leið gagnvart þeim sogkrafti sem annars staðar er. Ég vil líka nefna það, af því að hv. þm. sagði að menn hefðu misst trúna á byggðirnar, að ég er honum ósammála um það. Fyrrv. forsrh., fyrirrennari minn, sagði eins og frægt varð að byggðastefnan hefði brugðist. En það er ekki þar með sagt að byggðirnar hafi brugðist eða fólkið í byggðunum hafi brugðist. Ég er ekki þeirrar skoðunar. En byggðastefnan kann að hafa brugðist eins og minn ágæti fyrirrennari sagði á frægum blaðamannafundi.