Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 00:05:24 (6732)


     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég vil leyfa mér að inna forseta eftir því hvað er fyrirhugað um fundahöldin frekar hér í kvöld eða reyndar í nótt með hliðsjón af því að þetta er nú þegar orðinn nokkuð langur dagur hjá okkur á Alþingi, fundahöld búin að standa síðan snemma í morgun í sumum nefndum þingsins og síðan meira og minna samfelldur fundur síðan 11 í morgun, eða í gær ef ég man rétt. Það er búið að afgreiða fjölda mála milli umræðna og hér hafa verið tekin fyrir telst mér til ein 15--17 mál. Og með hliðsjón af þessu öllu vildi ég spyrja hæstv. forseta hvað hann hyggst fyrir eða hver er ætlunin með frekara fundahald. Ef ekki eru margir á mælendaskrá í þessari umræðu, sem miklar þrautir hafa nú verið samfara að ljúka, þá mun ég ekki gera athugasemd við það af minni hálfu að henni verði lokið, en ég mundi gjarnan leyfa mér að leggja það til að þar yrði líka látið við það standa og ekki tekin fleiri mál fyrir af annars þeirri löngu dagskrá sem starfað er eftir á fundinum. Það fýsir orðið ýmsa þingmenn að komast til síns heima og taka á sig náðir og hvíld og einhverjir mundu hugsanlega leyfa sér að láta sig hverfa úr húsinu ef hæstv. forseti gæti fullvissað okkur um að ekki yrðu tekin fyrir fleiri þingmál. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. forseta hvernig þessu sé háttað.