Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 00:59:38 (6743)


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það er orðið dimmt yfir borginni og komin nótt þannig að áður en ég hef mál mitt væri kannski fróðlegt að vita hvað fram undan er á þessari nótt. ( Forseti: Ef að líkum lætur er hv. ræðumaður síðasti ræðumaðurinn.) Og síðasta mál á dagskrá? ( Forseti: Væntanlega, já.) Ég mun ekki halda fyrir mönnum vöku hér með löngum ræðuhöldum við þær aðstæður að svefninn er að færast yfir borgina og strangur dagur fram undan.
    Þessi umræða er búin að standa æðilengi, frá því á haustdögum. Það má undra sig á því þrekleysi þessa þings að forsrh., sem hóf þessa umræðu 4. nóv., skuli ekki hafa komið því í verk að ljúka henni fyrr en á vordögum.
    Hitt er svo annað mál að það væri ærin ástæða til þess fyrir Alþingi Íslendinga við það sem gerst hefur í íslensku þjóðfélagi á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því að þessi umræða hófst að taka ærlega umræðu --- ekki bara um byggðamál heldur um atvinnumál í heild og þá helstefnu sem hefur fylgt þessari ríkisstjórn frá því að hún var stofnuð.
    Ég gæti trúað því að hinum unga forsrh., sem örugglega átti sér hugsjónir og drauma þegar hann hóf starf sitt sem forustumaður í ríkisstjórn, verði stundum hugsað til fyrirheita sinna, og ég efast ekkert um að hann hefur haft góð fyrirheit gagnvart þjóð sinni, hversu allt hefur mistekist sem þessi ríkisstjórn

hefur fengist við, --- ég gæti trúað því að honum dytti það stundum í hug að ríkisstjórnin byggi við einelti, það væru allir andstæðingar hennar í þessu landi af einhverjum ástæðum, að óþörfu að honum fyndist. Námsmennirnir hópast á þingpalla til þess að mótmæla ríkisstjórninni. Atvinnulífið kvartar sáran. Launamennirnir eiga erfitt. Og atvinnuleysið eykst með viku hverri og mánuði. Og þegar við nú ræðum byggðavandann á Íslandi stöndum við allt í einu frammi fyrir því að draumaríkið, borgin, sem forsrh. hafði byggt upp sem borgarstjóri af dugnaði, er í sárum undan stefnu ríkisstjórnarinnar, mesta atvinnuleysi í Reykjavík sjálfri í marga áratugi. Ég hygg að það þurfi að fara 30 ár aftur til að finna sambærilegar tölur. Þannig hafa málin þróast og þá verður hver og einn, bæði leiðtogi þjóðarinnar, forsrh., ríkisstjórnin í heild og Alþingi Íslendinga, að spyrja þeirrar spurningar: Eigum við sök í málinu? Hefur stefnan á þjóðarskútunni verið röng þá mánuði sem liðnir eru síðan þessi ríkisstjórn var stofnuð? Nú ætla ég ekki annað, ef menn setjast í þá sjálfsgagnrýni sem er mikilvægust við þessar aðstæður, en að menn vilji breyta um stefnu, reyna að ná því til leiðar að hér þróist öflugt atvinnulíf og að fólkið sem kveinar svo sárt við þessar aðstæður fái atvinnu og lifibrauð í þessu landi. Þetta held ég að sé afar mikilvægt, að nú þegar þingi lýkur setjist ríkisstjórnin sjálf á þessa mikilvægu rökstóla og leiti skýringa á því hvernig farið hefur.
    Það væri fróðlegt, af því að Byggðastofnun er til umræðu og byggðamálin hafa fléttast þar inn í, að fara í upprifjunarnámskeið bæði á því hvað ýmsir af stjórnarliðum sögðu við þá umræðu á haustdögum, svo og hvað sjálfur forsrh. sagði í þeirri umræðu, en tíminn leyfir í sjálfu sér ekki slíka útúrdúra. En mig minnir að stjórnarliðarnir sumir hafi afneitað stefnu ríkisstjórnarinnar á haustdögum, varað við henni undir þessari umræðu og jafnvel sagt að hún væri hættuleg. Þeirra orð hafa komið fram á þessum vetri. Ég fletti þessari umræðu í kvöld og sá að margir vöruðu við þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hafði hafið. Ég vil ekki lengja þessa umræðu með því að fara út í þá sálma. En það voru harkalegar umræður og auðvitað var það hæstv. forsrh. sem hóf þá umræðu.
    Ég óttast atvinnuleysið á Íslandi. Við stöndum frammi fyrir því, íslensk þjóð, að við höfum ekki kynnst slíku. Það er kynslóð sem núna stendur frammi fyrir atvinnuleysinu sem ekki hefur kynnst því. Við sjáum hóp manna á aldrinum 25 ára til fertugs sem fá ekkert starf. Við gerum okkur grein fyrir því að ungt fólk sem er að ganga út í lífið til þess að berjast fyrir sér og börnum sínum og stofna til heimilis hefur ekkert að starfa þannig að þetta er orðið þjóðarvandamál Íslendinga. Það er ekki byggðavandamál. Það er þjóðarvandamál sem menn verða að setjast yfir að leysa.
    Þá er mér efst í huga að minnast á að þessi ríkisstjórn hefur lagt drápsklyfjar á atvinnulífið. Ef menn átta sig á því geta þeir snúið ofan af dæminu, gefið atvinnulífinu von með því að fara í aðgerðir og létta ýmsu af því sem á það hefur verið lagt á þessu þingi og gert að verkum að hópur dugmikilla manna í atvinnurekstri hafa sagt: Nú er mælirinn fullur. Tölvurnar, reiknilínurnar segja mér að fyrirtæki mitt geti ekki gengið við þessar aðstæður og þá er best að hverfa frá starfinu meðan eitthvert eigið fé er fyrir hendi í fyrirtækinu. Þetta höfum við séð að er að gerast á þessum vetri. Þessi ríkisstjórn lagði 6 milljarða í viðbót í sköttum á fólk og fyrirtæki á fjárlögunum einum. Aldrei hafa staðið hærri skattar samkvæmt vergri landsframleiðslu en eftir fjárlögin í vetur. Þetta vil ég minna hæstv. forsrh. á ef hann settist við það að skoða hvernig mál hafa þróast og hvað megi gera til þess að laga fyrir atvinnulífinu.
    Það er enginn vafi á því að hæstv. forsrh. hefur áttað sig hvað eitt varðar og náð um þessar mundir talsverðum árangri hvað vexti og fjármagnskostnað varðar. Ríkisstjórninni varð það á í vetur í 0% verðbólgu að halda uppi með handafli háu vaxtastigi, en hefur nú séð að sér og lækkað raunvexti á spariskírteinum ríkissjóðs og gert kleift að ganga til vaxtalækkana í öllum peningastofnunum sem skiptir atvinnulífið miklu máli og hið skuldsetta unga fólk.
    Ég var að tala um að margir væru óvinir þessarar ríkisstjórnar. Ég hef séð það í Morgunblaðinu síðustu dagana að fólk leyfir sér að tala í köldum tón til þessarar ríkisstjórnar. Það er ekki bara Sigmund sem teiknar hinar glannalegu myndir heldur sjáum við að jafnvel leiðararnir eru farnir að verða beittar hnífsstungur í átt að ríkisstjórn sem Morgunblaðið hefur ekki trú á.
    Ég tók líka eftir því að hér sat í kvöld formaður bankaráðs Landsbankans. Hann sendi þessari ríkisstjórn tóninn og taldi hana geta ráðið ferðinni á ýmsum mikilvægum sviðum. Og auðvitað hefur það gerst á þessum degi að ríkisstjórnin er að taka ákvarðanir sem skipta atvinnulífið heilmiklu máli. Þar á ég við Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Með því að greiða úr honum mun það breyta heilmiklu í stöðu fyrirtækjanna. Það er vonandi að þessi gagnrýni eigin manna sem taka nú undir með stjórnarandstöðunni úr hverju horni hafi þau áhrif að menn átti sig.
    Auðvitað er víða dökkt útlit. Hér hefur í þessari umræðu verið minnst á landbúnaðinn og í stuttri utandagskrárumræðu var staða landbúnaðarins rædd á þessum degi og þar er mikill vandi fyrir hendi. Ég minnist þess að í kosningabaráttunni í vor dáðist ég að hinum nýja formanni Sjálfstfl., hvílíkt hugrekki hann hefði og hann ætlaði að líkjast fyrirrennurum flokksins því að hann sagði hiklaust við bændastéttina: Sá búvörusamningur sem gerður var á vordögum er ekki sanngjarn. Það þarf að rífa hann upp og bæta hann gagnvart bændunum. Það þarf að leiðrétta gagnvart bændunum. Þetta er ekki sanngjarnt. Þess vegna lagði hann til í miðri kosningabaráttunni að það yrði gert, búvörusamningurinn yrði endurskoðaður með það í huga að bæta stöðu stéttarinnar. ( Gripið fram í: Sagði hann það?) Hann sagði þetta í miðri kosningabaráttu. Hann leiðréttir mig hafi hann ekki sagt það. ( Gripið fram í: Ekki ef hann hefur gert það.) En hann hefur ekki staðið við þau fyrirheit sem hann þar gerði því að eitt fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar, hæstv.

forsrh. og formanns Alþfl., hæstv. utanrrh., var að setjast yfir búvörusamninginn til að rifta hann, til þess að bæta hann, reyna að finna leiðir til þess að ríkissjóður hefði meira í sinn hlut, það yrði skert með meiri hörku.
    En nú blasir þarna við heilmikið vandamál þar sem er flatur niðurskurður sem stafar fyrst og fremst af þeirri efnahagsstefnu sem hér hefur ríkt og atvinnustefnu, að mönnunum sem voru horfnir t.d. út úr sauðfjárrækt og höfðu ekki stundað þá búgrein í fimm eða sex ár og höfðu annað að starfa hefur fallið starf úr hendi vegna atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar og þeir snúið aftur að þessari framleiðslu. Ég minni forsrh. á þessi orð.
    Síðan blasir annað við og það er hin hrikalega boðun þessarar ríkisstjórnar um innflutning á unnum landbúnaðarafurðum. Fyrri ríkisstjórn hafði gefið fyrirheit um að út þessa öld yrði ekki hafinn innflutningur á landbúnaðarafurðum. En núna hefur einn hæstv. ráðherrann í þessari ríkisstjórn, hæstv. iðnrh. og viðskrh., gengið mjög hart fram og menn hafa jafnvel gert samninga við erlendar þjóðir þar sem hagsmunir Íslands hafa verið bornir fyrir borð, gerðir samningar sem miða að því að skella yfir innflutningi sem mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar á íslenskar sveitir, ekki bara á íslenskar sveitir heldur mun það gera að verkum að matvælaframleiðslan, sem fer fram í þorpunum um allt land og kaupstöðunum svo og hér í Reykjavík, mun fara mjög hallloka. Ég tók eftir því í Tímanum fyrir einum mánuði að þar birtist heil ræða eftir hæstv. viðskrh. þar sem hann sagði hreinlega þessa setningu ef ég man hana rétt: ,,Loksins er komið að því að síðasta atvinnugreinin á Íslandi býr við maklega samkeppni. Þar á ég við landbúnaðinn sem hefur búið hér við múra. Nú kemur samkeppni, hún kemur erlendis frá.``
    Landbúnaðurinn átti að standa frammi fyrir því sama og margar aðrar greinar, iðnaðurinn og fleiri, að erlend framleiðsla mundi fara að keppa við hann hér. Og hvernig hefur farið í hinum greinunum? Þær hafa farið hallloka. Sumar hafa dáið út. Það mætti spyrja t.d. iðnrh.: Hvar eru margar greinar iðnaðarins staddar? Skipaiðnaðurinn t.d.? Hvar er hann staddur? Meðan margar aðrar þjóðir hafa varið sinn skipaiðnað, styrkt hann og eflt, höfum við lagt hann í rúst og viðskrh. og iðnrh. borið þar mesta ábyrgð. Hvar er saumaiðnaðurinn og fataiðnaðurinn? Hvar er húsgagnaiðnaðurinn? Hvar eru allar þessar greinar sem voru glæsilegir möguleikar fyrir nokkrum árum? Þær hafa fallið vegna þess að útlendingarnir hafa tekið verkefnin í sínar hendur.
    Við Íslendingar megum eiga það að við höfum ekki flutt inn mikið af fólki til að vinna verkið fyrir okkur, en við erum snillingar í að fara með verkefnin út og fela mönnum þar að hafa af því kaupið og gróðann að vinna fyrir okkur verkin. Þess vegna bið ég hæstv. forsrh., sem ég trúi að vilji að um sig standi glæst minning í sögunni, að íhuga þessa ræðu mína. Hún er mælt af heilum hug og þeirri von.
    Ég ræð ekki við að koma þessari ríkisstjórn frá, hún hefur meiri hluta á Alþingi, þó að ég verði því miður að segja að ég tek undir með þjóðinni minni sem gerir kröfur um að þessi ríkisstjórn fari frá. Við ráðum ekki við það. En það sem við ráðum við er að tala við ríkisstjórnina, reyna að fá hana til að átta sig á aðstæðunum, breyta um og breyta stefnunni. Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umræðu. Og það sem er mikilvægast, og Sjálfstfl. ætti að skilja betur en allir aðrir flokkar að mínu viti, er að fyrirtækin í landinu verða að fá að græða. Þau verða að fá að vera fyrir ofan strikið.
    Það hefur verið sagt frá því í þessari viku í þessum þingsal að flestar greinar sjávarútvegsins eru reknar með bullandi halla, jafnvel upp í 80% sumar greinar sjávarútvegsins. Þetta er ekki í anda stefnu þess Sjálfstfl. sem hefur starfað svo lengi. Þessu verða menn að snúa við og hafa kjark til þess. Það er mikilvægt til þess að fyrirtækin geti aukið umsvif sín og dafnað og borgað bærileg laun að þau græði.
    Ég trúi því að hin íslenska þjóð, ef hún nær að hugsa stórt, eigi glæst tækifæri í þessu landi. Þá eigum við verkefni sem duga öllum vinnandi höndum í landinu. Við þurfum ekki að búa við þetta atvinnuleysi, við þurfum ekki að búa við þessa láglaunastefnu og neyð ef menn þora að setja nýja stefnu á í stýrishúsi þjóðarskútunnar. Ég er ekki verri þessari ríkisstjórn en það að ég vænti þess að hún nái áttum og snúi við, hún átti sig á því að það er ekki um einelti að ræða hjá þjóðinni. Þjóðinni er að verða illa við þessa ríkisstjórn vegna þess að hún hefur fundið að stefna hennar er ranglát, hún er fljótfærnisleg og flaustursleg, hún er full af einhverri tækifærismennsku til að þjóna örfáum nöggum í Sjálfstfl. sem halda að þeir geti eitthvað og stórgróðaöflum sem ætla að hirða alla hluti. Ætli kolkrabbinn sé ekki að verða alþjóðafyrirtæki? Hann eignast ekki bara Ísland. Hann tekur Færeyjar, kannski Grænland og fleiri þjóðir, sendir einhvern Jörund á hverja eyju í kringum landið. En um leið skilur hann eftir sviðna jörð á svo mörgum sviðum á Íslandi að það er ekki hægt að þola það.
    Já, góðir alþingismenn og ríkisstjórn. Við eigum glæst tækifæri. Það er viljann sem við verðum að virkja og stefnuna sem við verðum að marka. Það verðum við að gera á því vori sem nú er gengið í garð. Fyrsta regnskúrin féll á þessum morgni. Megi guð á gott láta vita að það verði sú regnskúr sem hreinsar haustmyrkrið, volæðið og aumingjaskapinn út úr hugsun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og er sú óvinsælasta meðal þjóðar sinnar sem setið hefur allan lýðveldistímann.