Umræða um skýrslu umhverfisnefndar um álver á Keilisnesi o.fl.

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:10:00 (6751)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef litið yfir dagskrá þessa fundar og ég sé ekki að þar hafi verið tekið inn mál sem óskað hefur verið eftir af umhvn. þingsins að verði rætt fyrir þinglok. Það er skýrsla um starfsleyfi fyrir álver á Keilisnesi sem skilað var af umhvn. í marsmánuði. Einnig liggur fyrir þinginu skýrsla hæstv. umhvrh. frá sl. hausti sem var lögð fram snemma á þinginu um sama efni. Rætt hafði verið um að þessi mál gætu verið samferða í umræðu. Formaður umhvn. hefur borið þetta mál fram við forseta að mér er kunnugt en hann er nú fjarverandi sem og varaformaður. Ég leyfi mér hins vegar að nefna þetta og ítreka þá ósk sem ég bar fram um þetta mál fyrr í vikunni og veit að á fullan stuðning í umhvn. Þetta mun vera eina skýrslan sem nefnd hefur skilað til þingsins í vetur um tilgreint málefni og ég tel nauðsynlegt að skapað verði rúm fyrir þetta mál á dagskrá þingsins fyrir þinglok. Að sjálfsögðu eins og aðstæður eru yrði

þá samið um tíma til umræðu fyrir málið sem ásættanlegur væri.