Umræða um skýrslu umhverfisnefndar um álver á Keilisnesi o.fl.

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:15:00 (6754)


     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Í tilefni af því sem hv. 4. þm. Austurl. nefndi áðan um skýrslu umhvn. þá vil ég í fjarveru formanns og varaformanns staðfesta það að formaður hefur leitað eftir því við forseta að skýrsla nefndarinnar fengist rædd á þessu þingi. Aðrir þingmenn stjórnarliða, meiri hlutans í nefndinni, hafa jafnframt rætt þessi mál við þingflokksformenn og óskað eftir að málið kæmist á dagskrá.
    Ég verð þó að segja að þar sem fjöldi mála, sem þarf að afgreiða, liggur fyrir og sum mál hafa verið rædd alllengi og ítarlega þá hef ég nokkurn skilning á því ef ekki reynist mögulegt að ræða skýrsluna. Ég vona hins vegar að samkomulag takist um afgreiðslu mála og að hægt verði að ræða skýrsluna á þessu þingi. En ég vil undirstrika það jafnframt að skýrslan liggur frammi og þó hún verði ekki rædd að þessu sinni þá rýrir það ekki gildi hennar eða þess starfs sem nefndin hefur unnið á undanförnum mánuðum við gerð hennar.