Umræða um skýrslu umhverfisnefndar um álver á Keilisnesi o.fl.

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:16:35 (6755)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið nokkuð mikið rætt um vinnubrögð í þinginu í vetur. T.d. hefur hæstv. forsrh. sérstaklega gert sér far um að ráðast á þingið og gagnrýna vinnubrögð þess. Fleiri dæmi mætti nefna um þessi neikvæðu viðhorf.
    Nú er það hins vegar þannig að víða á vettvangi þingsins er unnið mjög vel. Víða tekst þingmönnum, hvort sem þeir tilheyra stjórnarflokkum eða stjórnarandstöðuflokkum, að vinna vel saman. Ég get vottað það að í nýjustu nefnd þingsins, umhvn., hefur í vetur verið einstaklega gott andrúmsloft og einstaklega gott vinnulag. Þar hafa menn kappkostað, alveg óháð því hvort það erum við sem tilheyrum flokkum stjórnarandstöðunnar eða hv. þm. Árni Mathiesen sem hér talaði og félagar hans sem tilheyra stjórnarflokkunum, að vinna mjög vel að þeim málum sem til okkar hafa borist. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, og varaformaður nefndarinnar hafa stýrt þessari vinnu einstaklega vel. Það hefur verið ánægjulegt að sitja í umhvn. í vetur og sinna þessum störfum.
    Nefndinni var það nokkur metnaður, virðulegi forseti, að vinna þessa skýrslu um viðkvæmt mál af því tagi sem hún fjallar um, starfsleyfi fyrir álver á Keilisnesi. Við lögðum í þetta nokkuð marga mánuði, bæði á nefndarfundum og utan nefndarfunda, þetta var mjög mikil vinna. Mér er til efs að það séu mjög mörg mál hér í þinginu, þau eru kannski einhver, þar sem nefndir og einstakir nefndarmenn hafi unnið saman óháð því hvort þeir tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu með þessum hætti. Þess vegna er það mjög leitt, virðulegi forseti, að þegar þingnefnd sem kýs að fara nýjar brautir með því að hagnýta sér eina af nýjungunum í nýju þingsköpunum og leggur svona mikla vinnu í verk að þá skuli ekki vera fundinn tími í störfum þingins til að þessi skýrsla ásamt skýrslu iðnrh. verði rædd þó ekki verði nema eitthvað. Það er enginn að tala um langar umræður í þeim efnum en einhverjar. Það verður einfadlega til þess, virðulegur forseti, að á næsta þingi verða menn tregir til að leggja á sig slíka vinnu ef það er þannig að af hálfu stjórnenda þingsins er hún nánast einskis metin. Jú, jú, það er að vísu gagn, það er alveg rétt hjá hv. þm. Árna Mathiesen, skýrslan liggur á borðum manna og menn geta kannski sótt hana í skjalavörslu þingsins, en stjórnendur gera lítið með þá vinnu þrátt fyrir það að einn af varaforsetunum, formaður nefndarinnar Gunnlaugur Stefánsson, hafði óskað eftir því að slík umræða fari fram.
    Ég vil segja við þá sem stýra hér vinnu í þinginu að það er þá frekar letjandi í framhaldinu fyrir okkur að leggja á okkur málefnaleg og drenglynd vinnubrögð í nefndum þingsins að mikilvægum málum ef það skilar ekki meiri niðurstöðu en raun ber vitni.
    Það hefur held ég verið metnaður okkar allra sem höfum setið í umhvn. þingsins í vetur að láta þetta fyrsta ár hinnar nýju nefndar takast vel. Það hefur verið metnaður allra í nefndinni. Og ég held að hvað störf nefndarinnar snertir þá hafi það tekist.
    Ég vil einnig geta þess að þegar í þjóðfélaginu var mikill darraðardans út af umhverfisráðstefnunni í Ríó og aðalathygli manna beindist að fjölda ferðalanga og kostnaðarþátttöku þá lagði nefndin það sameiginlega til að fram færu í þinginu hálfan dag eða svo í aprílmánuði málefnaleg umræða um þau verkefni sem á að fást við á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Og ég vil einnig segja að mér finnst það líka mjög miður að þessi ágæta hugmynd umhvn., um málefnalega kynningu á umhverfisráðstefnunni í Ríó, skuli ekki hafa hlotið náð fyrir augum stjórnenda þingsins þannig að slík umræða verður ekki hér á þjóðþinginu í aðdraganda ráðstefnunnar og það eina sem setur svip sinn á umræður hér á landi um þessa merku ráðstefnu er skak um fjölda manna og kostnað.
    Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti, fyrst á annað borð er farið að ræða störf umhvn. og óskir hennar.