Umræða um skýrslu umhverfisnefndar um álver á Keilisnesi o.fl.

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:22:00 (6756)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að það hefur verið ánægjulegt að starfa í umhvn. þingsins. Það kom fram hjá mér í nefndinni fyrir löngu síðan að ég teldi ástæðu til að þessi skýrsla kæmi til umræðu á hv. Alþingi þó svo að mál hafi nokkuð breyst á Keilisnesi og einhver dráttur á að þar verði reist álver ef það yfirleitt verður gert.
    Nú er það svo að formenn þingflokka starfa mikið saman þessa síðustu daga þingsins og umræðu um umrædda skýrslu bar á góma á síðasta fundi formanna þingflokka. Það var um það rætt að þetta væri eitt af þeim málum sem við þyrftum að ræða í okkar hópi og við munum eflaust gera það strax í dag. Þetta vildi ég að kæmi fram.