Umræða um skýrslu umhverfisnefndar um álver á Keilisnesi o.fl.

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:26:10 (6760)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni að mjög mikilvægt er að þessi framkvæmdaáætlun komist á dagskrá. Ég hef reyndar lagt mjög mikla áherslu á að hún komist á dagskrá og verði afgreidd. En ég geri mér grein fyrir því að það lifir stutt af þessu þingi þannig að kannski eru litlar líkur til að hún verði afgreidd. Engu að síður tel ég mikilvægt að hún verði rædd.
    En ég stend aðallega upp til að segja að það sem fram kom hjá hv. þm. um að það hafi síðast verið lögð fram framkvæmdaáætlun 1986 er ekki rétt. Það var lögð fram framkvæmdaáætlun í tíð síðustu ríkisstjórnar og var hún lögð fram á síðasta þingi. Þá var það reyndar þannig að það var ekki Alþingis að staðfesta hana heldur var þetta fyrst og fremst framkvæmdaáætlun ríkisstjórnar. Þá var ekki lagaskylda að Alþingi staðfesti slíka áætlun en engu að síður var hún lögð fram á síðasta þingi.