Atvinnuleysistryggingasjóður

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:44:12 (6766)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vegna þess hvernig umræður hafa þróast hér þá vita allir í þingsalnum að þau málefni, sem við erum að tala um, hafa verið rædd í tengslum við þessi mál bæði. Menn hafa oft og tíðum tæmt umræðuna varðandi annan af þessum tveimur dagskrárliðum og látið hinn þá renna áfram. Þannig að ég geri ekkert með athugasemdir þingmanna eða frammíköll hv. þm. Björns Bjarnasonar varðandi það atriði. Í öðru lagi þá er svarið skýrt. Ef hv. þm. er talsmaður fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann í þessu máli er ljóst að ríkisstjórnin ætlar ekki að flytja fjáraukalagafrv. á ágústþinginu.
    Ég vil ítreka ósk mína um að hæstv. fjmrh. verði látinn vitna um það hér. Því það er auðvitað alveg ljóst að ef ríkisstjórnin ætlar ekki að flytja fjáraukalagafrv. fyrr en í október þá mun ríkisstjórnin fara fram úr fjárlagaheimildum í ár á nokkuð mörgum sviðum. Það er alveg ljóst. Ríkisstjórnin mun þá brjóta ákvæði fjárlaganna á nokkuð mörgum sviðum ef ekki verður flutt fjáraukalagafrv. fyrr en í októbermánuði. Og nú er ríkisstjórnin búin að finna lausn á þessu svindli. Hún er búin að finna lausn á þessu svindli eins og hv. þm. var að lýsa hér áðan. Það er komin fram brtt. um að ríkisstjórnin megi svindla í ár. Það er bara eftir 1. jan. á næsta ári sem hún má ekki svindla. Þetta eru miklir snillingar endurbóta og ,,reforms`` að koma hér fyrst heilagir í framan og flytja frv., svo er laumað inn gildistöku og þá má bara halda áfram að svindla. Ætli leiðarahöfundur Morgunblaðsins verði ekki að draga eitthvað til baka af hólinu? Sem sagt, ríkisstjórnarmeirihlutinn er að búa sig undir að fara fram úr fjárlagaheimildum á ýmsum sviðum. Ég tel það slæmt, virðulegur forseti. Ég vildi gjarnan óska eftir því að hæstv. fjmrh. hefði búið sig undir að flytja fjáraukalagafrv. fyrr og er alveg tilbúinn að beita kröftum mínum til að greiða fyrir afgreiðslu þess í samræmi við það sem ég hef sagt á undanförnum árum. En ég óska eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. fjmrh. komi til umræðunnar, ég veit að hann er í húsinu, til að staðfesta það sem hér hefur komið fram.