Atvinnuleysistryggingasjóður

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:46:00 (6767)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hv. 7. þm. Norðurl. e. sagði í umræðunum að hér er til umræðu allt annað mál en hv. 8. þm. Reykn. hefur verið að tala um. Það er eins og hann viti ekki hvernig dagskráin er upp byggð eða hvaða mál eru á dagskránni. Og það er aldeilis furðulegt að síðan komi þingmaðurinn hér upp og heimti að framsögumaður nefndarinnar tali, þegar hann er að flytja ákveðið mál, um allt annað mál en það sem er á dagskránni. Það er með ólíkindum að verða vitni að þessum vinnubrögðum hjá hv. þm. sem hefur greinilega ekki kynnt sér þetta mál frekar en nokkur önnur sem eru til umræðu í þinginu og stendur hér bara til að tefja fyrir eðlilegum þingstörfum í hvaða máli sem honum dettur í hug og sama á hvaða grundvelli það er gert. Fyrir utan að upplýst var í nefndinni, og ég tók þátt í þeim nefndarfundi, að af þessu máli, sem hv. þm. er að tala um, er gjörsamlega ástæðulaust að hafa þær áhyggjur sem hann hefur enda undirritar öll nefndin á þskj. 963 það álit sem samþykkt var á fjórða dagskrármálinu og var sammála um þá afgreiðslu sem þar var ráð fyrir gert. Og þessar vangaveltur þingmannsins og misskilningur allur er dæmigerður fyrir framgöngu hans í þinginu í allan vetur.