Atvinnuleysistryggingasjóður

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:48:15 (6768)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hinn nýi siðameistari Alþingis Íslendinga hefur talað.
    Það er ekki bara þessar mínúturnar sem við höfum fengið að heyra í siðameistaranum hérna í þinginu, hvernig þingið eigi að vera og hvernig það eigi ekki að vera og hverjir séu sér til skammar og hverjir séu sér ekki til skammar.
    Hann hefur setið á forsetastól og það hefur verið mjög fróðlegt að fylgjast með hinum nýju siðum sem hann hefur tíðkað á forsetastól síðustu sólarhringana. Þingmaðurinn veit kannski ekki um þá almennu fordæmingu þingmanna vegna þeirra nýju siða sem hann er að innleiða á forsetastóli. T.d. þegar þingmenn beina til hans einföldum spurningum á forsetastól þá horfir hann í aðra átt og svarar ekki. Biður þingmenn að ljúka máli sínu og þá skuli hann svara. Og þegar þingmenn verða við óskum hans þá svarar hann ekki. Svona gerræði, hv. þm. Björn Bjarnason, svona ofríki, svona ráðríkishugsunarháttur, sem kemur fram hjá þingmanninum, er ekki siðbót á Alþingi Íslendinga. Hann er ekki siðbót. Og ég skal segja það við þingmanninn: Ég hélt í einfeldni minni að þegar hv. þm. Björn Bjarnason kæmi inn á Alþingi Íslendinga, byggt á okkar fyrri kynnum, þá yrði framganga hans dálítið öðruvísi. En hann hefur fært sig upp á skaftið í vetur og verið að setja sig í eitthvert hásæti siðameistarans og segja mönnum hvað þeir eigi að

gera og hvað þeir eigi ekki að gera.
    Það er löng venja fyrir því á Alþingi, hv. þm., að menn tala um skyld mál þegar tvö frv. hanga saman eftir því sem þeim finnst eðlilegt og eru þar ekkert að tefja fyrir afgreiðslu mála. Ég get nefnt fjölmörg dæmi frá síðustu árum um að þingmenn Sjálfstfl. hafi starfað með þeim hætti án þess að nokkurt okkar hinna væri að setja sig í stól siðameistara yfir því. En lengi skal manninn reyna en ég held að það sé nú orðið fullreynt. Ég held að við séum búin að sjá gervi hins nýja siðameistara á Alþingi og getum farið að draga okkar niðurstöður í þeim efnum.
    Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. komi til þessarar umræðu. En ef stjórnarmeirihlutanum er einhver huggun í því að ég geri það frekar undir næsta dagskrárlið þá get ég alveg gert það, það er allt í góðu lagi. En ég tel að það sé ekki hægt að ljúka umræðunni um þetta málefni án þess að hæstv. fjmrh. svari skýrt hvað hann hyggst fyrir.