Atvinnuleysistryggingasjóður

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:51:54 (6770)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Reykv., hvert á að sækja fyrirmyndina í þingstörfunum? Hvaða þingmaður er til fyrirmyndar í þinginu að dómi hv. þm. Björns Bjarnasonar? Væri ekki gott að fá það hérna fram fyrst að þingmaðurinn, einn af forsetum þingsins, varaformaður þingflokks Sjálfstfl. --- þær eru nú nokkrar vegtyllurnar sem þingmaðurinn ber hér í þinginu hvað stjórn þingsins snertir. Og fyrst að hann er farinn að gefa þingmönnum einkunnir í ræðustóli um það hverjir séu til fyrirmyndar og hverjir ekki væri þá ekki gott að hv. þm. lyki dæminu svo hann sé marktækur og upplýsi hvaða þingmenn eru til fyrirmyndar svo ráðríkishugsunarhættinum verði haldið áfram og mönnum skipt upp í heilaga og vanheilaga, svarta sauði og hvíta, þá sem eru í náðinni og þá sem eru ekki í náðinni? Þessar nýju stjórnunarreglur innan Sjálfstfl. verði fluttar hingað inn í þingsalinn.
    Ég bið hv. þm. að svara því þá, hvaða þingmenn eru til fyrirmyndar? Það er alvarlegur hlutur að einn af forsetum þingsins, einn af þeim sem gegna embætti formanna þingflokka hér í forföllum og eiga að annast stjórn þingsins, fyrst hann er á annað borð byrjaður að skipta þingmönnum svona upp að hann hafi þá kjark og manndóm til að ljúka dæminu og segi mönnum hverjir eru til fyrirmyndar. Ef hann þorir það ekki þá er þetta bara eins og hvert annað ómerkilegt ráðríkisrugl.