Atvinnuleysistryggingar

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:55:33 (6772)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegur forseti. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. formanni heilbr.- og trn., að ég undirritaði þetta nál. með fyrirvara af þeirri ástæðu að ég vildi segja fáein orð við afgreiðslu málsins.
    Það er reyndar ekki alveg rétt sem fram kom í umræðunni áðan hjá hv. 3. þm. Reykv., að hv. 8. þm. Reykn. hafi verið að tala um rangt mál. Útgjöld sjóðsins snerta auðvitað það mál sem þá var til umræðu, þ.e. 528. mál, um að framlengja réttinn fyrir fiskvinnslufólkið. Það mun auðvitað þýða útgjaldaauka fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð, það er alveg rétt. Það mun hins vegar ekki vera í neinni líkingu við það mál sem hér er til umræðu.
    Þegar við vorum að ganga frá þessu nál. fengum við þær upplýsingar að í öllum áætlunum sjóðsins væri gert ráð fyrir að atvinnuleysi yrði 2,6%. Nú var það hins vegar staðfest í fréttum í gærkvöldi að atvinnuleysi mun a.m.k. verða 3% að meðaltali yfir árið ef ekki meira. (Gripið fram í.) A.m.k. eitthvað yfir 3%, ég er ekki með það nákvæmlega með kommum talið hvað það er mikið. Það kom fram hjá þeim fulltrúum Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem mættu á fund heilbr.- og trn., að ríkisframlag til sjóðsins er að verða að fullu greitt. Ég held að það sé rétt eftir haft. Ég verð þá leiðréttur ef svo er ekki. Það er gert ráð fyrir að það vanti 480--500 millj. kr. til að sjóðurinn geti staðið undir skuldbindingum sínum sem búist er við að á hann muni falla á árinu. Það er miðað við 2,6% atvinnuleysi. Ég hef ekki látið reikna það nákvæmlega hver útgjaldaaukinn er á þessu bili frá 2,6% og yfir 3%. En svona fljótt á litið sýnist mér að það gæti verið í kringum 800 millj. kr. ( Gripið fram í: Í viðbót?) Nei, þ.e. að 500 millj. yrðu 800 millj. kr.
    Sjóðurinn á nokkrar eignir í verðbréfum sem hann auðvitað getur selt. Það kemur fram í nál. að hann getur selt eignir til að standa undir skuldbindingum sínum. Ég held hins vegar að við þessar aðstæður væri mjög óæskilegt að sjóðurinn þyrfti að selja þær vegna þess að verð á slíkum bréfum á markaði er því miður ekki hátt og þau yrðu því seld með miklum afföllum.
    Á undanförnum árum hefur verið gengið á eignir sjóðsins, menn viðurkenna það. Það er alveg sama hvaða ríkisstjórnir hafa verið. Það hefur örlítið verið gengið á eignir Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þó er það svo að að óbreyttu mun sennilega á árinu 1992 verða gengið meira á eignir Atvinnuleysistryggingasjóðs en nokkru sinni fyrr. Og það er mjög alvarlegt. Ekki síst þegar það kemur fram að við erum ekki aðeins að fara að búa við 3% atvinnuleysi á þessu ári heldur, eins og kom fram í fréttum í gærkvöldi frá Þjóðhagsstofnun, er bati ekki fyrirsjáanlegur. Og það er merkilegt ef við berum saman við árið 1989, þegar spáð var verulegu atvinnuleysi, að það var mun minna en Þjóðhagsstofnun spáði. Nú hefur hins vegar farið svo að atvinnuleysi er mun meira en Þjóðhagsstofnun hefur spáð og er vaxandi. Og það alvarlegasta er að hér er ekki um tímabundið atvinnuleysi að ræða. Hérna erum við að tala um viðvarandi ástand. Og þess vegna ef menn ætla að halda áfram að ganga svona á eigið fé sjóðsins þá auðvitað verður það upp urið innan mjög skamms tíma. Það er því full ástæða til að fara varlega og meta stöðuna nú á allra næstu vikum og mánuðum.
En ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara til þess að vekja athygli á þessu.
    Það kemur skýrt fram og um það voru nefndarmenn sammála um í heilbr.- og trn. í gær að enginn vafi er á því að sjóðurinn getur staðið við skuldbindingar sínar þar til þing kemur saman. Og ég skildi það þannig og ég held að svo sé um flestalla sem í nefndinni sátu að við vorum að tala um þegar þing kemur saman í ágúst og í trausti þess a.m.k. skrifaði ég undir og það held ég að sé skilningur allra. Hins vegar er auðvitað alltaf spurning um hvenær fjáraukalög eru flutt. Ég ætla mér ekki að blanda mér inn í þá umræðu. En auðvitað skildi ég þetta og ég held að allir hafi gert það að verið er að tala um þegar Alþingi kemur saman um miðjan ágúst, til þess tíma geti sjóðurinn auðvitað staðið undir öllum sínum skuldbindingum.
    Það er þó dálítið erfitt að átta sig á einu vegna þess að ársreikningar fyrir árið 1991 liggja ekki fyrir. Höfuðstóll Atvinnuleysistryggingasjóðs er í árslok 1990, þegar frá eru dregin gjöld umfram tekjur á árinu 1990, er 1.242 millj. Hins vegar er þarna um verulegt endurmat að ræða og skuldir sjóðsins hafa talsvert aukist en það er auðvitað það sem skiptir máli þegar upp er staðið og á reynir að sjóðurinn þarf að fara að nýta sínar eignir og þá er spurning um hvernig húsbúnaður, tæki og annað slíkt sem þarna er til hefur verið metið upp samkvæmt verðbreytingastuðlum. Það er spurning um hinar raunverulegu eignir sem í sjóðnum eru, þ.e. þau bréf sem sjóðurinn á og verðmætamat þeirra sem skiptir máli upp á það hvort sjóðurinn í raun geti staðið við sínar skuldbindingar. En ég tek það fram og það kom skýrt fram á fundi heilbr.- og trn. að auðvitað verður sjóðurinn látinn standa við þessar skuldbindingar vegna þess að fyrir utan þær litlu eignir sem hann á, sem eru litlar eignir hjá sjóði sem á að tryggja þá miklu hagsmuni sem honum er ætlað samkvæmt lögum, þá er það auðvitað ríkisábyrgðin á sjóðinn sem skiptir höfuðmáli og ég hef ekki enn heyrt að ríkisstjórnin sé með það í hyggju að svipta sjóðinn þeirri ábyrgð.
    Þetta vildi ég láta koma fram til þess að gera örlítið gleggri grein fyrir þeim sjónarmiðum sem fram komu á fundi nefndarinnar heldur en fram koma í nál. vegna þess að ég tel að það skipti töluvert miklu máli að menn hafi vaðið fyrir neðan sig nú í sumar og undirbúi að það sé tryggt að sjóðurinn geti þegar á reynir í haust staðið við skuldbindignar sínar því að því miður sýnist mér a.m.k. málið þróast þannig að atvinnuleysi nú í maí muni verða meira en nokkru sinni fyrr. Það muni einnig aukast í júní vegna þess að þá koma skólanemendurnir út á vinnumarkaðinn og hafa ekkert að gera. Í sumar mun verða meira atvinnuleysi en hér hefur nokkurn tíma áður þekkst og sennilega í haust líka vegna þess að við erum að ganga inn í viðvarandi ástand, ástand sem ríkisstjórnin hefur skapað til þess að geta ráðið við kjaramál og ætlar að hafa þetta sem sitt helsta hagstjórnartæki í efnahagsmálum, þ.e. atvinnuleysisgrýluna.