Atvinnuleysistryggingar

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 12:04:05 (6773)

     Frsm. heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Flestallt sem fram kom í máli hv. þm. Finns Ingólfssonar er rétt. Það er sannarlega áhyggjuefni að atvinnuleysi skuli vera eins alvarlegt og raun ber vitni um þessar mundir. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að það er að sjálfsögðu ekki, hv. þm. Finnur Ingólfsson, staðfest að atvinnuleysi verði eitt eða neitt heldur er um spá að ræða þar sem talað er um 3%. Þær tölur sem heilbr.- og trn. fékk í hendur og fór yfir og þær forsendur sem gengið var út frá við afgreiðslu þessa álits voru miðaðar við atvinnuleysi og spár upp á 2,6%.
    Það kom hins vegar fram á fundi í nefndinni hjá þeim fulltrúum sem komu frá Atvinnuleysistryggingasjóði og fjmrn. að 1% í atvinnuleysi mundi kosta um það bil 400--500 millj. Verði það raunin að atvinnuleysi verði 3% en ekki 2,6% þá er um 160--200 millj. í viðbót að ræða.
    Það hefur jafnframt komið fram í máli mínu hér á undan --- að vísu hefur talsvert verið hlaupið á milli mála þannig að ég er ekki viss um að það hafi komið fram umræðum um þetta mál, það kann að hafa verið við hið fyrra sem rætt var á undan, að heilbr.- og trn. var fullvissuð um það að þeir fjármunir, sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefði undir höndum, mundu duga fram í október eða nóvember. Í textanum, sem fylgir áliti nefndarinnar, er tekið fram að nefndin sé þess fullviss að unnt verði að standa við þessar greiðslur og í niðurlaginu segir, með leyfi forseta:
    ,,Í trausti þess að greiðsla atvinnuleysisbóta sé þannig tryggð fram yfir þann tíma að Alþingi kemur saman að nýju mælir nefndin með að frumvarpið verði samþykkt.``
    Þetta er auðvitað afdráttarlaust. Það hlýtur og á auðvitað við það þegar Alþingi kemur saman að nýju um miðjan ágúst.