Skipaútgerð ríkisins

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 12:15:50 (6778)


     Kristinn H. Gunnarsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði farið nokkuð yfir þetta mál þegar svo stóð á að ég varð að gera hlé á máli mínu. Ég hafði fjallað um framtíðarhorfur í öryggi landsbyggðarmanna hvað varðar skipasiglingar og dregið þar fram efasemdir mínar og ótta minn um að framtíðin væri e.t.v. ekki eins björt og menn vildu vera láta.
    Ég hafði líka farið yfir skýrslu sem sérstakir ráðgjafar hæstv. samgrh. settu saman, tillögugerð sem hann bað um til að geta markað stefnu sína í þessu máli. Ég hafði rakið nokkuð ítarlega þá kosti sem skýrsluhöfundar höfðu dregið fram og gert grein fyrir þeirri tillögu sem þeir lögðu fram. Ég vil aðeins rifja það upp í örfáum orðum að kostirnir sem skýrsluhöfundar, sérstakir ráðgjafar hæstv. samgrh. í þessu máli, drógu fram voru þrír.
    Það var í fyrsta lagi að breyta rekstrarskipan Skipaútgerðar ríkisins. Það var í öðru lagi að selja fyrirtækið og í þriðja lagi að leggja það niður.
    Ég hafði líka dregið fram þær röksemdir sem hver og einn þessara kosta hvíldi á að mati skýrsluhöfunda og má segja að sama röksemdafærslan hafi gengið í gegnum þá alla, þeir litu á það sem skyldu ríkisvaldsins að tryggja viðunandi þjónustu, að tryggja afskekktum byggðum þjónustu. Tillögur þeirra hvíla

á því mati og þeirri skoðun að það sé samfélagsleg ábyrgð að tryggja þessa þjónustu í afskekktustu byggðum landsins. Því lögðu þeir til að ef ætlunin væri að breyta rekstrarskipan fyrirtækisins þá yrði fyrirtækinu haldið áfram í þeim tilgangi að tryggja þessa þjónustu þar sem aðrir væru ekki til þess. Þeir lögðu til að ef ætti að selja fyrirtækið mundi ríkisstjórnin skilgreina þá lágmarksþjónustu sem þyrfti til að uppfylla á hverjum einstökum stað og kaupandi yrði að taka á sig þá kvöð að uppfylla þær þjónustuþarfir. Ef fyrirtækið yrði lagt niður yrði einhver annar sem tæki við þessum skyldum og þeir bentu t.d. á flóabáta og ferjur. Þeir bentu á að ef fyrirtækið yrði lagt niður yrði ljóslega uppi sú staða að verulegir erfiðleikar gætu orðið á ýmsum stöðum ef aðgerðin gengi of hratt fyrir sig. Þeir vöruðu því við ef sá kostur yrði valinn að leggja fyrirtækið niður að fara of geyst í aðgerðir. Varnaðarorð skýrsluhöfunda til hæstv. samgrh. voru: Ef hæstv. ráðherra velur þann kost að leggja fyrirtækið niður þá vörum við við því að fara of geyst í sakirnar. Tillagan sem lögð var fram var sambland af tveimur kostum: Að selja fyrirtækið og breyta rekstrarfyrirkomulagi þess. Það var byggt á þeim grundvallarskilningi að það væri samfélagsleg ábyrgð að tryggja þjónustu við þá staði sem ekki gætu verið án sjóflutninga. Og þeir lögðu til og bentu á að ekki yrði hjá því komist að styrkja það nýja félag um einhvern tíma til að halda uppi þessu þjónustustigi en stefnt yrði að afnámi þeirra styrkja á einhverju tilteknu árabili.
    Svo vildi til að hæstv. ráðherra bauðst þessi kostur. Honum bauðst sá kostur sem ráðgjafar hans lögðu til. Hópur manna var tilbúinn til að kaupa fyrirtækið og tilbúinn til að gera þjónustusamning við fyrirtækið og taka á sig þessar kvaðir.
    Hæstv. ráðherra hafnaði því. Þar með hafnaði hann líka tillögu sinna eigin ráðgjafa í málinu. Og hæstv. ráðherra hefur ekki komið fram með frambærilegar skýringar á því hvers vegna hann hafði að engu þá ráðgjöf sem hann keypti dýru verði þegar kosturinn, sem þeir lögðu til, var innan seilingar.
    Ég hef líka rakið og minni á það, virðulegi forseti, af því að ég hygg að hæstv. félmrh. sé hér í húsinu, hvernig staða atvinnumála fyrrum starfsmanna Skipaútgerðar ríkisins er eftir því sem ég vissi best. Og ég vil minna á að ég beindi spurningu til hæstv. félmrh. um það atriði og vænti þess að ráðherrann muni svara því á eftir.
    Í þessari skýrslu sem ég hafði farið yfir kom líka fram að höfundar lögðu áherslu á í niðurlagi að ekki yrði hrapað að niðurstöðu og ef menn vildu selja, þá ætti að gera það þannig að menn hámörkuðu tekjur ríkissjóðs af sölu eigna, menn gerðu það með því lagi að menn fengju sem mest verð fyrir þessar eignir og tryggðu lágmarksþjónustu við afskekktari staði. Ég get tekið undir þessa niðurstöðu skýrsluhöfunda. Ég tel að það sem stendur í niðurlagi sé skynsamlegt. Ég tel einnig að nokkuð víðtæk samstaða sé í þjóðfélaginu og hér á hinu háa Alþingi um að þetta sé sú leið sem var skynsamlegust, að feta sig frá þeirri stöðu sem menn voru í, feta sig frá því að vera með ríkisfyrirtæki án þess að fara svo geyst að menn tefldu í tvísýnu hagsmunum byggðarlaga. Því miður varð það ekki raunin. Því er það ótti minn að það muni koma fram fljótlega að ýmsir staðir njóti ekki þeirrar þjónustu sem telja verður lágmarksþjónustu við þá.
    Ég hef líka gagnrýnt hvernig staðið var að ákvörðun í þessu máli og hef talið að þar gættu menn ekki hags ríkissjóðs sem skyldi. Ég var eindreginn talsmaður þess að menn gæfu sér tíma til að freista þess að ná samkomulagi við þá aðila sem voru reiðubúnir til að kaupa fyrirtækið. Því miður varð það niðurstaða ráðherra að hverfa frá því ráði þótt um tíma liti svo út að hugur hans stefndi þangað. Ég tel að það hafi verið ákaflega misráðið að hverfa frá því bæði vegna hagsmuna ríkissjóðs og líka vegna hagsmuna almennings því þetta fyrirtæki, sem hefði verið stofnað með kaupum á Skipaútgerð ríkisins, hafði alla burði til að verða öflugt skipafélag, geta sinnt þeim kvöðum sem á það voru lagðar innan lands og geta veitt skipafélögum harða og öfluga samkeppni í siglingum á milli landa. Með ákvörðun hæstv. ráðherra var svipt í burtu þessum möguleika að auka samkeppni eða taka upp alvörusamkeppni í siglingum á milli Íslands og annarra landa. Það eru hagsmunir þjóðarinnar að þar ríki veruleg samkeppni því að menn vita að samkeppnin er ekki allt of öflug. Annar aðilinn er allt of stór og ræður allt of miklu og þar með ræður hann líka allt of miklu um það verð sem menn verða að greiða fyrir flutninginn. Ég hélt, virðulegi forseti, að það væri stefna Sjálfstfl. að stuðla að samkeppni.
    Árið 1983 var Sjálfstfl. með kjörorðið ,,frá orðum til athafna``. Stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli og stefna Sjálfstfl. í þessu máli, eins og hún birtist af hálfu ráðherranna, er ekki ,,frá orðum til athafna``. Hún er að segja eitt og gera annað. Á því eru vissulega undantekningar í þingliði Sjálfstfl. og ég nefni sérstaklega hv. 4. þm. Reykv. sem er sjálfum sér samkvæmur í sínum skoðunum og það er virðingarvert að menn sveiflist ekki fram og aftur eins og lauf í vindi heldur haldi sig við sínar skoðanir þegar á reynir.
    Ég var einnig búinn að rekja að það hefði ekki verið rétt sem hæstv. ráðherra fullyrti að Færeyjasiglingar Skipaútgerðar ríkisins hefðu verið reknar með tapi og þess vegna hefði hann gefið út þau fyrirmæli að láta þeim lokið. Ég er með töflu yfir flutningamagn mánuð fyrir mánuð á síðasta ári og það er alveg skýrt að það féll ekki fyrr en í nóvember. Ég er með yfirlit frá Ríkisendurskoðun sem staðfestir að þessar siglingar voru reknar með hagnaði. Þær voru ábatasamar fyrir fyrirtækið og þar með fyrir ríkissjóð. Að hætta þeim þýddi það að menn voru að fórna hagsmunum ríkissjóðs, því miður.
    Það er því miður fleira sem gengið hefur eftir á þann veg sem ekki skyldi. Þær hræringar sem urðu vegna þeirrar stefnu sem ljós varð í september um framtíð fyrirtækisins hafa valdið verulegum skað. Því er ekki að leyna. Þær hafa valdið því að á síðustu mánuðum ársins var verulegur tekjusamdráttur vegna samdráttar í flutningum. Óvissan og ákvarðanir hæstv. ráðherra gerðu það að verkum að fyrirtækið varð fyrir því áfalli að missa verulegar tekjur. Það eru nú komnar fram talnalegar niðurstöður af þessari stefnu. Það er komið fram að þetta umrót og ákvörðun ráðherra kostuðu fyrirtækið og þar með ríkissjóð 77 millj. kr. Það er það tekjutap sem fyrirtækið varð fyrir vegna þess að það var ekki hægt að reka það eins og menn höfðu áformað. Það er skatturinn sem þjóðin verður að borga fyrir það að menn hröpuðu að ákvörðunum, gáfu sér ekki þann tíma til að undirbúa málið sem skyldi heldur flýttu sér of hratt. Það er dýr sölukostnaður. Sá fasteignasali þætti mikill okrari sem tæki söluþóknun af þessu tagi.
    Það er afleitt þegar kappið er svo mikið að menn taka ekki skynsamlegum ráðum, jafnvel þótt þeir biðji um það sjálfir og það leiðir til þess að slíkt kostar 77 millj. kr. Það er dýrt, virðulegi forseti.
    Við sjáum þetta betur ef við berum saman flutninga ársins í fyrra í tonnum borið saman við árið 1990. Í stað þess að flytja 120 þús. tonn árið 1990, þá voru flutningarnir 99 þús. tonn árið 1991. Það er 20 þús. tonna minnkun sem fyrst og fremst má rekja til þeirrar óvissu sem sköpuð var um stöðu fyrirtækisins.
    Virðulegi forseti. Það verður seint of mikið sagt um þýðingu fyrirtækisins Skipaútgerðar ríkisins. Það hefur þjónað veigamiklu hlutverki í tímans rás og enn eru fyrir hendi þær aðstæður í þjóðfélaginu að þörf er á að veita þessa þjónustu. Ég hygg að allflestir séu sammála um það og um það hafi aldrei verið neinn ágreiningur að menn voru tilbúnir í breytingar. En það þurfti ekki að láta fallöxina falla á einu augabragði enda hefur það orðið mönnum nokkuð dýrt.
    Ef maður greinir í sundur flutninga fyrirtækisins sér maður að þeir eru ákaflega þýðingarmiklir, sérstaklega til fámennra staða og sérstaklega til að tryggja samgöngur á milli hafna innan landsbyggðarinnar innbyrðis, t.d. voru flutningar frá Norðurlandi til Austurlands 3.100 tonn á síðasta ári. Milli hafna á Norðurlandi yfir til Austurlands voru 3.100 tonn og höfðu aukist um 500 tonn frá fyrra ári. Til baka frá Austfjarðahöfnum til Norðurlands voru flutt 900 tonn á síðasta ári. Milli hafna á Norðurlandi voru flutt um 1.400 tonn. Frá Norðurlandi til Vestfjarða voru flutningar um 1.400 tonn og um 500 tonn frá Vestfjörðum til Norðurlandshafna. Auðvitað skiptir máli að menn eigi samgöngunet sem tryggir þessar samgöngur.
    Ekki var allt á verri veginn með þessa flutningaþróun. T.d. gerðist það, sem ég átti ekki von á, að þrátt fyrir nýja Breiðafjarðarferju sem opnaði leiðina með vöruflutningabíla frá höfuðborgarsvæðinu til Patreksfjarðar og til baka, þá jukust flutningarnir frá Patreksfirði á milli ára úr 734 tonnum í 854 tonn og hina leiðina úr 616 tonnum í 685 tonn. Þetta skiptir því verulegu máli. Ég get nefnt fleiri tölur til staðfestingar á því að hlutverk félagsins er ekki eingöngu að ferja farm milli höfuðborgarinnar og einstakra staða úti á landi heldur líka að ferja vörur á milli staða á landsbyggðinni og milli landshluta án viðkomu eða milligöngu höfuðborgarsvæðisins.
    Ég ætla, virðulegi forseti, að fara að ljúka máli mínu. Ég tel að ég hafi farið yfir það svo ítarlega sem kostur er á og gert grein fyrir viðhorfum mínum til þess svo menn þurfi ekki að velkjast í neinum vafa um hver afstaða mín er. Hún er sú að það sé hlutverk ríkisvaldsins, það sé samfélagsleg ábyrgð að tryggja lágmarksþjónustu til afskekktari staða. Það verður ekki undan því vikist og við getum ekki leyft okkur, virðulegi forseti, að kasta þessu máli frá okkur og láta skeika að sköpuðu um framhaldið. Það er ekki mönnum bjóðandi og því skora ég á hæstv. ráðherra að taka undir þær brtt. sem minni hluti samgn. hefur flutt í þessu máli því þær eru besti kosturinn í þeirri stöðu sem við erum í nú.