Skipaútgerð ríkisins

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 12:55:50 (6783)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þarf kannski ekki að vekja athygli hæstv. forseta á því að ég er yfirleitt ekki mjög langorð hér. Ég vil gera athugasemd við það sem ráðherra sagði um að það sé misskilningur að Samskip séu að hætta flutningum til Norðurfjarðar eða að það sé hugsanlegt. Ég vil auðvitað fagna því, ef svo er reyndin, að Samskip muni halda áfram þessum flutningum En ég bendi hæstv. ráðherra á að þeir hljóta að taka tillit til þess hvort ágóði er af þeim flutningum vegna þess að þeir eru auðvitað í harðri samkeppni um það að láta sitt fyrirtæki ganga vel rekstrarlega séð og hafa engar aðrar skyldur.
    Rökstuðningur ráðherra var sá að Samskip væru nú búin að senda út áætlanir á erlendum málum. Það finnst mér ekki nægilegur rökstuðningur vegna þess að ég held að þó að þeir sendi áætlanir út á erlendum málum eiga þeir mjög hægt með að breyta þeim og láta skipin ekki koma við á einum og einum stað.
    Hann gat þess einnig að styrkt væri flug til Grímseyjar til þess að aðstoða þá við samgöngur eða flutninga og það gæti komið til greina að styrkja flugsamgöngur að Gjögri á svipaðan hátt ef til þess þyrfti að koma en þar mundi þó aldrei verða um neinar 50 millj. kr. að ræða eins og ég hef sett fram í brtt. sem ég flutti í gær ásamt öðrum þingmönnum í minni hluta samgn.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að í brtt. erum við ekki að segja að það þurfi að vera 50 millj. kr. heldur að ráðherra sé heimilt að ráðstafa allt að 50 millj. kr. af því fé sem fæst við sölu á eignum Skipaútgerðarinnar. Og vegna þess að ráðherra gerði líka nokkrar athugasemdir um þá fjármuni sem koma inn fyrir söluna get ég ekki látið hjá líða að nefna að ég tel að þó að búið verði að greiða kostnað og það tap sem fyrir liggur muni samt verða eftir 150 millj. kr. þegar búið er að selja allar eignir Skipaútgerðarinnar. Þess vegna fannst mér ekki óeðlilegt að setja þessa upphæð inn í brtt.