Skattskylda innlánsstofnana

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 14:25:00 (6799)


     Kristín Ástgeirsdóttir (frh.) :
    Herra forseti. Þetta er alrangt hjá hæstv. forseta. Ég var ekki í miðri ræðu, ég var rétt að byrja hana og eins og hæstv. forseti eflaust minnist, þá bað ég um það að eftirtaldir ráðherrar yrðu viðstaddir ef þeir eiga þess nokkurn kost: Fjmrh. að sjálfsögðu, forsrh., iðnrh., landbrh. og sjútvrh. Ég veit að ég get ekki krafist þess að þessir ráðherrar séu viðstaddir, en ef þeir vildu vera svo vænir, þá væri það mjög til góðs í þessu máli því að ég hyggst spyrja þá spurninga og við erum að ræða um mál sem snertir stofnanir og sjóði sem undir þá heyra.
    Virðulegi forseti. Við erum að ræða um skattskyldu innlánsstofnana og við allar eðlilegar kringumstæður hefði verið eðlilegt að styðja þetta mál en eins og fram kemur í framlögðum þskj. þá leggur minni hluta efh.- og viðskn. til á þskj. 870 að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Nú er það svo að þetta er eitt af þeim málum sem núv. ríkisstjórn fann í skúffunum hjá fyrri ríkisstjórn og kemur enn í ljós hvað þeir tóku illa til í skúffunum hjá sér þegar þeir yfirgáfu ráðuneytin. Engu að síður hefði þurft að vinna þetta mál betur og staðreyndin er sú að þrátt fyrir mikla og góða vinnu í efh.- og viðskn., sem hefur haft þetta mál lengi til skoðunar, er málið þannig vaxið að við stjórnarandstæðingar treystum okkur ekki til þess að greiða því atkvæði okkar.
    Til þess að rifja aðeins upp út á hvað þetta mál gengur þá er það einfaldlega það að ýmsir þeir sjóðir sem að mestum hluta eru í eigu ríkisins og gegna margir ýmsum lögbundnum verkefnum skulu nú greiða skatta af tekjum sínum og eignum og eins og ég sagði, þá væri við eðlilegar kringumstæður ekkert óeðlilegt við það, en það er ýmislegt að athuga við þetta mál.
    Við 1. umr. gat ég þess að mér þætti óeðlilegt að leggja skatt á ýmsa þessa sjóði, eins og t.d. Framleiðnisjóð landbúnaðarins og aðra þá sjóði sem veita styrki til starfsgreina, en fjmrn. varð vel við þessum athugasemdum og voru gerðar breytingar á frv. þannig að það fé sem varið er til beinna styrkja verður ekki skattlagt. Þannig að ekki er um það að ræða að farið sé að rýra fé til þessara lögbundnu verkefna. Það er að sjálfsögðu til góðs. En það sem málið snýst um er að það eru einkum og sér í lagi þrír sjóðir sem gera miklar athugasemdir við þessa fyrirhuguðu skattlagningu og þar er um að ræða Stofnlánadeild landbúnaðarins, Fiskveiðasjóð og Iðnlánasjóð. Og þeir sem lesið hafa Morgunblaðið í dag átta sig á því að nú er þetta orðið að blaðamat og Morgunblaðið áttar sig væntanlega á því að ekki er um einfalt mál að ræða.
    Í gær barst nefndarmönnum í efh.- og viðskn. enn eitt bréfið frá Fiskveiðasjóði sem hefur mótmælt þessari skattlagningu mjög harðlega og ég vil fá að lesa þetta bréf. Það er dagsett 14. maí 1992 og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ég vísa í bréf til efh.- og viðskn. dags. 17. mars og 22. apríl þessa árs. Jafnframt er vísað í brtt. efh.- og viðskn. á þskj. 850 við frv. til laga um breyt. á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana.
    Þótt tekið hafi verið tillit til ábendingar okkar varðandi ákvæði um stimpilgjald í ofannefndu þingskjali, þ.e. að gera innheimtu þess ekki afturvirka, er það einungis eðlileg leiðrétting. Eftir stendur að ákvæði frv., sbr. 5. gr. og 3. gr. í brtt., eru að öðru leyti

afturvirk, þ.e. að samkvæmt frv. koma lögin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1993 vegna tekna alls ársins 1992 og eigna í lok þess árs. Eftir stendur einnig að verið er að mismuna stofnunum eftir eignaformi. Ákvæði frv. leiða a.m.k. til tvíþættrar mismununar milli stofnana:
    A. Milli opinberra lánastofnana og stofnana í hlutafélagsformi.
    B. Milli Fiskveiðasjóðs og allra annarra lánastofnana sem frv. tekur til.
    Hlutafélagabanki greiðir ekki skatt af hlutafé en greiðir hluthöfum arð ef hagnaður verður af rekstri eða ef aðalfundur bankans ákveður svo. Fiskveiðasjóður og aðrar opinberar lánastofnanir koma til með að greiða eignarskatt af öllu eigin fé hvort sem um hagnað af rekstri er að ræða eða ekki. Óþarft er að taka fram að Fiskveiðasjóður nýtur engrar ríkisábyrgðar og situr því ekki við sama borð og aðrar opinberar lánastofnanir. Verði frv. í núverandi mynd að lögum verður um alvarlega mismunun milli stofnana að ræða eða með öðrum orðum, sumar eru jafnari en aðrar gagnvart lögum.
    Þá ber að leggja á það áherslu að verði umrætt frv. að lögum óbreytt er verið að íþyngja sjávarútveginum verulega með auknum álögum.`` --- Ég vil vekja athygli þingmanna á þessu sérstaklega: ,,er verið að íþyngja sjávarútveginum verulega með auknum álögum. Á þessu og næsta ári standa yfir skuldbreytingar sjávarútvegsfyrirtækja hjá Fiskveiðasjóði. Má líta svo á að skuldbreytingalán, sem veitt verða til að greiða upp eldri, oft óhagstæðari lán, verða stimpilgjaldsskyld samkvæmt ákvæðum frv. ef að lögum verður þrátt fyrir að eldri lánin hafi ekki verið stimpilgjaldsskyld.``
    Þetta er bréf Fiskveiðasjóðs undirritað af Má Elíssyni, framkvæmdastjóra Fiskveiðasjóðs. Af þessu má ljóst vera að Fiskveiðasjóður er bæði áhyggjufullur og andvígur þessum breytingum sem verið er að gera og sama gildir um Stofnlánadeild landbúnaðarins og Iðnlánasjóð. En það sem skiptir máli í þessu er annars vegar það að þessir sjóðir telja að þeir sitji ekki við sama borð og aðrar lánastofnanir og hins vegar að stjórnendur þessara sjóða hafa lýst því yfir á fundum efh.- og viðskn. að óhjákvæmilegt verði að hækka vexti ef til þessarar skattlagningar kemur. Og þar erum við kannski komin að afar viðkvæmu máli því eins og menn muna er stutt síðan kjarasamningar voru gerðir í landinu en eitt megininntak þeirra kjarasamninga er einmitt vaxtastefna ríkisstjórnarinnar og loforð hennar um að ekki aðeins halda vöxtum niðri heldur beinlínis að lækka vexti. Og nú síðast varð Landsbankinn við kröfum um lækkun vaxta vegna þessara kjarasamninga þó að ýmsir af forsvarsmönnum þess banka hafi talið að bankinn stæði kannski ekki allt of vel að vígi varðandi vaxtalækkanir eða hefðu ákveðnar röksemdir í því máli. En í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi kjarasamningana segir, með leyfi forseta, í 2. lið:
    ,,Ríkisstjórnin mun hafa frumkvæði að lækkun vaxta eins og nánar er gerð grein fyrir hér á eftir.`` Og í 17. lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar segir og ég ætla að leyfa mér að lesa þann kafla sem fjallar um vaxtamál vegna þess að hann snertir náttúrlega framkvæmd þessa máls sem hér er til umræðu. Í 17. lið segir, með leyfi forseta:
    ,,Í framhaldi af því sem sagði í lið 2 vill ríkisstjórnin ítreka það markmið sitt að stuðla að lækkun raunvaxta á innlenda lánamarkaðnum á grundvelli frjálsra markaðsvaxta, stöðugleika í gengis- og verðlagsmálum og jafnvægis í opinberum fjármálum. Ríkisstjórnin telur að raunhæf lækkun vaxta við þessi skilyrði verði að byggjast á tveimur meginstoðum.
    Í fyrsta lagi verður unnið áfram að því að auka samkeppni og hagkvæmni á lánsfjármarkaðnum þannig að vaxtamyndun verði frjálsari og í betra samræmi við það sem gerist á þeim erlendu peningamörkuðum sem Íslendingar tengjast nú æ nánar með gengisfærslu og frjálsum fjármagnsflutningi. Í samræmi við þetta er nú m.a. stefnt að því að öll lánsfjáröflun til húsnæðiskerfisins verði smám saman með útgáfu markaðsbréfa í stað beinna samninga milli ríkisvalds og lífeyrissjóða. Einnig er stefnt að því að hefja bráðlega sölu óverðtryggðra ríkisverðbréfa með frjálsu útboði. Leggja verður áherslu á að fjármálastofnanir, þar á meðal lífeyrissjóðir, hafi ekki samráð eða beiti samtakamætti á lánsfjármarkaðnum.
    Í öðru lagi verði dregið úr lánsfjárþörf opinberra aðila sem haldið hefur uppi raunvöxtum að undanförnu. Í þessu efni skiptir höfuðmáli ásetningur ríkisstjórnarinnar að bæta afkomu ríkissjóðs. Jafnframt verður að tryggja að útgáfa húsbréfa og önnur fjáröflun til húsnæðislánakerfisins og opinberra sjóða raski ekki jafnvægi á lánamarkaðinum. Með tilvísun til þessara meginsjónarmiða mun fjmrn. lækka vexti á nýjum spariskírteinum til sölu á markaðnum niður í 6,5%. Jafnframt verða vextir á ríkisvíxlum lækkaðir í samræmi við lækkandi raunvexti og horfur um verðlagsþróun. Ríkisstjórn og Seðlabanki munu einnig með tilteknum aðgerðum í fjármálum og peningamálumn beita sér fyrir því að vextir á eftirmarkaði verði í samræmi við vexti á nýjum spariskírteinum sem til sölu eru á hverjum tíma. Leggja verður áherslu á að ekki er unnt að binda vaxtaákvarðanir langt fram í tímann nema með þeim fyrirvara að ekki verði umtalsverðar breytingar á efnahagsskilyrðum er áhrif hafi á fjármagnsmarkaðinn.``
    Þetta segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hér er lýst yfir þeim markmiðum að lækka vexti og halda niðri vöxtum þó að ég hafi í sjálfu sér vissar efasemdir um að það eigi að vera að semja um vaxtakjör með þeim hætti sem farinn er að tíðkast á vinnumarkaðinum. Ég hef að vísu mikinn skilning á því að bæði vinnuveitendur og launþegasamtök vilji beita sér fyrir vaxtalækkunum, enda vextir hér allt of háir og óþolandi bæði fyrir einstaklingana sem þurfa að taka lán og fyrirtækin sem þurfa að búa við þessa háu vexti. Og því er meginspurning mín til fjmrh. í fjarveru hæstv. forsrh., sjútvrh., landbrh. og iðnrh., það er enginn þeirra hér, en ég vona að fjmrh. treysti sér til að svara þessum spurningum. Fyrsta spurningin er auðvitað sú hvort fjmrh. telji að þessi vaxtahækkun sem forsvarsmenn þessara sjóða boða sé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum. Þetta er grundvallarspurning. Er vinstri höndin að gera það sem sú hægri veit ekki? Ég held að það sé alveg augljóst að þessi breyting kemur ekki heim og saman við kjarasamningana þó að það sé að vísu erfitt að gera sér grein fyrir því hvað sjóðirnir eru að tala um mikla vaxtahækkun, það er vaxtahækkun samt. Henni verður velt út í verðlagið í landbúnaðinum og henni verður velt yfir á sjávarútveginn af Fiskveiðasjóði, þannig að þetta liggur alveg á borðinu. Ég hefði viljað spyrja viðkomandi ráðherra um það hvernig þetta horfir við þeim og þeirra ráðuneytum þar sem um það er að ræða að sjóðir, sem undir þá heyra, eru að boða vaxtahækkanir. Ég vil spyrja fjmrh. hvernig það horfi við ríkisstjórninni ef þessir sjóðir hækka sína vexti.
    Ég er ekki nógu vel kunnug þessum stjórnarformum til að geta áttað mig á því hvort ríkisstjórnin geti með einhverjum hætti komið í veg fyrir þetta. Auðvitað er hægt að ræða við þessa sjóði eins og menn hafa tekið að sér að stýra hér öllu efnahagslífi með samningum og fyrirskipunum.
    Einnig vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur aðilum vinnumarkaðarins verið gerð grein fyrir því sem hér er á ferð? Vita þeir af þeirri vaxtahækkun sem er verið að boða? Ég hefði gaman af því að vita hvernig þessi mál horfa við þeim.
    Um þetta væri hægt að hafa langt mál og ræða nokkuð um stöðu atvinnuveganna sem ég held að okkur blandist ekki hugur um að ekki þoli frekari vaxtahækkanir. Það hlýtur líka að ganga gegn nýgerðum kjarasamningum ef landbúnaðurinn þarf að standa undir hærri vöxtum því að það þýðir ekkert annað en hærra vöruverð og ég á bágt með að sjá að það komi heim og saman við þá kjarasamninga sem hafa verið gerðir. Eins og þetta blasir við mér þá erum við með býsna viðkvæmt mál til umræðu. Og ég hlýt líka að spyrja: Ef þessir sjóðir hækka sína vexti, hvaða áhrif hefur það á vaxtastefnuna almennt? Hvaða áhrif hefur það ef þessir sjóðir hækka vexti? Kemur þá ekki þrýstingur annars staðar frá um vaxtahækkun?
    Það líður að lokum þings og ég vænti þess að ekki verði mörg tækifæri til að ræða við hæstv. fjmrh. um stöðu ríkissjóðs og hvernig sú stefna, sem ríkisstjórnin tók upp eftir að hún komst til valda, gengur. Mér þætti fróðlegt að heyra viðhorf fjmrh. hvað það varðar, hvernig hann metur stöðu efnahagsmála nú á þessari stundu. Hefur hann trú á því að það takist að ná vöxtum meira niður en orðið er eða telur hæstv. fjmrh. að sú lækkun sem þegar hefur náðst fram dugi til þess að kjarasamningar standist? Einnig þætti mér fróðlegt að heyra frá fjmrh. hvernig hann metur stöðuna varðandi eftirspurn á lánsfé. Því

er heitið í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að reyna að draga úr eftirspurn, einkanlega ríkisins, eftir lánsfé og ég spyr hann, hvernig metur hann stöðuna nú? Það er að nálgast mitt ár. Hvert stefnir? Hefur dregið mikið úr spennunni? Við sáum niðurstöður frá hæstv. fjmrh. eftir þrjá fyrstu mánuði þessa árs og þá virtist hafa dregið nokkuð úr en menn héldu að sér höndum á þeim tíma vegna komandi kjarasamninga. Nú eru þeir afstaðnir og þá er spurning: Losnar um einhverja spennu? Verða menn bjartsýnni og ætla út í fjárfestingar eða tekst ríkinu að halda í horfinu?
    Það eru sem sagt margar spurningar sem vakna í þessu máli og ég mun e.t.v. taka aftur til máls ef mér þykir ástæða til, en ég hefði haft gaman af því að koma þeirri ábendingu til hæstv. forsrh., sem eins og við vitum leiðist ákaflega hér í þinginu og þykir við þingmenn langorðir og leiðinlegir, að það þyrfti endilega að kynna honum hvernig vinna fer fram í nefndum. Ég held að ef hæstv. forsrh. fengi að kynnast því hvernig nefndastörf fara fram fengi hann kannski að sjá þá hlið á þinginu sem honum þætti jákvæðari því að þar fer oft fram gífurlega mikil og vönduð vinna. Ég get sagt það fyrir mig sem nýliða á þingi að mér hefur þótt ákaflega fróðlegt og upplýsandi að sitja í efh.- og viðskn. Það var einn meðnefndarmaður minn sem orðaði það þannig að þetta væri eins og að sitja í háskólakúrs í þjóðhagfræði enda margir mætir menn og konur sem sitja í þessari nefnd. En það breytir ekki því að það mál sem hér um ræðir er þess eðlis að ég treysti mér ekki til þess að greiða því atkvæði mitt þó að ég sé þeirrar skoðunar að allar lánastofnanir eigi að sitja við sama borð og það ræðst kannski fyrst og fremst af því ástandi sem við búum við og nýgerðum kjarasamningum. Ég tel að nú sé ekki rétta augnablikið til að koma á þessari skattlagningu og hefði kosið að málið hefði beðið aðeins og verið skoðað betur þannig að tryggt væri að það hleypi ekki öllu í bál og brand á vinnumarkaðnum.