Skattskylda innlánsstofnana

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 15:23:00 (6807)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Aðeins eitt atriði og það varðar Fiskveiðasjóðinn sem ég get að sjálfsögðu ekki rökrætt mikið því að rökin liggja ekki fyrir. En mér sýnist eftir að hafa skoðað málið að staða Fiskveiðasjóðs á lánamarkaði breytist ekki vegna þessa frv. og það skiptir auðvitað mestu máli hve eiginfjárstaða sjóðsins er góð og það eru allir sammála um það. Það má nefna til sögunnar að líklega er eiginfjárstaða sjóðsins jafngóð og Búnaðarbankans, til að nefna eitthvað til samanburðar. Ég treysti, eins og allir aðrir, forstjórum og forstöðumönnum sjóðsins ákaflega vel en ég bendi á að áhrifin á sjávarútveginn fara nákvæmlega eftir því hvaða kröfur stjórnendur sjóðsins gera til eigin fjár sjóðsins í framtíðinni. Ég tel að þær tölur sem þeir hafa verið að nefna séu of háar nema sjóðurinn ætli sér á næstunni að bæta verulega við eigin fjármagn þessa sjóðs. Og ég spyr þá sem hér tala í þessu máli: Telja þeir það vera heppilegustu ráðstöfunina í sjávarútveginum í dag eða ætti Fiskveiðasjóður ásamt ríkisstjórninni og öllum þeim sem koma að málum að slaka dálítið á? Ég minni á það að síðustu að það hefur þýðingu fyrir sjávarútveginn að ríkissjóður sé rekinn með litlum halla vegna þess að það er trygging fyrir því að halda vöxtunum niðri.