Skattskylda innlánsstofnana

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 15:24:47 (6808)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það er alveg rétt að Fiskveiðasjóður stendur ágætlega. Þó veitir ekkert af, miðað við sviptingarnar sem við þekkjum úr íslensku atvinnulífi og ekki síst sjávarútveginum, að hann hafi þessa eiginfjárstöðu og hún mætti þess vegna vera 5--10 milljörðum kr. meiri. Það væri aðeins af því góða. Höfuðlánasjóður atvinnugreinar, sem veltir jafnstórum fjárhæðum í sveiflukenndum atvinnurekstri og sjávarútvegurinn gerir, þarf að vera sterkur, sérstaklega þegar svo er komið, eins og hæstv. fjmrh. veit, að sjóðurinn nýtur ekki ríkisábyrgðar, hvorki á erlendum né innlendum lántökum. Við vorum að breyta því síðast í vetur að taka það út úr lögum að Fiskveiðasjóður nyti ríkisábyrgðar á innlendum lántökum. Sjóðurinn er í ríkiseign, hæstv. fjmrh., Það vitum við auðvitað vel. Rétt skal vera rétt en þegar sjóðurinn er að taka lán erlendis getur hann ekki leynt sína viðskiptavini því hvernig staðan er. Hann hefur ekki ríkisábyrgð á einstökum lántökum af þessu tagi. Greiðslurnar þaðan koma ekki úr ríkissjóði og það er þá ekki fyrr en sjóðurinn væri fallít og búið að gera hann upp sem komið gæti til ábyrgðar eiganda hans. Að þessu leyti er, hæstv. fjmrh., staðan ekki eins hjá Fiskveiðasjóði og ríkisbönkunum. Það er ekki rétt að halda því fram. Annars er það út af fyrir sig markleysa að breyta lögum, eins og við höfum verið að gera, gagnvart Fiskveiðasjóði.
    Rökstuðningurinn felst auðvitað í þeirri staðreynd, hæstv. fjmrh., að inn í hverjum einasta lánssamningi sem Fiskveiðasjóður tekur erlendis eru ákvæði sem heimila þeim, sem lánið veitir, að segja samningum upp ef tilteknar breytingar verða á högum sjóðsins. Ég tel að þetta eitt sé í raun nægjanleg röksemd til þess að menn a.m.k. hafi leyfi til þess að lýsa áhyggjum eins og forstjóri Fiskveiðasjóðs gerir þó að hann taki óneitanlega nokkuð sterkt til orða í þessu blaðaviðtali enda tel ég, miðað við þann málflutning sem hann hefur haft í efh.- og viðskn., að hann hafi rök til þess að gera það.