Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 16:46:19 (6821)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þeir sem lesa þetta ákvæði samningsins geta varla verið í vafa um hvað þar segir. En hæstv. ráðherrar meta það svo og skilja það þannig að Íslendingar geti lagt jöfnunartoll á eins og þeim sýnist þrátt fyrir ákvæði um að það megi alls ekki gerast. Mér finnst þetta mjög einkennileg túlkun og ég vil benda mönnum á að það er ekki spurningin um það hvernig við túlkum samninginn heldur er það spurningin um það hvernig Evrópubandalagið túlkar samninginn því að það eru þeir sem eiga að ráða hvernig túlkunin verður, ekki Íslendingar. Því miður er það svo. Mér sýnist því á öllu að þarna hafi orðið mistök eða kannski að Evrópubandalagið hafi gert kröfu sem Íslendingar hafi látið undan eins og þeir hafa gert í svo mörgum málum að því er varðar þennan samning.
    Mér finnst það koma æ betur í ljós að þessi samningur er alls ekki til hagsbóta fyrir Ísland, hann er alls ekki hagstæður Íslendingum og mér sýnist á þessu að hann sé langt frá því að vera hagstæður íslenskum landbúnaði. Það kemur kannski ekki neinum á óvart að utanrrh. Alþfl. skuli fallast á slíka setningu þar sem hann hefur, eins og kunnugt er, viljað óheftan innflutning á landbúnaðarvörum og sér ekkert því til fyrirstöðu að leyfa hann. Þess vegna kemur mér í raun ekki á óvart að þessi setning hafi ekki fengist út úr samningnum og Evrópubandalagið hafi gjarnan viljað hafa hana inni.