Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 16:54:00 (6824)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Hér er fjallað um afar mikilvægt mál sem er hluti af samningum um Evrópskt efnahagssvæði sem eiga eftir að koma til umfjöllunar á Alþingi. Það er því miður þannig að ýmsar af yfirlýsingum hæstv. utanrrh. og ýmsar upplýsingar sem hafa komið fram á undanförnum mánuðum hafa verið þess eðlis að þær hafa aukið tortryggni manna í garð þessa samnings. Það er ekki heldur óeðlilegt að menn verði tortryggnir að því er varðar þennan þátt vegna þess að hæstv. utanrrh. er yfirlýstur áhugamaður um að auka innflutning á landbúnaðarvörum til landsins. Það er eitt að þurfa að beygja sig fyrir samningsniðurstöðu þar sem menn halda af fullri einurð á okkar rétti en annað ef menn vilja nota tækifærið í samningunum til að koma fram því stefnumáli utanrrh. og Alþfl. að auka innflutning á landbúnaðarvörum. Það mátti skilja á hæstv. landbrh. að hann hefði ekki verið hafður með í ráðum þegar þessi niðurstaða kom þann 4. des. og því er haldið hér fram að ríkisstjórnin hafi þennan og þennan skilning. Því hljótum við að spyrja: Hvað hefur ríkisstjórnin gert til þess að koma þessum skilningi sínum á framfæri? Setti ríkisstjórn Íslands fram bókun um þetta mál þann 4. des. eða er þessi skilningur eingöngu í ríkisstjórnarherberginu og hefur honum ekki verið komið á framfæri? Ef þessum skilningi hefur ekki verið komið á framfæri hlýt ég að spyrja: Hvers vegna hefur það ekki verið gert og hvenær verður honum komið á framfæri?