Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 16:56:18 (6825)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. hefur upplýst að það var Evrópubandalagið sem gerði kröfu um að þetta ákvæði kæmi inn í samninginn. Evrópubandalagið hefur auðvitað haft sínar ástæður fyrir því. Hæstv. landbrh. upplýsir einnig að ýmis ríki Evrópubandalagsins séu þeirrar skoðunar að þetta ákvæði banni Íslendingum að leggja á jöfnunargjöld í því skyni að vernda íslenskar framleiðsluvörur. Síðan hefur ráðherrann rakið það að innan íslensku ríkisstjórnarinnar sé hinn og þessi skilningur á málinu. Og hv. þm. Pálmi Jónsson kemur hér og segir: ,,Skilningur ríkisstjórnarinnar verður að vera það sem gildir.`` Virðulegi forseti. Það er afar erfitt að taka þátt í þessari utandagskrárumræðu með nauman ræðutíma og ráðherrann er ekki í salnum og er á fundi í hliðarherbergi. ( Landbrh.: Ráðherrann er í salnum.) Hann er á fundi í hliðarherbergi á fundi með tveimur embættismönnum. (Gripið fram í.) Ég er ekki í neinni þingskapaumræðu, virðulegur ráðherra, en ég ætlaði að bera fram fyrirspurn til ráðherrans og hafa aðdraganda að henni. Ég get það ekki ef ráðherrann er önnum kafinn í samræðum við tvo embættismenn. Ég mælist því til þess að ég fái svo sem hálfa mínútu eða meira í viðbót til að bera fyrirspurn mína upp. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess en óskar jafnframt eftir því að ráðherra sé í salnum.)
    Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði að skilningur ríkisstjórnar yrði að vera það sem gilti.

En virðulegur þingheimur. Það er einmitt kjarni EES-samningsins að það er ekki skilningur íslensku ríkisstjórnarinnar sem gildir. Svo einfalt er nú málið. Með EES-samningnum eru menn að skrifa undir, ekki bara viðskiptaþætti heldur lagakerfi og úrskurðakerfi þar sem skilningur íslensku ríkisstjórnarinnar gildir ekki. Þess vegna hefur það tiltölulega lítið að gera með vissu þessa máls að hæstv. landbrh. og hæstv. iðnrh. þylji hér hver sé skilningur íslensku ríkisstjórnarinnar. Ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Hvaða aðili verður það þegar EES-samningurinn verður kominn í gildi sem kveður upp úrskurðinn sem íslenska ríkisstjórnin verður að beygja sig undir í málinu? Ég óska eftir mjög stuttu svari, einni eða tveimur setningum, þannig að hæstv. landbrh. geti upplýst okkur, sem erum kannski ekki mjög vel lesin enn í málinu, um það hver verður úrskurðaraðilinn sem fellir dóminn þegar krafa Evrópubandalagsríkjanna stendur á móti fullyrðingu íslensku ríkisstjórnarinnar.