Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:00:22 (6827)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Í örstuttri ræðu áðan, fyrri ræðu hæstv. iðnrh., komu fyrir orðin túlkun, mat, skilningur. Það voru í raun og veru hin efnislegu svör þegar staða málsins var reifuð. Það er túlkun okkar, það er mat ríkisstjórnar, það er skilningur íslenskra yfirvalda. Það voru efnislegu svörin sem hæstv. iðnrh. flutti hér áðan. Það er ekki nóg, það er ekki það sem gildir, það dugar okkur ekki. Er verið að reyna að segja okkur að þetta afdráttarlausa orðalag merki ekki neitt, það breyti engu, það hafi engin áhrif á stöðu Íslands? Þá er auðvitað næsta spurning: Hvers vegna var það þá sett inn? Er það bara upp á skraut til þess að eyða pappír eins og nóg af honum hafi ekki farið í þennan samning? Það er mjög sérkennilegt að Evrópubandalagið sé að krefjast þess að þetta sé sett inn í samninginn, eins og landbrh. upplýsti hér, ef enginn tilgangur er með því af neinu tagi nema pitsur og pasta hugsanlega af því að það hefur verið flutt inn til landsins. Enska orðalagið er algerlega afdráttarlaust og það stendur í beinu framhaldi af undanþáguákvæðunum ef ég má leyfa mér að lesa það upp á frummálinu, herra forseti. ,,However, the amounts of import charges levied at the border shall not in any case exceed the level applied by Iceland in 1991 to imports coming from any contracting party.`` Það er a.m.k. ekki hægt að misskilja þetta orðalag en hins vegar er spurningin: Til hvers tekur það? Mér þykir dálítið merkilegt ef menn leggja í allt þetta erfiði bara út af pitsum og pasta hjá þeim í Evrópubandalaginu.
    Þetta verður auðvitað að fást á hreint og ég ráðlegg hæstv. ríkisstjórn að vera komin með skýr svör í þessu efni áður en málið verður lagt fyrir þingið því að á því stendur sjálfur grundvöllur þess hvort íslenskur landbúnaður getur eitthvað varið sig fyrir innflutningsfrelsi í þessum efnum eða ekki. Hér er í besta falli á ferðinni afar óheppilegt orðalag sem íslenskir samningamenn hafa fallist á að láta fara inn í samninginn, í versta falli eitthvað miklu verra. Túlkun, mat og skilningur dugar okkur ekki í þessum örlagaríku málum, herra forseti. Við verðum að fá þar alveg hreinar línur.