Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:03:42 (6829)

     Jón Helgason :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin sem að sumu leyti voru skýr þó að ég sé að sjálfsögðu óánægður með niðurstöðuna. Hann sagði afdráttarlaust: Þessi setning kom inn eftir kröfu Evrópubandalagsins. Í texta á ensku sem ég hef frá 15. nóv. er þessi töluliður líka en með allt öðrum texta sem ekki sakar okkur. En á þessum tíma, sem sagt 4. des., kom Evrópubandalagið með þessa kröfu og undan henni er látið. Það er ekki rétt að þetta sé sameiginlegur skilningur allra starfsmanna ríkisins. Ég las hér upp bréf frá starfsmanni iðnrn. frá 24. apríl þar sem hann varar við þessari setningu og segir að þarna þurfi að breyta ,,in any case`` í enska textanum í ,,in other case`` sem gerbreytir auðvitað merkingu setningarinnar þar sem þá er átt við það sem á undan er komið. En svo kemur það fram hjá hæstv. landbrh. að búið sé að þreifa eitthvað á þessu núna og komið hafi fram mótmæli frá sumum Evrópubandalagslandanna og nú eru þrjár vikur frá því að starfsmaður iðnrn. skrifar bréfið. Það var skrifað meira en viku áður en samningurinn var undirritaður.