Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:10:00 (6832)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það er hvimleitt satt best að segja þegar hæstv. landbrh. er búinn að fá fjölda af spurningum og hefur nauman ræðutíma, þá ver hann honum til þess að ráðast á menn um óskyld málefni eða fjarskyld a.m.k. og hefur ekki einu sinni tilburði til þess að svara því sem hann er spurður um og er dagskrárefnið í umræðunni. Það er auðvitað ákaflega bagalegt, sérstaklega með tilliti til þess að hæstv. landbrh. var hér síðasti ræðumaður og þeim tíma sem ætlaður er til þessarar umræðu er lokið. Þetta á auðvitað þingreyndur maður, eins og hæstv. landbrh., að vita að eru ekki mannasiðir, herra forseti, með þínu leyfi. Þetta eru ekki mannasiðir í samskiptum hér í þinginu. En það er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur sem höfum starfað nokkur ár í þessari stofnun og þekkjum hæstv. landbrh. og þau hamskipti sem hann hefur stundum tekið að verða fyrir svona lífsreynslu af hans hálfu.
    Hæstv. landbrh. bar hér sakir á fyrrv. ríkisstjórn, fyrst og fremst auðvitað á hæstv. utanrrh., sem var einnig utanrrh. í þeirri ríkisstjórn. Hæstv. landbrh. hefur svo sem gert þetta áður. Það alvarlegasta er að annaðhvort veit hæstv. ráðherra svona sáralítið um það hvernig forsaga þess máls er, sem hann er að fjalla um, eða hann fer hér beinlínis með blekkingar. Hæstv. landbrh. hlýtur að vita eða þyrfti a.m.k. að vita að landbúnaðarmál voru fyrst í stað utan við umræðurnar um samningaviðræður um EES. Lengi vel var það svo að það var ekki reiknað með því að það yrði í raun og veru tekið á landbúnaðarmálunum enda kom aldrei til greina að hin sameiginlega landbúnaðarstefna Evrópubandalagsins yrði hluti af þessum samningi af hálfu EFTA-ríkjanna. Það lá ljóst fyrir. Hins vegar tóku mál að þróast þannig, þegar leið á síðasta hluta líftíma fyrri ríkisstjórnar, að kröfur komu um það frá Evrópubandalaginu að taka landbúnaðarmálin inn. Fyrst í stað stóð hæstv. utanrrh. á móti því að ræða þá hluti vegna aðstæðna sem uppi voru í viðræðunum. Það var hann sem stjórnaði málsmeðferðini og viðræðunum í þessum efnum. Auðvitað er það sérkennilegt að heyra hæstv. landbrh. ráðast með þessum hætti að hæstv. utanrrh. nema hann sé að nota sér tækifærið með þessum hætti til að skamma hæstv. utanrrh. fyrir hluti sem síðan hafa gerst í viðræðunum vegna þess að hann sé ekki maður til að viðurkenna þau slys sem hafa orðið í samningaviðræðunum á síðustu mánuðum, m.a. 4. des. og auðvitað með undirskriftinni núna í byrjun maí. Ég held að hæstv. landbrh. ætti bara að gæta sín pínulítið í þessum efnum. Það er auðvitað óhjákvæmilegt ef hann heldur áfram uppteknum hætti að taka þá tíma í að ræða þetta ítarlega og auðvitað væri það mjög æskilegt ef hægt hefði verið að skapa tíma fyrir ítarlegri umræður um þetta grafalvarlega mál. Svör hæstv. landbrh. voru engin og hann bætir síst málstað sinn eða stöðu sína með því að verja mestöllu af takmörkuðum ræðutíma sínum í tilefnislausar, ástæðulausar og óréttmætar árásir á fyrri ríkisstjórn. Það bætir ekki á nokkurn hátt úr þeirri stöðu sem hæstv. landbrh. er í og ég held að hann sé í þeirri kastþröng í þessum efnum, því sambúðin við hæstv. utanrrh. er ekki betri en það, að honum veiti ekki af góðra manna samúð hér í þinginu en eigi ekki að standa í því að útrýma því litla sem eftir er af henni með framkomu af því tagi sem við upplifðum hér áðan.