Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:14:20 (6834)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég bar fram mjög einfalda og málefnalega spurningu til hæstv. landbrh. Hún var á þá leið að þar sem ráðherrann hefur lýst því að Evrópubandalagið hafi annan skilning á því hvað felist í þeirri grein EES-samningsins, sem hér hefur verið til umræðu, en ríkisstjórn Íslands, hver er það þá sem ákveður endanlega hvaða skilningur ræður? Þetta er mjög einföld, málefnaleg og skýr spurning. Ég fékk ekkert svar við henni frá hæstv. landbrh. Í stað þess ræðst hæstv. landbrh. á mig og aðra fyrrv. ráðherra í síðustu ríkisstjórn með ómálefnalegum dylgjum, sleggjudómum og æsingi. Ég velti því fyrir mér hvernig stendur á því að ráðherrann kýs að fara þessa leið. Er málstaðurinn svona vondur? Er varnarstaðan svo hæpin að ráðherrann leggi ekki í að segja í áheyrn hv. þm. Pálma Jónssonar og hv. þm. Egils Jónssonar að það verði ekki íslenski landbrh. sem ráði þessu? Er það kannski það sem verið er að fela með því að snúa umræðunni upp í árásir á mig

og aðra sem voru í fyrrv. ríkisstjórn, að hæstv. landbrh. leggur ekki í að viðurkenna það í ræðustól á Alþingi að hann verður búinn að missa tökin á þessu máli þegar EES-samningurinn verður fullgildur og ríkisstjórn Íslands verður þá líka búin að missa tökin á málinu þegar samningurinn um EES verður fullgildur. ( Landbrh.: Ég óska að bera af mér sakir.) Já, það væri gott ef hæstv. ráðherra bæri af sér sakir, það væri gott og hvet ég hann til þess. En ég bið hann þá jafnframt um að svara þessari einföldu spurningu minni. Hann hefur lýst því að Evrópubandalagið hafi knúið á um að fá þetta ákvæði inn og það hafi fengið það inn. Nú er rokið upp og reynt að hafa einhvern annan skilning af hálfu ríkisstjórnar Íslands og hver kemur þá til með að ráða? Þá vil ég taka undir með hv. þm. Jóni Helgasyni. Það er auðvitað afar merkileg staða sem nú er upp komin að íslenskir bændur, þjóðþingið og stjórnvöld muni líklega í eitt til tvö ár vera í algerri óvissu um það hvort innflutningur á þessum landbúnaðarvörum muni verða hér að veruleika á grundvelli EES-samningsins. Ef það er stofnun EES-svæðisins sem á að úrskurða, sem ég tel að sé og væri fróðlegt að heyra skoðun landbrh., þá mun þetta mál ekki fást á hreint fyrr en einhvern tíma á árunum 1993--1994. Eða með öðrum orðum, allar áætlanir um íslenska landbúnaðarframleiðslu verða í uppnámi þangað til. Við erum því ekki að tala hér um eitthvert smámál. Þetta er auðvitað mál af þeirri stærðargráðu að hæstv. ráðherra verður að tala alveg skýrt þegar hann er spurður einfaldra spurninga en ekki að ráðast á fyrri ríkisstjórn út af allt öðru máli. Ég er alveg tilbúinn að ræða það við hæstv. ráðherra undir öðrum dagskrárlið en ekki þegar hann er síðastur á mælendaskránni og enginn annar hefur aðstöðu til þess að tala. Það var auðvitað aðferðin sem ráðherrann kaus, að nota sér þetta til að reyna að koma höggi í óskyldu máli á menn sem samkvæmt lögmálum umræðunnar höfðu ekki rétt til að taka til máls með eðlilegum hætti. Ég vil þess vegna brýna hæstv. ráðherra til að ræða landbúnaðarmálin ekki svona framvegis þegar EES-samningurinn kemur til umræðu. Við sem viljum málefnalegar umræður um þennan EES-samning frábiðjum okkur það að ráðherrarnir grípi til ómerkilegra bragða af því tagi sem hæstv. landbrh. gerði hér áðan nema það sé staðreyndin að hann þori ekki að segja það í áheyrn þingmanna Sjálfstfl. að ef EES-samningurinn verði staðfestur muni landbrh. Íslands, Halldór Blöndal, ekki lengur hafa þetta vald á sinni hendi heldur stofnanir Evrópubandalagsins og EES-svæðisins.