Tilhögun þinghalds

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:28:42 (6842)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Það má vel vera að ekki sé ástæða til að fara í ræðustól til að ræða mál sem þessi. Ég var ekki eingöngu að tala um þennan fyrirhugaða nefndarfund á morgun heldur þinghaldið almennt. Þótt einstakir þingmenn kvarti yfir nefndartíma og honum sé síðan breytt vegna óska þeirra þá eru níu þingmenn í nefnd og þess þarf að sjálfsögðu að gæta að sem flestir geti mætt. Ég er að kvarta undan því að það er lítið skipulag á þinghaldinu og menn vita ekki hvernig á að standa að málum. Ríkisstjórn Íslands virðist ætla að afgreiða svo mörg mál að það er algerlega útilokað og engin leið að ljúka nema örfáum málum það sem eftir er þingsins. Auðvitað þarf að skipuleggja tímann með tilliti til þess. Hvort það er nauðsynlegt að fara inn á messutíma af þeim sökum og afsakanlegt skal ég ekki fullyrða. Það á ekki að gera nema í neyðartilvikum. Það stendur í lögum að fundi skuli ekki halda á slíkum tímum. Þó hefur stundum verið brugðið út af því í algerum neyðartilvikum. Það eru ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem búa til þá neyð með skipulagsleysi á Alþingi og verða að bera ábyrgð á því.