Tilhögun þinghalds

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:39:00 (6846)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Hér er kvartað undan því af hálfu stjórnarandstöðunnar að þingstörfin gangi ekki nógu greiðlega. Við höfum upplifað það í dag hvernig ýmsir hv. þm. hafa sífellt verið að greiða fyrir þingstörfum, ef svo má segja, með tilefnislitlum þingskapaumræðum úr þessum ræðustól eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson.
    Hér hefur verið gerð athugasemd við að fram komi brtt. í mörgum liðum við frv. til laga um vernd barna og ungmenna. Þær tillögur eru frá félmn. og um þær er ekki neinn ágreiningur í nefndinni. Þegar hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir segir að það sé dæmi um vond vinnubrögð í ráðuneytunum að þetta skuli koma inn í þingið með þessum hætti þá er ég henni algerlega ósammála. Það er auðvitað eðlilegt og ekkert við það að athuga og ekkert við því að segja að þingmenn, og í þessu tilviki þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi, hafi aðra skoðun á tilteknu máli en eru í frv. þegar það kemur frá þeirri nefnd er samdi það utan þings. Þetta er hinn eðlilegi gangur. Þetta er hin eðlilega vinna og að tala um að hér séu ný, sérstök, vond eða óvenjuleg vinnubrögð á ferðinni er auðvitað fullkomlega út í hött. Þetta eru eðlileg og rétt vinnubrögð. Þegar þingflokkarnir velja fulltrúa í nefndir sem sína trúnaðarmenn hljóta þeir fulltrúar auðvitað að láta sína þingflokka fylgjast með gangi mála í nefndunum og þeim tillögum sem þar eru uppi og þeim breytingum sem þar eru. Það er einu sinni svo í þeirri vinnu sem hér er að það geta ekki allir þingmenn komið að öllum greinum allra mála. Það er ekki framkvæmanlegt. Þess vegna er verkaskiptingin eðlileg og þess vegna finnst mér óskiljanlegar þessar athugasemdir.
    Auðvitað mundu þingstörfin ganga miklu greiðar hér ef menn sneru sér að því að vinna og sinna þeim verkefnum sem eru á dagskránni í stað þess að vera með þarflitlar þingskapaumræður, tilefnislausar, tilefnislitlar a.m.k., við hvert einasta tækifæri og tefja þannig fyrir réttri og eðlilegri afgreiðslu mála. Það er nefnilega svo að það fer ekki saman krafan um langar ræður, ótakmarkaðan ræðutíma og stuttan fundartíma. Ef menn vilja tala mjög lengi og halda ítarlegar og langar ræður um hvert mál, þá fylgir því auðvitað að fundir þingsins verða mjög langir og við því er ekkert að segja. En þeir hinir sömu geta ekki borið sig undan því að fundatími sé langur ef þeir vilja tala lengi.
    Að auki vil ég bæta því við að það er talað um oft og iðulega í þessum umræðum að málfrelsið megi ekki hefta. En málfrelsi eins þingmanns í margar klukkustundir jafnvel í þessum ræðustól er málfrelsi eins en það er ófrelsi hinna sextíu og tveggja sem hér sitja.