Þróun íslensks iðnaðar

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:58:01 (6851)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði skýrslu minni til Alþingis um þróun og framtíðarhorfur íslensks iðnaðar og stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum hans. Þessi skýrsla er birt á þskj. 779. Í skýrslunni koma fram svör við spurningum sem hv. 9. þm. Reykv. og átta aðrir þingmenn Alþb. beindu til mín á þskj. 24 í 10 liðum.
    Virðulegi forseti. Um þessar mundir eru nokkur þáttaskil í þjóðmálum. Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, eitt mikilvægasta verkefni á sviði utanríkismála í sögu lýðveldisins, hefur nú verið undirritaður. Lausn hefur fengist í kjaramálum sem festir í sessi meiri stöðugleika í verðlagi en dæmi eru um í áratugi. Vextir fara lækkandi. Það eru því líkur á því að Íslendingar geti hafið nýtt framfaraskeið á grundvelli stöðugleika.
    Ég rifja það upp að Íslendingar gerðust aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, árið 1970 og árið 1972 var svo gerður fríverslunarsamningur við Efnahagsbandalag Evrópu og nú, 20 árum síðar, er EES-samningurinn milli aðildarríkja EFTA og Evrópubandalagsins undirritaður.
    Þátttaka Íslands í Evrópsku efnahagssvæði er á margan hátt eðlilegt framhald aðildar Íslands að EFTA og að fríverslunarsamningnum við Evrópubandalagið á sínum tíma. Fríverslunin innan EFTA og fríverslunarsamningurinn við Evrópubandalagið snertu einkum iðnaðarvörur en nú er komið að víðtækara fríverslunarsamstarfi sem m.a. opnar íslenskum fyrirtækjum aðgang að fjármagns- og þjónustumarkaði Evrópu. Það er því eðlilegt við þessi tímamót að líta yfir þróun iðnaðar hér á landi síðustu tvo áratugi. Það er einmitt gert í skýrslunni sem hér liggur fyrir. Hv. skýrslubeiðendur, þingmenn Alþb., báðu reyndar um athugun sem miðaðist við árið 1980 í sínum spurningum en í ljósi þess sem ég hef rakið tel ég eðlilegra að skyggnast aftur alveg til 1970 eftir því sem fyrirliggjandi gögn leyfa. Þetta er gert í fyrri hluta skýrslunnar sem hér er rædd.
    Það er einnig eðlilegt við þessi tímamót að gera grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum iðnaðarins. Það er gert í síðari hluta skýrslunnar.
    Þegar litið er yfir síðustu 20 ár skiptir mjög í tvö horn hvernig menn sjá þróun iðnaðarins. Sumir virðast ekki sjá neitt annað en hnignun hvert sem þeir líta en aðrir telja að þegar allt kemur til alls hafi iðnaðurinn staðið sig bærilega við að ýmsu leyti erfið skilyrði. Ef tölurnar um þróun iðnaðarins eru skoðaðar sýna þær glöggt að staðhæfingar um hnignun eru einfaldlega ekki réttar. Slíkar staðhæfingar styðjast fremur við afmörkuð dæmi í einstökum greinum iðnaðar eða þá þróun á tilteknu bili ára en alls ekki þegar litið er á þróun atvinnugreinarinnar í heild á þessu langa tímabili. Staðreyndin er sú að iðnaðurinn hefur að mestu leyti staðið sig vel, ekki síst þegar það er haft í huga að starfsskilyrðin hafa gert til hans miklar kröfur. Í því sambandi nægir að benda á aukna samkeppni við erlend fyrirtæki, erfitt sambýli við sjávarútveginn og löngum tiltölulega óhagstæða gengisskráningu. Þá hafa ýmis innri skilyrði löngum verið iðnaðinum erfið rétt eins og öðrum atvinnugreinum. Ég nefni þar þrálátan óstöðugleika í launa- og verðlagsmálum, í gengi og skrykkjóttan hagvöxt af ýmsum óviðráðanlegum orsökum. En þrátt fyrir þetta allt hefur iðnaðinum að ýmsu leyti farnast vel. Í samanburðinum við sjávarútveg megum við heldur ekki

gleyma því að á síðustu tveimur áratugum hafa útgerð og fiskvinnslu fallið í skaut meiri háttar búhnykkir, fyrst vegna útfærslu landhelginnar og svo vegna mikillar verðhækkunar á helstu útflutningsmörkuðum sjávarafurða á þessum tíma. Það að iðnaðinum skuli hafa tekist jafn vel að halda sínum hlut í þjóðarbúskapnum við þessar aðstæður og raun ber vitni sýnir glöggt hvers hann er megnugur.
    Þá er ástæða til að nefna að langt og bagalegt hlé hefur orðið á uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu í heilan áratug frá árinu 1978 en frekari uppbygging hans og efling margvíslegs annars nýiðnaðar getur stórlega aukið hlut iðnaðar í þjóðarbúskapnum og útflutningi landsmanna.
    En lítum nú á helstu kennitölur iðnaðarins yfir þetta athugunartímabil. Í skýrslunni er einmitt gerð grein fyrir þróun helstu hagstærða iðnaðarins, bæði í meginmáli skýrslunnar og töfluviðauka. Ég ætla ekki að rekja þessa þróun í smáatriðum en mun þess í stað stikla á stóru.
    Í fyrsta lagi mun ég nokkuð fjalla um þróun framleiðslunnar. Vöxtur iðnframleiðslu og landsframleiðslu hélst nokkurn veginn í hendur fram á níunda áratuginn frá upphafi þess áttunda. Síðan hefur iðnaðarframleiðslan vaxið hægar að meðaltali en landsframleiðslan. Bráðabirgðatölur benda hins vegar nú til þess að þessi þróun hafi snúist við. Eftir samdrátt árin 1988 og 1989 hefur iðnaðarframleiðslan vaxið á ný á árinu 1990 milli 0,5--1% og svo um 2--3% á árinu 1991. Þessar meðaltölur fyrir allar greinar iðnaðar leyna að sjálfsögðu misjöfnu gengi einstakra greina. Það hefur orðið verulegur samdráttur í vefjariðnaði og fataiðnaði. Hér kemur til alþjóðleg viðskiptaþróun og samkeppni við láglaunasvæði Suðaustur-Asíu. Sjá má þessa þróun í öllum nálægum löndum og reyndar fyrr á þessu tímabili og í meira mæli en hér á landi. Stöðnun og samdráttur hefur verið í húsgagna- og innréttingasmíð þar til allra síðustu ár að um nokkra aukningu framleiðslunnar er aftur að ræða.
    Miklar sveiflur hafa orðið í málmiðnaðinum, einkum skipaiðnaðinum. En eins og ég sagði áðan þá hefur iðnaðurinn síðustu tvö árin verið að rétta úr kútnum á ný. Ég nefni þar ýmsar greinar matvælaiðnaðar eins og drykkjarvöruiðnað, sælgætisgerð, brauð- og kökugerð og pappírsiðnað. Framleiðsla orkufreks iðnaðar jókst einnig verulega fram til ársins 1990, en afturkippur verður árin 1991 og 1992 vegna djúprar lægðar á erlendum markaði fyrir afurðir þessara greina. Það er athyglisvert að hlutur iðnaðarins í landsframleiðslunni hefur verið nokkuð stöðugur á þessu langa tímabili, á bilinu 12--13%. Hann fór hæst í um það bil 14% á árunum 1984 og 1988. Ef við lítum á mikilvægi einstakra greina iðnaðarins kemur þar fram að vefjariðnaður, fata- og skógerð, trjávöruiðnaður og málmiðnaður hafa látið undan síga en matvælaiðnaður, pappírsiðnaður og orkufrekur iðnaður haldið sínum hlut eða aukið hann. Ég bendi sérstaklega á að matvælaiðnaðurinn er nú um fjórðungur af iðnaði í landinu. Ef við teljum fiskvinnsluna með iðnaði eins og gert er í öðrum löndum mundi þetta hlutfall hækka upp undir helming, þ.e. að um 47% af iðnaðarstarfsemi þannig skilgreindri er matvælaiðja.
    Ég kem þá í öðru lagi að þróun vinnuafls í iðnaði. Árið 1970 var hlutur iðnaðar í heildarmannafla rúmlega 15%. 20 árum síðar er hlutfallið komið niður í um það bil 12%. Áætlanir benda hins vegar til örlítillar hækkunar á ný á árinu 1991. Fjölgun ársverka í beinum tölum á þessu tímabili hefur verið mest í matvælaiðnaði, pappírsiðnaði, efnaiðnaði og orkufrekum iðnaði. Hlutfallslega fækkun starfa í iðnaði má fyrst og fremst rekja til mikils vaxtar í ýmsum greinum þjónustu, svo sem opinberri þjónustu, fjármálastarfsemi og ferðaþjónustu. Þessi þróun er ekki sérstök fyrir Ísland. Reyndar má segja að hún sé dæmigerð fyrir hin tekjuháu iðnríki, þar sem efnahagsstarfsemin færist stöðugt í tímans rás frá hefðbundinni iðnaðarframleiðslu yfir í þjónustugreinar.
    Athyglisvert er að athuganir á fjölgun ársverka í iðnaði á síðustu tveimur áratugum sýna að þeim hefur fjölgað hlutfallslega meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Sama niðurstaða hefur líka fengist á athugun á fjölgun iðnfyrirtækja að fyrirtækjum í fiskiðnaði meðtöldum.
    Ég kem þá í þriðja lagi að framleiðni vinnuaflsins í iðnaði. Þróun framleiðni í einstökum greinum iðnaðar hefur verið nokkuð misjöfn. Langmesta framleiðniaukningin á þessu 20 ára timabili var í trjávöruiðnaðinum. Einnig varð umtalsverð framleiðniaukning í efnaiðnaði og í orkufrekum iðnaði. Í steinefnaiðnaðinum minnkaði framleiðni vinnuafls. Rétt er að benda á að þróunin milli ára er nokkuð skrykkjótt í flestum greinum og er oft erfitt að túlka slíkar tölur í fámennum atvinnugreinum.
    Ég kem þá í fjórða lagi stuttlega að þróun launakostnaðar. Launakostnaðurinn í iðnaði, sem hlutfall af rekstrartekjum, var nálægt því að vera fjórðungur árið 1989 sem er eins og maður gæti sagt sjónarmun lægri en hann var við upphaf níunda áratugarins en það er það árabil sem við höfum tölur yfir. Þetta er reyndar svipað hlutfall og að meðaltali í öllum atvinnugreinum. Launahlutfallið er afar mismunandi eftir einstökum greinum iðnaðar. Það hefur að sjálfsögðu ávallt verið lægst í fjárfrekustu greinunum, orkufrekum iðnaði en einna hæst í trjávöruiðnaði, pappírsiðnaði og málmiðnaði.
    Ég kem þá í fimmta lagi, virðulegi forseti, að samkeppnisstöðu iðnaðarins. Hann býr við samkeppni á a.m.k. þrennum vígstöðvum. Annars vegar er samkeppni við innfluttar vörur á vörumarkaði og hins vegar samkeppni við aðrar innlendar atvinnugreinar á fjármagnsmarkaði og vinnumarkaði. Segja má að raungengi krónunnar, eins og það er venjulega reiknað, gefi vísbendingu um samkeppnisstöðu iðnaðar gagnvart erlendum keppinautum. Hátt raungengi á mælikvarða verðlags þýðir að innfluttar vörur eru hlutfallslega ódýrar miðað við innlenda framleiðslu og samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja erfið að öllu öðru jöfnu. Hátt raungengi á mælikvarða launa gefur til kynna að launakostnaður hér á landi sé hlutfallslega hár í samanburði við helstu samkeppnislöndin sem kemur að sjálfsögðu fram í lakari samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja. Raungengi og þar af leiðandi samkeppnisstaða iðnaðarins hefur verið afar breytileg frá ári til árs á athugunartímabilinu. Þeir hyggilegu kjarasamningar sem nú hafa náðst munu stuðla að lækkun raungengis án nafngengisbreytinga þar sem horfur eru á að launa- og verðhækkun verði minni á Íslandi en í helstu samkeppnislöndum okkar. Við þetta batnar að sjálfsögðu samkeppnisstaða íslensks iðnaðar. Og á mælikvarða verðlags er nú gert ráð fyrir að raungengi krónunnar verði ámóta og það var að meðaltali á síðasta áratug en nokkru lægra en það hefur verið til jafnaðar á mælikvarða launa á þessu ári og reyndar á þeim tíma sem kjarasamningarnir munu gilda.
    Ég kem þá, virðulegi forseti, í sjötta lagi að markaðshlutdeild íslensks iðnaðar. Upplýsingar sem fáanlegar eru um markaðshlutdeild innlendrar iðnaðarvöru sýna að hlutdeildin hefur yfirleitt lækkað á þessu tímabili og í sumum tilfellum verulega, enda liggur það í hlutarins eðli eftir að innflutningstakmarkanir hafa verið fjarlægðar og fríverslun komið á. Þróunin er að sjálfsögðu mjög breytileg eftir vöruflokkum. Þannig hefur markaðshlutdeild í framleiðslu á kaffi, svo ég nefni sem dæmi, og húsgagnaframleiðslu lækkað um helming. Markaðshlutdeild í málningarframleiðslu hefur hins vegar breyst óverulega og markaðshlutdeild sælgætis nánast staðið í stað. Af þessu má ráða að þarna er breytileg samkeppnisstaða fyrir einstakar greinar. Að sjálfsögðu er rétt að undirstrika að upplýsingarnar um markaðshlutdeild sem fáanlegar eru ná eingöngu til þeirrar vöruiðnaðarframleiðslu sem taldar eru sérlega viðkvæmar fyrir erlendri samkeppni en ekki það sem nýtur fjarlægðrar verndar á þessum heimamarkaði. Þróun markaðshlutdeildar fyrir þessar sérstaklega viðkvæmu vörur fyrir samkeppni gefur alls ekki fullnægjandi mynd af þróun markaðshlutdeildar allrar innlendrar iðnaðarframleiðslu. Hins vegar benda þær almennu tölur sem ég hef þegar rakið til þess að þar hafi iðnaðurinn vel haldið sínum hlut.
    Ég kem þá í sjöunda lagi að útflutningi. Í megindráttum má segja að útflutningur iðnaðarvöru skiptist í tvennt. Annars vegar afurðir orkufreks iðnaðar, áls og kísiljárns, sem eru um 2 / 3 hlutar af heildarútflutningi iðnaðarvöru. Útflutningur annarrar iðnaðarvöru er um þriðjungur af heildarútflutningi iðnaðarvarnings. Útflutningur iðnaðarvöru hefur að meðaltali verið um fimmtungur af heildarvöruútflutningi á þessu árabili, en hlutfallið hefur eins og vel er kunnugt verið mjög breytilegt frá einu ári til annars. Það varð samdráttur í útflutningi iðnaðarvöru árið 1991 en sá samdráttur skýrist að mestu eða öllu leyti af minni útflutningi áls og kísiljárns en þær greinar búa nú við býsna erfiða hagsveiflustöðu.
    Ég kem í áttunda lagi að afkomu iðnaðarfyrirtækja og fjármagnskostnaði þeirra.

Upplýsingar um afkomu fyrirtækjanna í einstökum atvinnugreinum eru fengnar með athugun á stóru úrtaki úr ársreikningum fyrirtækja á vegum Þjóðhagsstofnunar. Það eru nokkrar sveiflur í afkomu milli ára. Þó hefur það lengi verið einkenni þessara talna að hagur iðnaðar hefur verið býsna stöðugur, sérstaklega ef hann er borinn saman við útflutningsframleiðslugreinar í sjávarútvegi. Þessar sveiflur, sem maður þó getur séð, má m.a. rekja til breytinga á vöxtum og verðbreytingafærslum í ársreikningum fyrirtækjanna. Það er vafalaust rétt skoðun að þegar á heildina er litið hafi afkoma iðnaðarfyrirtækja ekki verið nægilega góð þetta tímabil. Ég vildi þó benda á, virðulegi forseti, að bráðabirgðatölur þær sem fáanlegar eru fyrir þau ár sem eru næst okkur sýna að afkoman batnaði verulega milli áranna 1989 og 1990. En það er nokkuð erfitt verk að meta fjármagnskostnað fyrirtækja í iðnaði, fyrst og fremst vegna þess að verðbreytingafærsla vegna birgða er meðtalin í vaxta- og verðbreytingafærslu í bókhaldi fyrirtækjanna. Fjármagnskostnaður fyrirtækja í ársreikningum þeirra fyrirtækja sem Þjóðhagsstofnun byggir reikninga sína á er því ofmetinn sem svarar verðbreytingafærslunni á birgðunum. Þá er líka rétt að misvægi milli innlendra verðbreytinga og gengisþróunar krónunnar hefur einatt leitt til þess að fjármagnskostnaður fyrirtækja hefur sveiflast mikið milli ára án þess að um raunverulegar breytingar hafi verið að ræða. Ef leiðrétt er fyrir öllum þessum atriðum sem ég hef nefnt og tekið meðaltal yfir nokkurt árabil sem er það eina sem vit er í er það mat Þjóðhagsstofnunar að fjármagnskostnaður iðnfyrirtækja hafi numið um 3% af heildarveltu þeirra þegar miðað er við ársreikninga árabilsins 1987--1990.
    Ef á það er litið að vextirnir, hvort sem litið er á nafnvexti eða raunvexti, hafa nú farið lækkandi það sem af er þessu ári er ljóst að þetta hlutfall mun lækka á árinu 1992. Það er auðvitað deginum ljósara að iðnfyrirtækin eins og önnur fyrirtæki í landinu þurfa á umtalsverðu fé að halda bæði til fjárfestinga og rekstrar. Svo er það líka rétt að erfið afkoma á þessu langa árabili hefur stundum leitt til skuldsetningar. Það er því ákaflega brýnt og reyndar brýnast af öllu að okkur takist að festa þann stöðugleika í verðlagi í sessi að það dragi úr þenslu á fjármagnsmarkaði þannig að bæði nafnvextir og raunvextir geti haldið áfram að lækka og þannig mun líka draga úr fjármagnskostnaði fyrirtækjanna.
    Ég kem svo í níunda lagi að kjörum iðnverkafólks. Því miður er það svo að nákvæmar upplýsingar um kjör iðnverkafólks sem skýrt afmarkaðs hóps starfsfólks liggja ekki fyrir, enda e.t.v. ekki auðvelt að afmarka hann þar sem stéttarfélagsaðild þess fólks sem við iðnað starfar er nokkuð dreifð. Kjararannsóknarnefnd aflar hins vegar upplýsinga um kjör fólks í verksmiðjuvinnu eins og þeir nefna það. Þeir telja að hún gefi þokkalega vísbendingu um kjör iðnverkafólks. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þróun þessara vísitalna yfir athugunartímabilið og þar kemur í ljós að kaupmáttur greidds tímakaups hjá þessum hópi starfsfólks jókst lítillega á níunda áratugnum þegar borið er saman við lækkun á kaupmætti hjá landverkafólki innan Alþýðusambandsins. Mér þótti einnig mjög athyglisvert í þessu talnaefni að kaupmáttur tímakaups kvenna í verksmiðjuvinnu hefur aukist á þessu árabili um 7% meðan hann hefur nánast staðið í stað hjá körlum þannig að í iðnaðinum virðist hlutur kvenna í launamálum nokkuð hafa verið réttur.
    Að lokinni þessari örstuttu yfirferð yfir helstu kennitölur iðnaðarins sem um leið fela í sér svör við 9 af 10 spurningum hv. skýrslubeiðenda kem ég svo að því sem þeir inna eftir í einni af spurningargreinunum sem er stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum iðnaðarins.
    Í skýrslu minni sem hér liggur fyrir er gerð ítarleg grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum iðnaðarins. Aðalatriði hennar eru að skapa iðnaðinum jafnt sem öðrum atvinnugreinum góð almenn skilyrði þannig að þær geti eflst fyrir dugnað og áræðni þeirra karla og kvenna sem þar hasla sér völl. Reynslan hefur sýnt að sértækar aðgerðir skila þar sjaldan árangri og alls ekki þeim sem vonast er til. Ég nefni í þessu sambandi sérstaklega stöðugleika í verðlagi og gengi. Ég nefni umbætur á fjármagnsmarkaði til að örva samkeppni, eflingu hlutabréfamarkaðar, endurskoðun á leikreglunum á vinnumarkaðinum, nýjar samkeppnisreglur og ný skattalög. Að síðustu nefni ég svo það sem kannski er mest um vert en það er aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði.

    Þátttaka Íslands í Evrópsku efnahagssvæði mun hafa í för með sér miklar breytingar í atvinnulífi okkar og kallar á verulegt átak af hálfu hins opinbera til þess að lagfæra starfsskilyrði innlendra útflutnings- og samkeppnisgreina þannig að þeim verði búin sambærileg skilyrði og erlendir keppinautar njóta og þá raunar helst betri. Íslenskt atvinnulíf mun ekki standa undir viðunandi lífskjörum nema það fái þrifist í alþjóðlegri samkeppni sem nú fer harðnandi. Með EES-samningunum er íslenskum fyrirtækjum stórlega auðvelduð umsvif á stærsta og auðugasta markaði á jarðarkringlunni. Sérhæfð íslensk framleiðsla og þjónusta mun í auknum mæli finna sér markað erlendis, íslenskur fiskiðnaður fær tækifæri til að þróast í átt til aukinnar verðmætasköpunar og útflutnings á fullbúnum fiskmáltíðum eða fullunnum matvælum. Erlend fyrirtæki munu auka starfsemi sína hér á landi en íslensk fyrirtæki munu einnig auka starf sitt á erlendri grund. Reynsla síðustu ára sýnir einmitt mörg ný fyrirtæki sem hafa skarað fram úr og hefur vegnað vel. Þau byggjast einmitt á samstarfi við erlenda aðila um sölu afurðanna, um tækni eða stjórnun eða jafnvel öll þessi atriði. Ég nefni nokkur dæmi um árangursríkt samstarf af þessu tagi t.d. fyrirtækið Alpan á Eyrarbakka og Sjóefnavinnsluna á Reykjanesi. Ég gæti nefnt fleiri dæmi, Össur hf. í tryggingarþjónustustarfsemi er líka gott dæmi um þetta samstarf. En það er einmitt það sem mun gerast að samvinna erlendra og íslenskra fyrirtækja mun aukast á sviði viðskipta, vöruþróunar og rannsókna. Sama á við um samvinnu rannsókna- og menntastofnana og það er mjög mikilvægt að greitt verði fyrir stofnun nýrra fyrirtækja og framleiðslugreina af opinberri hálfu. Í iðnrn. er einmitt unnið að því og mikilvægt að menn geri sér það ljóst að framfarir í lífskjörum verða í fyrirtækjum með vexti þeirra og viðgangi og stofnun nýrra fyrirtækja.
    Margföld reynsla er fyrir því hér á landi og annars staðar að í atvinnu- og viðskiptalífi er markaðsbúskapur og milliríkjaviðskipti besta lausnin á grundvelli skýrra og sanngjarnra leikreglna sem ríkið setur. Það er þannig sem áræði og frumkvæði einstaklinganna fær best notið sín og þannig eru atvinnutækifærin sköpuð.
    Ég kem að lokum, virðulegi forseti, að því sem mestu varðar um framtíð iðnaðar í landinu. Ég held að óhætt sé að segja að margt bendi nú til þess að næsta hagvaxtarskeið í heiminum, og við eigum mikið undir því komið að það hefjist, muni ekki síst byggjast á því að finna nýjar aðferðir til að gera framleiðslustarfsemi iðnaðarins óskaðlega umhverfinu og að byggja upp stórvirka tækni til hreinsunar þess. Á því sviði eiga Íslendingar að geta haslað sér völl með kunnáttu sinni í notkun hreinna orkugjafa og líftækni. Fjárfesting í nauðsynlegum búnaði og tækni vegna þess arna mun reynast arðvænleg, bæði vegna þess að á þennan hátt má spara efni og hráefni og annan tilkostnað og að neytendur á Vesturlöndum munu í auknum mæli gera kröfur um að vörurnar sem þeir neyta séu ekki skaðlegar umhverfinu. Það er athyglisvert að helstu iðnríki veraldar og stærstu iðnfyrirtækin innan þeirra landasmæra, í Japan og Þýskalandi, búa sig einmitt undir þetta í áætlunum sínum. Ég tel að þessi þróun muni færa Íslendingum ný tækifæri, vörur og þjónusta úr hreinu íslensku umhverfi eigi að standa vel að vígi á heimsmarkaði á komandi árum. Þannig verða iðnaður og umhverfisvernd bandamenn en ekki fjendur í framtíðinni.
    Virðulegi forseti. Aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði, áframhaldandi stöðugleiki í efnahagsmálum, áhersla á umhverfisvernd, allt færir þetta okkur ný tækifæri til framfarasóknar. Við eigum ríkulegar auðlindir í jarðvarma og fallvötnum og í fiskstofnunum umhverfis landið en auðvitað er mesti auðurinn fólginn í fólkinu sjálfu. Þar hafa iðnaðurinn og einstakar greinar hans miklu hlutverki að gegna til að skapa fjölbreytt atvinnulíf fyrir komandi kynslóðir.
    Virðulegi forseti. Þetta er greinargerð mín fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í iðnaðarmálum.