Málefni fatlaðra

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 13:05:29 (6856)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. um málefni fatlaðra kom til félmn. 25. febr. Það var sent til umsagnar 72 aðila. 69 aðilar sendu umsagnir en frestur var til 23. mars. Reyndar tók einn aðili það upp hjá sér sjálfum að senda umsögn og barst hún í byrjun maí og skilst mér einmitt að það hafi komið fram hér á laugardag, sem dæmi um hve umsagnir hafi verið að berast seint. Góð umfjöllun hefur verið um frv. í nefndinni og farið yfir umsagnir. Nefndin öll, utan einn nefndarmaður, stendur að nál. og brtt. nefndarinnar eru reyndar í 24 liðum og nokkrir þeirra með undirliðum. Aðrar tillögur eru frá öðrum.
    Ég vil geta þess að gefnu tilefni og með tilliti til þess sem hefur verið nefnt að fjöldi brtt. sé einhver mælikvarði á gæði umfjöllunar eða frv. að við erum hér með á dagskrá frv. um vernd barna og ungmenna og það hefur verið kallað eftir því frv. Ég er mjög ánægð með það hve mikil samstaða er um það frv. og var samstaða í menntmn. á því þingi sem það var tekið fyrir. Brtt. við það mál eru einnig í u.þ.b. 24 liðum ef ég man rétt og einhverjum undirliðum. Einungis eru fimm nýir liðir við málið frá nefndinni. En ég nefni þetta sem dæmi um að góð mál eru ekki endilega verri fyrir það að við þau séu fluttar brtt. og legg áherslu á að frá nefndanna hálfu er u.þ.b. jafnmikið af brtt. við bæði málin.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram og ég tek það líka fram úr þessum ræðustóli að til að greiða fyrir þessu máli mun ég að sjálfsögðu kalla saman félmn. milli 2. og 3. umr.