Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 15:44:32 (6900)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þetta frv. er á málefnasviði hæstv. fjmrh. Ég vil því spyrja hvort hann er ekki í húsinu. ( Forseti: Forseti lætur kanna hvort hæstv. fjmrh. getur verið viðstaddur.) Ég geri ráð fyrir að hæstv. fjmrh. muni vera rétt ókominn. Ég mun þá hefja hér mál mitt í trausti þess að svo sé.
    Ég vil byrja á að lýsa því yfir að mér sýnist frv., eins og mörgum sem hér hafa talað á undan mér, vera heldur illa unnið og tekið óbreytt til flutnings frá fyrri ríkisstjórn þó svo það hafi berlega komið í ljós þegar það var flutt fyrir þremur árum að það væri erfitt í framkvæmd og nánast tæknilega óframkvæmanlegt. Þar að auki er hér að nokkru leyti um bandorm að ræða, ef við getum orðað það svo, vegna þess að hér kemur frv., og þá á ég sérstaklega við 4. gr., inn á mörg önnur lög sem með þessu frv., ef það verður að lögum, munu falla úr gildi.
    Frv. mun flutt í framhaldi af því að verið er að fullnusta fjárlög ársins þar sem þau munu ekki ná tilgangi sínum nema þetta frv. nái fram að ganga. --- Nú sé ég að hæstv. fjmrh. er genginn í salinn. Ég ætla aðeins að rifja það upp að ég nefndi að hér væri um gamalt frv. að ræða sem hefði þurft að vinna betur og hér væri einnig um bandorm að ræða sem flokkast gæti þannig vegna 4. gr. frv. sem kemur inn á mörg önnur lög. Þeir lagaspekingar sem um vinnu Alþingis hafa fjallað hafa lýst því yfir að slík frv. séu hálfgert lagasukk, eins og hæstv. lögmaður Sigurður Líndal hefur orðað það.
    Ég vil taka undir nál. minni hluta efh.- og viðskn. sem leggur til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar og bendir sérstaklega á í því sambandi sjóði atvinnuveganna, Fiskveiðasjóð, Stofnlánadeild landbúnaðarins og Iðnlánasjóð, þar sem verið er að þrengja að hag atvinnuveganna og ekki ástæða til að framkvæma slíkar aðgerðir við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu.
    Byrjum á að skoða sjávarútveginn. Inn á hann hlýtur að koma það ákvæði að skattleggja með þessu frv. Fiskveiðasjóð. Þá er nýbúið að leggja fram í þinginu frv. sem tekur á vanda sjávarútvegsins sem er til kominn ekki hvað síst vegna vaxtaokurs eða mjög hárra vaxta í þjóðfélaginu. En þetta frv., ef að lögum verður, mun einnig verða til þess að hækka vexti þeirra sjóða sem sjávarútvegurinn þarf að leita til. Það er því ekki hægt að segja annað en að hér stangist hvað á annað, þegar verið er að gera aðgerðir til þess að bjarga sjávarútvegsfyrirtækjunum frá stöðvun og erfiðleikum er á sama tíma verið að skattleggja sjóði sjávarútvegsins. Það virðist vera að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gjörir og mætti gjarnan vera meiri samfella í störfum ríkisstjórnarinnar.
    Fiskveiðasjóður hefur sent hv. efh.- og viðskn. athugasemdir sínar og fór hv. þm. Halldór Ásgrímsson yfir þau atriði í ræðu sinni. Ekki man ég hvort það var í byrjun hennar eða miðju, enda nokkuð oft sem hann virtist vera í miðri ræðu, þannig að endirinn og upphafið hefur e.t.v. verið annaðhvort stytt eða lengt, en allt um það, hv. þm. fór mjög vel yfir það hvernig staða sjávarútvegsins mundi versna ef þetta frv. verður að lögum nú og vitnaði þar til álits Fiskveiðasjóðs Íslands. Það fer ekki milli mála að verði af þessari lagasetningu mun Fiskveiðasjóður hækka sína vexti. Reyndar kom það fram í andsvari hæstv. fjmrh. að honum fannst það ekki óeðlilegt að vaxtastigið yrði svipað og hjá bönkum, ef ég hef skilið hann rétt. Hann orðaði það svo að ekki væri óeðlilegt að vaxtastig gæti orðið svipað og hjá bönkunum. Það finnst mér vera nokkuð mikið þar sem hlutverk Fiskveiðasjóðs er sérstaklega að styðja við atvinnugrein eins og sjávarútveginn. Þarna finnst mér ekki vera samræmi í hlutunum ef þeir sjóðir sem settir hafa verið á stofn til aðstoðar atvinnuvegunum og eiga að hafa sérstök ákvæði þess vegna eigi að fara að starfa eins og venjulegar bankastofnanir. Það hefur komið fram að hækkun Fiskveiðasjóðs þyrfti að vera u.þ.b. 2% og mundi áreiðanlega muna um það hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum ef þau þurfa að taka það á sig.
    Það eru fleiri sjóðir sem snerta atvinnufyrirtækin eins og t.d. Stofnlánasjóður. Í upphaflega frv. var Framleiðnisjóður landbúnaðarins einnig inni en hann hefur verið tekinn út samkvæmt brtt. meiri hlutans. Í því sambandi vildi ég benda á að í 3. tölul. 4. gr. eins og hún er í frv. til laga um breytingu á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, sem við erum hér að ræða, er ákvæði um að við gildistöku þessara laga muni falla úr gildi eftirtalin lagaákvæði og þar með er nefnt að 2. mgr. 5. gr. laga nr. 89/1966, um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, eigi að falla úr gildi en í brtt. meiri hlutans er þó búið að falla frá því að leggja þessa skattskyldu á Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Þarna er því e.t.v. tæknilegt atriði sem ekki hefur verið séð við þegar brtt. voru fram lagðar.
    Ég fagna því að það hefur þó tekist að fá það í gegn að Framleiðnisjóður sé undanskilinn þessari skattlagningu, þ.e. að til skattskyldra tekna teljast ekki tekjur og eignir nokkurra sjóða þar á meðal Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Lánasjóðs sveitarfélaga og Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda. Eftir sem áður mun það koma niður á landbúnaðinum að enn er ætlunin að skattleggja Stofnlánasjóð. Þó kom það fram í svari hæstv. landbrh. áðan að ekki mundi eiga að taka þar inn í lögbundin framlög sem opinberir fjárfestingarlánasjóðir fá frá ríkissjóði eða sveitarfélögum og lögbundnar tekjur þeirra. Ég verð þá að taka undir með hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni. Hvað er það þá sem á að skattleggja hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins ef ekki þær tekjur sem Stofnlánadeildin fær heldur vaxtatekjurnar eingöngu? Útlit er fyrir að þá sé ekki um neinn rekstrarlegan hagnað sjóðsins að ræða. Því er nærtækt að spyrja: Hvað er það þá sem á að fara að skattleggja hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins? Ef raunin er virkilega sú á að ekki á að skattleggja Stofnlánadeildina þá er nærtækt að minna á þær umræður sem fram fóru í þinginu fyrir nokkrum dögum um þann vanda sem steðjar nú að landbúnaðinum og sá hv. stjórnarþingmaður Egill Jónsson ástæðu til að hefja þær umræður. Kemur þá enn og aftur að því sem ég sagði áðan að hægri höndin virðist ekki vita hvað sú vinstri gjörir því að hv. þm. Egill Jónsson hefur miklar áhyggjur af því hvernig framvinda verði í landbúnaðinum á þessu ári og ekki á bætandi að leggja á sjóði landbúnaðarins nýja skatta og skyldur.

    Einnig má vitna til þjóðhagshorfa á þessu ári þar sem rætt er um horfurnar fyrir árið 1992. Þar segir á bls. 33 um hag atvinnuveganna. ( Forseti: Forseti mælist til við hv. ræðumann að hann geri hlé á ræðu sinni í 45 mín. þar sem fundi verður frestað vegna þingflokksfunda.) Já, mér er ljúft að verða við því. Ég átti eftir að ræða aðeins meira um málefni landbúnaðarins og einnig um málefni iðnaðarins, þannig að ég tek það til greina og fresta ræðu minni. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Ég var þar komin í ræðu minni í sambandi við þá skattlagningu sem fyrirhuguð er á sjóði atvinnuveganna að ræða um hvernig útlitið og horfurnar væru fyrir árið 1992 samkvæmt áliti Þjóðhagsstofnunar en þar segir að þegar litið sé til þeirra þátta sem mest hafi áhrif á afkomu sjávarútvegs þá séu líkur á að afkoman muni versna á árinu 1992. Það er mat stofnunarinnar að líklegt sé að verð á botnfiskafurðum muni lækka nokkuð og kemur það líka heim og saman við nýjustu fréttir um að botnfiskafli fyrstu átta mánuði þessa fiskveiðiárs sé umtalsvert minni en á sama tíma í fyrra. Það fer því ekkert á milli mála að útlit er fyrir að hagur sjávarútvegsins verði lakari á þessu ári. Er það árétting á það sem ég ræddi áðan í sambandi við málefni Fiskveiðasjóðs.
    Þetta gildir fyrir aðrar atvinnugreinar. Ég var að byrja að ræða um landbúnaðarmálin vegna skattlagningar sem fyrirhuguð er á Stofnlánasjóð landbúnaðarins. Nýjustu fréttir eru einnig um að mikill niðurskurður verði í landbúnaði og erfiðleikar í haust og ekki á bætandi með skattlagningu þeirra sjóða sem eiga að styrkja atvinnugreinar landbúnaðarins.
    Í þriðja lagi er tekin dæmi um sjóði sem skattskyldir verða þ.e. Orkusjóður, Hafnabótasjóður og Ferðamálasjóður. Ferðamálasjóður hefur verið skertur árlega frá því að hann fékk sína fyrstu lögbundnu tekjustofna og nú á að bæta um betur með því að skattleggja hann einnig með þessu frv. Ég verð að segja að ég undrast þau áform hæstv. ríkisstjórnar að halda sífellt áfram að skattleggja fleiri og fleiri í þessu þjóðfélagi, ekki síst þegar skattlagningin kemur niður á atvinnuvegum sem eiga í vök að verjast. Ég vil þó taka fram að út af fyrir sig er ég sammála þeirri stefnu að fjármagnstekjur sem slíkar séu skattlagðar en ég tel að það þurfi að skoða öll þessi mál í samhengi og ekki æskilegt að taka eitt og eitt atriði út úr í því sambandi eða einhverja sjóði og allra síst þá sjóði sem ég hef verið að ræða um.
    Í nál. minni hlutans er sérstaklega getið um það í áliti frá þeim sjóðum sem eiga hlut að máli að þarna sé verið að mismuna ákveðnum innlánssjóðum og innlánsstofnunum þar sem lánastofnanir, sem eru í formi hlutafélaga, greiða ekki eignarskatt af sínu hlutafé en það gera aftur á móti ríkisbankar og opinberir sjóðir. Það er því ekki hægt að komast hjá þeirri niðurstöðu að betra væri að skoða þetta allt í samhengi og setja almenn lög um fjármagnstekjur viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Það eru engin rök sem mæla með því að þarna sé verið að jafna samkeppnisstöðu lánastofnana heldur þvert á móti er verið að mismuna ákveðnum sjóðum á kostnað annarra. Það er ekki vafi á því að ef af samþykkt frv. verður þá leggur það verulegar byrðar ekki síst á sjávarútveginn því að skattar sem verða lagðir á Fiskveiðasjóð munu óhjákvæmilega leiða til hærri vaxta eins og ég hef áður rakið. Í brtt. meiri hlutans hefur þó verið lagt til að greiðsla stimpilgjalds verði tekin út hjá Fiskveiðasjóði og er það þó heldur til bóta. En æskilegt væri að skoða þetta frv. betur í heild sinni og þá um leið hvaða áhrif það hefur bæði á atvinnuvegina og atvinnustigið í landinu. Það hefur komið fram í umræðum hér á Alþingi að atvinnuleysi fer sívaxandi. Það mun aukast á þessu ári meira heldur en spáð var við afgreiðslu fjárlaga og stefnir það í að verða 3% á þessu ári. Það mun kalla á hærri framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs og þetta frv. er ekki til þess fallið að draga úr atvinnuleysi eða gera atvinnuvegunum bærilegra að halda uppi atvinnu heldur þvert á móti.
    Ég vil svo að lokum taka undir það, eins og ég gerði í upphafi, að þessu máli verði í heild sinni vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar og ég legg áherslu á að staða atvinnuveganna er með þeim hætti að ekki er réttlætanlegt að þrengja kjör þeirra enn meira sem hlýtur að verða í framhaldi af samþykkt þessa frv. ef af verður þar sem til skattlagningar þeirra sjóða sem styðja sérstaklega atvinnuvegina kemur, eins og ég hef áður

nefnt, svo sem Fiskveiðasjóðs, Stofnlánadeildarinnar, Iðnlánasjóðs og Ferðamálasjóðs. Ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn taki þetta mál til gagngerðrar endurskoðunar og geri það á milli 2. og 3. umr.