Höfundalög

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 17:49:30 (6907)

     Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég næli fyrir nál. hv. menntmn. um frv. til laga um breytingu á höfundalögum á þskj. 969 og brtt. á þskj. 971.
    Nefndarmenn standa allir að þessu áliti en Ólafur Þ. Þórðarson var fjarverandi afgreiðslu málsins. Með leyfi forseta geri ég grein fyrir nefndarálitinu.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk um það margar umsagnir. Þá fékk nefndin á sinn fund til viðræðna um frv. Þórunni Hafstein, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu.
    Við umfjöllun um 10. gr. frv. fékk nefndin einnig á sinn fund Knút Bruun, Svölu Lárusdóttur og Úlfar Þormóðsson. Samkvæmt 10. gr. er lagt til að svokallaður fylgiréttur verði lögfestur, en inntak þess réttar er að við endursölu myndverka í atvinnuskyni renni tiltekinn hundraðshluti endursöluverðs til rétthafa. Slík ákvæði eru þegar í gildi í þágu höfunda í lögum um listmunauppboð o.fl., nr. 36/1987, þannig að frumvarpið felur aðeins í sér nýmæli við endursölu utan slíkra uppboða, þ.e. í svokölluðum galleríum. Sá munur er hins vegar á sölu listaverka á listmunauppboðum og í galleríum að virðisaukaskattur leggst ekki á listaverk sem eru til endursölu á listmunauppboðum en slíkur skattur leggst á sölu í galleríum. Undanþága listaverka, sem seld eru á listmunauppboðum, frá virðisaukaskatti var heimiluð með lögum 119/1989, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, og í því sambandi vísað til laga 36/1987 en skv. 3. gr. þeirra laga skal ekki leggja sölugjald á málverk, myndir og listmuni heldur 10% gjald er renni til rétthafa listaverka. Samkvæmt upphaflegum virðisaukaskattlögum, nr. 50/1988, var sala á listmunauppboðum hins vegar ekki undanþegin virðisaukaskatti.
    Nefndin vill vekja athygli á að sá mismunur, sem er á aðstöðu listmunauppboða og gallería, getur ekki talist eðlilegur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Um er að ræða orðalagsbreytingu í fyrri efnismálsgrein 8. gr. til að taka af öll tvímæli um efni greinarinnar.``
    Breytingar þær sem lagðar eru til í frv. að gerðar verði á gildandi lögum snerta flestar listgreinar, ritlist, tónlist, myndlist og rétt listflytjenda. Einnig eru í frv. ákvæði til verndar höfundum tölvuforrita og að lögfest verði ákvæði varðandi sönnunarbyrði þegar um stórfellt brot á höfundarrétti er að ræða. Löggilding gagnkvæmra alþjóðlegra höfundarréttarmála er auðvelduð en seinagangur í því efni hefur sætt gagnrýni íslenskra rétthafa og alþjóðlegra stofnana. Hér er á ferðinni brýnt og þarft mál sem hefur fengið vandaðan undirbúning og er liður í þeirri heildarendurskoðun á höfundalögum sem unnið er að.