Höfundalög

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 17:53:20 (6908)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. frsm. menntmn. að þetta frv., sem hún mælti fyrir nál. fyrir, er gott mál og vel unnið að mati okkar í menntmn. og skynsamlegt að afgreiða það frá þinginu sem lög. Ég talaði um þetta mál við 1. umr. og tók þá undir að við þyrftum að reyna að koma því í höfn fyrir þinglok og það ætlar væntanlega að takast. Þetta mál var ekki á sérstökum forgangslista hjá ríkisstjórninni en af hálfu okkar stjórnarandstæðinga í menntmn. var ýtt á eftir því að við tækjum þetta mál saman jákvæðum tökum og það hefur orðið með þeim hætti sem nú liggur fyrir. Ég er þakklátur fyrir það. Auðvitað á kannski ekki að þurfa af okkar hálfu að vera að ýta á eftir stjórnarfrv. en í menntmn. förum við í málin eftir efni eða reynum að taka þau þannig fyrir. Þótt þar hafi verið deilt hart um ákveðin frv. á þessu þingi þá hefur tekist ágæt samstaða um önnur mál og ég vona að fleiri mál eigi eftir að sjást frá nefndinni fyrir þinglok sem ekki eru enn komin út úr nefnd. Ég vænti að þetta frv. fáist lögfest.