Samkomudagur reglulegs Alþingis 1992 o.fl.

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 17:59:43 (6913)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Ég tek undir það með hv. 2. þm. Vestf. að þetta var frekar stutt framsöguræða hjá framsögumanni og fór mjög lítið fyrir rökstuðningi fyrir þeim dögum sem nefndir voru. Þó svo það sé ekki stórmál í mínum huga þá væri æskilegt að a.m.k. nokkrum setningum yrði eytt á það hvers vegna hv. nefnd valdi nákvæmlega þessa daga upp úr miðjum ágústmánuði. Þannig háttar t.d. til í sveitum að ekki er alveg víst að seinni slætti sé alls staðar lokið og spurning hvort nefndinni er það fast í hendi að halda sig við þessa daga eða hvort hún gæti hugsanlega bætt nokkrum dögum við þinghaldið o.s.frv. Ég þarf ekki að hafa frekari rökstuðning fyrir þessari spurningu en óska eftir því að hv. framsögumaður geri aðeins betur og rökstyðji tillögu nefndarinnar.