Heilbrigðisþjónusta

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 18:04:18 (6917)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Síðasta haust flaug það fyrir að ætlun heilbrrn. væri að leggja gjöld á alla þjónustu heilsugæslustöðva og heilsugæslu, heilsuverndar, þar með talda mæðravernd og ungbarnaeftirlit. Þessar fregnir urðu m.a. til þess að við þrír þingmenn Alþb., Stefanía Traustadóttir, Guðrún Helgadóttir og ég, fluttum frv. um að tekin yrðu af tvímæli um að þessi þjónusta skyldi verða ókeypis og ekki skattlögð. Í framhaldi af nokkrum þæfingi um málið var ákveðið í reglugerð sem hæstv. heilbrrh. gaf út í desember sl. að þessi þjónusta yrði undanþegin gjöldum í heilsugæslunni og heilsuvernd sem við alþýðubandalagsmenn töldum mikinn áfanga í málinu og féllumst þess vegna á að málið yrði ekki afgreitt með þeim hætti sem við höfðum lagt til. Við teljum einnig mjög mikilvægt að hv. heilbr.- og trn. hefur tekið samhljóða undir okkar sjónarmið um að þessa þjónustu eigi alls ekki að skattleggja. Undir það rita ekki aðeins fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna heldur stjórnarflokkanna, Alþfl. og Sjálfstfl. líka. Við teljum mjög mikilvægt að fulltrúar þessara flokka í heilbrn. hafa með þessum hætti komið til móts við sjónarmið okkar.
    Á þeim grundvelli og í trausti þess að þessi þjónusta fái að vera í friði fyrir skattlagningu töldum við að sú tillaga sem hér liggur fyrir væri skynsamleg enda verði þessi þáttur málsins tekin inn í lög um almannatryggingar þegar þau eru í endurskoðun.
    Nú er það svo, virðulegur forseti, að það hefur oft gerst á undanförnum árum, ég segi ekki áratugum, að alls konar þörfum málum hefur verið vísað til ríkisstjórnarinnar á þeim forsendum að lög um almannatryggingar væru til endurskoðunar. Hins vegar hefur gengið nokkuð brösuglega hjá okkur ýmsum að ljúka því máli. Ég tel að þrátt fyrir það

sé sú pólitíska yfirlýsing, sem felst í nefndarálitinu, svo mikilvæg að verulegur málefnalegur sigur sé unnin í þessu. Ég þakka fyrir gott samstarf í heilbr.- og trn. við að ljúka þessu máli og stend að nefndarálitinu.