Forfallaþjónusta í sveitum

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 18:09:24 (6920)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og sjá má ef borin eru saman þingskjöl á því máli, sem ég mæli hér fyrir núna, forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum, þá eru miklar breytingar lagðar til af hendi landbn.
    Breytingarnar byggjast á því að í stað þess að ríkissjóður hefur til skamms tíma greitt forfalla- og afleysingaþjónustuna er nú séð fyrir því að hún verði fjármögnuð með fjárveitingu frá Búnaðarmálasjóði eins og reyndar er kunnugt.
    Breytingarnar taka að sjálfsögðu sérstaklega mið af þessu.
    Nefndarálitið, sem hér fylgir, er afar skýrt og segir raunar fullkomlega til um þær breytingar sem eru lagðar til. Sérstök vinna var lögð í að ganga nákvæmlega frá nefndaráliti vegna þess um hve miklar breytingar er að ræða frá því sem verið hefur. Í þessum efnum þykir mér þó vert að minnast á fjögur mikilvæg atriði sem taka sérstaklega til þessara breytinga.
    Í fyrsta lagi er svið laganna þrengt þannig að nú er einungis um forfallaþjónustu að ræða en ekki afleysingaþjónustu. Til þess að hægt sé að njóta þeirrar þjónustu þurfa menn að framvísa læknisvottorði.
    Í öðru lagi tekur þessi þjónusta samkvæmt brtt. landbn. ekki einungis til húsbændanna sjálfra heldur líka til bústjóra og starfsfólks á viðkomandi búi. Auk þess er kveðið sérstaklega á um að réttur beggja forræðisaðila búsins, þ.e. húsmóður og húsbónda, er núna miðað við eitt ársverk og njóta þau réttinda hvort í sínu lagi miðað við það.
    Þá er gerð breyting á þeim heimildum sem voru í lögum um að búgreinafélög geti sagt sig frá forfallaþjónustunni, eða réttara sagt Stéttarsamband bænda fyrir þeirra hönd, þannig að ef búgreinafélag kýs að fara þá leið með lögmætum hætti verður jafnframt að liggja fyrir skrifleg yfirlýsing frá þeim einstaklingum sem segja sig frá þessari þjónustu. Undir öðrum kringumstæðum halda menn rétti sínum að því er þjónustuna varðar.
    Í síðasta lagi er gerð sú breyting, sem er afar mikilvæg, að nú ræðst réttur manna af vinnuframlagi en ekki tekjum eins og áður var og eins og ég sagði áður getur það mest numið einu ársverki.
    Þetta eru helstu og áþreifanlegustu breytingarnar í tillögum landbn. Ég vísa svo til þess, sem ég sagði áðan, að nefndarálitið er afar skýrt og segir til nánar um þær breytingar sem eru gerðar.
    Svo sem venja stendur til hefur landbn. verið sammála um niðurstöðuna og undir nál. rita allir nefndarmenn landbn.