Greiðslur úr ríkissjóði

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 18:17:38 (6922)

     Frsm. fjárln. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. fjárln. um frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði o.fl. á þskj. 966.

    Frv. þetta er kunnugt í þingsölum og ég mun ekki rekja það eða ræða efnislega. Fyrstu drög að þessu frv. voru samin síðla árs 1989 og síðan er það í þriðja sinn nú á þessu þingi sem það er flutt og hefur tekið nokkrum breytingum við endurflutning hverju sinni. Frv. hefur því hlotið vandaðan undirbúning og að baki því stendur í fyrsta lagi samkomulag fulltrúa allra flokka í fjárveitinganefnd, sem þar hafa setið þessi ár, og síðan fjárln., sem nú situr, og unnið hefur verið að því að fága orðalag með þeim hætti að samkomulag hefur tekist milli þeirra sem mest komu að því að framkvæma þessi mál í stjórnkerfinu.
    Frv. er ætlað að festa betur í sessi stjórntæki sem fjmrn. hefur í höndum sér til að annast framkvæmd fjárlaga þannig að eigi sé farið út fyrir þá ramma sem lög heimila og stjórnarskráin gerir ráð fyrir.
    Nefndin hefur athugað frv. nú enn um sinn og frv. var sent hv. efh.- og viðskn. sem sendi síðan bréf til nefndarinnar og kvað eigi unnt að taka málið til efnislegrar umræðu og afgreiðslu í nefndinni á þeim stutta tíma sem þar var til settur. Bréf hv. efh.- og viðskn. er prentað með sem fskj. á nál. nefndarinnar.
    Nefndin kvaddi einnig á fund sinn ráðuneytisstjóra fjmrn. sem svaraði fyrirspurnum og lét uppi álit sitt á nokkrum atriðum frv. Nefndin flytur eina brtt., sem fjallar um gildistökuákvæði frv., og er þar lagt til að lögin öðlist gildi 1. jan. 1993 en eigi þegar að afgreiðslu lokinni. Við nánari athugun var talið hyggilegt og raunar eðlilegt að mál af þessu tagi, er varðar framkvæmd fjárlaga, taki gildi um áramót en eigi á miðju fjárlagaári og féllst nefndin á það sjónarmið sem mér virðist eiga víðtækan stuðning og víðtækan skilning.
    Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að fjalla um þetta mál frekar. Ég vænti þess að það sé nú í þeim búningi að það nái afgreiðslu á því þingi sem nú situr. Nefndin leggur til að það verði samþykkt eins og það liggur fyrir með þeirri breytingu sem ég hef lýst og birtist á þskj. 965.