Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 18:40:02 (6932)

     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. um viðauka við lög nr. 39 frá 15. maí 1990 um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, er mjög seint fram komið og varð sjútvn. að hafa mjög hraðan á því að frv. var til hennar vísað á föstudagskvöld og hélt nefndin tvo fundi um málið. Á fyrri fundinum fékk nefndin á fund sinn ráðuneytisstjórann í sjútvrn., Árna Kolbeinsson, Ásmund Stefánsson, forseta ASÍ, Óskar Vigfússon, formann Sjómannasambands Íslands, og Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóra þess, Þórarin V. Þórarinsson, framkvæmdastjóra VSÍ, Svein Hjört Hjartarson, hagfræðing LÍÚ, Árna Benediktsson frá Íslenskum sjávarafurðum, Arnar Sigurmundsson, formann Samtaka fiskvinnslustöðva, Friðrik Pálsson, forstjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Sigurð Haraldsson, framkvæmdastjóra Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, Ólaf B. Ólafsson frá Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins og Ögmund Jónasson, formann BSRB.
    Fundurinn var sameiginlega með öllum þessum aðilum og sjútvn. Flestir þeirra sem mættu á fundinn voru eindregið þeirrar skoðunar að þetta frv. ætti að afgreiðast. Hins vegar höfðu forseti Alþýðusambands Íslands og formaður Sjómannasambands Íslands uppi athugasemdir við frv. og las formaður Sjómannasambands Íslands upp ályktun Sambandsins sem gerð var um Verðjöfnunarsjóðinn sem mótmælir harðlega frv. Síðan hefur verið rætt við þá af sjútvrh. á milli funda en það slys gerðist að það láðist að boða á þennan fund nefndarinnar forvígismenn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sem og forvígismenn Vélstjórasambands Íslands en Farmanna- og fiskimannasambandið sendi umsögn eftir að nefndin hafði afgreitt málið frá sér sem ég lofaði að koma á framfæri í hv. Alþingi vegna þessara mistaka. Það er efni og umsögn frv. til laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og þar segir:
    ,,Vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins vill Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, FFSÍ, koma á framfæri eftirfarandi við sjútvn. Alþingis:
    Frá því að lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins voru lögð fram í frumvarpsformi veturinn 1990 og eftir að frv. varð að lögum nr. 39 15. maí 1990 hefur Farmanna- og fiskimannasamband Íslands margítrekað bent á þá ágalla sem lagasetningunni fylgdi þar sem inngreiðsla framleiðenda væri færð á sérreikning viðkomandi framleiðanda en þeir sjómenn sem voru beinir þátttakendur í verðjöfnuninni við sölu á óunnum botnfisktegundum og á frystiskipum sem vinna aflann úti á sjó og nutu ekki sama réttar vegna sinna inngreiðslna. Eftir sem áður liggur skýrt fyrir ef reiknað er út frá uppgjöri áhafnameðlims hvað lagt

var til hliðar af aflahlut sérhvers sjómanns á þennan geymslu- og skyldusparnaðarreikning, þ.e. í Verðjöfnunarsjóð, vegna hans ef hann var starfandi á frystiskipi, siglingaskipi eða skipi sem seldi óunninn afla í gámum á erlendum fiskmarkaði. Það er því með öllu óverjandi að ætla nú að framkvæma eignaupptöku á sérgreiðslum einstakra sjómanna sem geta eigi síður en útgerðarmenn verið allvel skuldugir þótt sjómenn hafi ekki stofnað til þeirra skulda með kaupum á aflaheimildum eins og útgerðarmenn hafa gert en athyglisvert er að kvótakaup námu allt að 2 milljörðum kr. á sl. ári og hafa þeir peningar örugglega stofnað til skulda hjá mörgum útgerðum jafnframt því sem kvótakaupin hafa sogað peninga út úr sjávarútvegsgeiranum og aukið heildarskuldsetningu hans.
    Af framansögðu má vera ljóst að útgreiðsla sem eingöngu er sérgrein til útgerðar og vinnslu en ekki til þeirra sjómanna, sem með sama hætti greiddu beint í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, fær ekki staðist. Í öðru tilvikinu er verið að greiða niður skuldir einstaklinga og einstakra fyrirtækja en að hinu leytinu verið að gera eignaupptöku á sérgreindum aflahlut sjómanna og deila honum út til allra sjómanna sem eiga aðild að lífeyrissjóði.
    Þær breytingar sem kveðið er á um í frv. leiða til þrenns konar vandamála í uppskiptingu og tilfærslum á eignum Verðjöfnunarsjóðsins sem snerta sjóðinn.
    1. Skipting milli sjómanna og fyrirtækja sjávarútvegsins er ósanngjörn þar sem sjóðseign sérgreindra reikninga vegna landunninna botnfiskafurða kemur ekki til skipta. Hér er um að ræða fjárhæð sem nemur tæplega 1.800 millj. kr. og samkvæmt lauslegu mati FFSÍ ættu sjómenn að fá um 320 millj. kr. af þessari fjárhæð. Á það skal bent að samkvæmt frv. fá sjómenn hlut af óskiptum reikningum landunninna afurða, þ.e. humars og saltfisks, en ekki úr sérgreindum reikningum löndunar botnfiskafurða sem bendir til ósamræmis í frv.
    2. Samkvæmt frv. renna 278 millj. kr. til Lífeyrissjóðs sjómanna. Þessi fjárhæð kemur öllum fiskimönnum til góða, einnig þeim sem ekki hafa tekið þátt í inngreiðslum í Verðjöfnunarsjóðinn.
    3. Í lífeyrissjóðum sjómanna er fjöldi einstaklinga, sem ekki tilheyra hópum fiskimanna, þ.e. farmenn og landverkafólk í hinum ýmsu blönduðu sjóðum sjómanna og verkafólks víðs vegar um landið. Þessir einstaklingar koma til með að njóta peninganna, sem renna til lífeyrissjóðanna, í sama mæli og fiskimennirnir sem tóku á sig þær byrðar sem fylgdu inngreiðslum í Verðjöfnunarsjóðinn.
    Með hliðsjón af framansögðu skorar FFSÍ á sjútvn. Alþingis að viðeigandi breytingar verði gerðar á frv. þannig að sjómenn fái sanngjarnan hlut úr þeim fjármunum sem ætlað er að greiða úr Verðjöfnunarsjóðnum. Slíkt mætti m.a. tryggja með því að greiða umræddar fjárhæðir út í formi verðjöfnunar að undangengnum nauðsynlegum breytingum og reglum um útgreiðslu úr sjóðnum. Jafnframt ítrekar FFSÍ þá afstöðu sína að sjómenn taki framvegis ekki þátt í verðjöfnun sjávarafurða.``
    Undir þetta bréf ritar Guðjón A. Kristjánsson, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.
    Út af þeim stóru orðum sem hafa fallið um eignaupptöku, jafnvel stjórnarskrárbrot, sem komi þarna fram þegar þetta frv. var flutt er rétt að geta þess að sjútvrn. leitaði álits lögmanna á Skólavörðustíg 12 um þessi atriði. Þeir skiluðu áliti sínu til ráðuneytisins með bréfi sem dags. er 15. maí sl. og er allítarlegt álit en ég ætla aðeins að vitna í það þar sem segir í þremur línum: ,,Með hliðsjón af þessu var ekki hægt að sjá að fyrirhuguð lagabreyting feli í sér óheimilar réttarskerðingu gagnvart sjómönnum.``
    Ég vil benda á og vekja sérstaka athygli á sem raunar kom fram í því bréfi, sem ég var að lesa, að verið er að leggja til að Lífeyrissjóður sjómanna fái um 280 millj. í sinn hlut þannig að því framlagi verði skipt á milli sjómanna almennt. Hluti sjómanna er því þegar nokkur og ætti það að vera gleðiefni sjómönnum að styrkja á þennan hátt lífeyrissjóð þeirra sem fyrir stendur höllum fæti eins og svo margir aðrir slíkir sjóðir. Ég tel líka að það sé mjög til fyrirmyndar hvernig innstæðum framleiðenda er varið skv. 3. gr. þessa frv. en ég ætla ekki að lesa hana upp því að allir hv. þm. hafa frv. undir höndum.
    Ég vil líka geta þess að mismunandi sjónarmið eru uppi varðandi Verðjöfnunarsjóð og framtíð hans. Ekki er verið að gera neitt sem gerir það að verkum að verið sé að segja að Verðjöfnunarsjóður eigi að vera áfram um aldur og ævi eða að hann eigi að leggja niður. Hins vegar er ákvæði um það að lengja þann tíma sem inngreiðslur eigi ekki að vera til Verðjöfnunarsjóðsins eða til nk. áramóta.
    Ég tel að eins og ástatt er í sjávarútvegi sé mjög mikilvægt að þetta frv. nái fram að ganga. Hér er um að ræða útgreiðslur upp á tæpa 3 milljarða. Þar af fara 280 milljarðar til sjómanna og um 2,7 milljarðar til sjávarútvegsfyrirtækjanna og það skiptir afar miklu máli.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. Jafnframt beinir hún því til sjútvrh. að við þá endurskoðun á frambúðarfyrirkomulagi sveiflujöfnunar í sjávarútvegi, sem nú stendur yfir, verði tryggt að greiðslur í og úr sveiflujöfnunarsjóðum hafi ekki bein áhrif á hlutaskipti sjómanna. Hæstv. sjútvrh. hefur sagt að hann muni beita áhrifum sínum til þess að svo muni verða. Nefnd sú sem vinnur að þessari endurskoðun er undir forustu Hallgríms Snorrasonar hagstofustjóra og í nefndinni eru auk hans Ólafur Ísleifsson, Björn Björnsson, Þorvarður Gunnarsson og Hallgrímur Þorsteinsson en þeir tveir síðastnefndu eru þar sem fagmenn enda eru þeir löggiltir endurskoðendur.
    Undir nál. sjútvn. rita allir nefndarmenn. Þeir eru auk mín Össur Skarphéðinsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni R. Árnason og Vilhjálmur Egilsson. En þeir Halldór Ásgrímsson, Stefán Guðmundsson, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhann Ársælsson rita undir nál. með fyrirvara. Anna Ólafsdóttir Björnsson hefur setið fundi nefndarinnar og er samþykk þessu áliti með fyrirvara en einstakir nefndarmenn munu gera

grein fyrir afstöðu sinni við umræðu málsins.