Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 18:52:59 (6933)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli frsm. nefndarinnar mælum við sem undirritum það nál. með samþykkt frv. en undirritum nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur af minni hálfu að því að með þessu frv. er ekki skapaður nægilega góður rekstrargrundvöllur fyrir sjávarútveginn. Ég ætla ekki að hafa um það mörg orð og get í því sambandi vísað til þess sem ég hef áður sagt við umræður um málið eða um málefni sjávarútvegsins í vetur. Við höfum margoft tekið þessi mál upp á Alþingi og lagt á það áherslu að ríkisstjórnin hverfi af þeirri braut að auka álögur á sjávarútveginn og gera starfsskilyrði hans verri, sérstaklega með tilliti til þess að verðfall hefur verið allverulegt á afurðum og jafnframt hefur afli dregist mikið saman. Ég vil í því sambandi vitna til þess að raungengi hefur hækkað allnokkuð frá árinu 1990 og hæstv. sjútvrh. hefur staðfest það í ræðu á Alþingi að eðlilegt sé að leiðrétta það til þess horfs sem það var í í febrúar 1990 þegar svokallaðir þjóðarsáttarsamningar voru gerðir. Það hefur ekki verið gert en aðeins liggja um það almennar yfirlýsingar og ekki virðist vera samhljómur um það í ríkisstjórninni hvert stefna beri í þeim efnum. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að íslenskur sjávarútvegur geti bæði mætt aflasamdrætti og verðfalli á sama tíma og gengi fer hækkandi. Við höfum jafnframt bent á skattlagningu þá sem á að leggja á sjávarútveginn á þessu hausti. Við höfum nefnt skattlagningu á Fiskveiðasjóð, sem mun lenda á sjávarútvegnum, og margt annað sem ég skal ekki rifja upp við þessa umræðu.
    Þessi aðgerð bætir vissulega greiðslustöðu sjávarútvegsins, gerir honum kleift að standa betur í skilum með ýmis vanskil sem hann stendur nú frammi fyrir, m.a. vegna ytri skilyrða, og það er vissulega léttir á mörgum fyrirtækjum. Hins vegar vil ég taka skýrt fram, m.a. vegna frétta í fjölmiðlum, að með þessari afstöðu er ég ekki að lýsa því yfir að Verðjöfnunarsjóður sé þar með óþarfur fyrir íslenskt samfélag. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt fyrir hagstjórn í framtíðinni að viðhalda Verðjöfnunarsjóðnum. Komið hefur í ljós af þeirri reynslu, sem er fengin af þessum Verðjöfnunarsjóði, að það var ekki að ástæðulausu sem menn lögðu í að leggja fé fyrir þegar vel gekk og geyma það til tíma þegar verr gengur eins og nú hefur komið í ljós.
    Því hefur verið haldið fram af sjávarútveginum að miklu betra sé að einstök fyrirtæki sjái um þetta sjálf og leggi til hliðar. Gerir einhver ráð fyrir því að það fé sem þarna er fyrir hendi í dag hefði nú verið inni á reikningi í Seðlabankanum eða öðrum bönkum ef hér hefði verið um frjálsa sveiflujöfnun að ræða? Ég held að það sé alveg rétt hjá forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar að það er mjög líklegt að viðkomandi fjármagn hefði m.a. farið til þess að bæta kjör landsmanna allra og þess vegna er margt til í þeirri gagnrýni sem þeir hafa sett fram. En hefði það verið skynsamlegt fyrir íslenskt samfélag að hafa enga möguleika til að mæta áföllum og ætli það sé íslensku launafólki óviðkomandi að slíkt sé hægt? Ég gæti trúað því að margir í stétt verkafólks og sjómanna fagni því að betur er hægt að standa í skilum í viðkomandi fyrirtækjum og það treysti atvinnu þeirra.
    Að mínu mati er það því ekki réttmæt gagnrýni að verið sé að taka fé til annarra hluta. Hins vegar er það gert með öðrum hætti en lögin sögðu upphaflega til um og ég skal ekki neita því að ég hefði fremur kosið að það hefði verið hægt að fara betur að upphaflegum vilja laganna, e.t.v. með því að breyta í einhverju tilgangi laganna, taka tillit til aflasamdráttar og breyta þar viðmiðunum. Um það ætla ég ekki að deila við hæstv. sjútvrh. Ég vil aðeins leggja á það áherslu að ég styð það að þetta mál nái fram að ganga og mun fylgja því en ég mun halda áfram að gagnrýna efnahagsstefnu núv. ríkisstjórnar og viljaleysi hennar til þess að bæta rekstrarskilyrði atvinnuveganna. Ég tel að ríkisstjórnin sé í nokkru að koma til móts við þá gagnrýni sem fram hefur verið sett en hér er þó engan veginn lagfærður rekstrargrundvöllur til frambúðar og það verkefni hlýtur að standa áfram á borði núv. ríkisstjórnar, Alþingis og ekki síst atvinnugreinarinnar sjálfrar.
    Það var um það talað, virðulegi forseti, að þessi umræða yrði ekki löng og við það skal að sjálfsögðu staðið af minni hálfu en ég vildi að þessi almennu sjónarmið kæmu fram við afgreiðslu málsins nú.