Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 19:37:07 (6937)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu fyrst og fremst víkja að tveimur atriðum sem hér hafa komið fram. Í fyrsta lagi spurningu frá hv. 14. þm. Reykv. um stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna eftir þá inngreiðslu sem þetta lagafrv. og væntanleg lög mæla fyrir um. Ég hef ekki undir höndum tryggingafræðilega úttekt á stöðu sjóðsins en þykist vita það af nokkuð langri reynslu og umfjöllun um málefni þessa lífeyrissjóðs og reyndar annarra að sjóðurinn hefur átt við verulega erfiðleika að etja og ætla ekki að rekja það í löngu máli. Hér er verið að gera tilraun til þess að rétta nokkuð stöðu hans en ég get fullyrt þó að ég hafi ekki útreikninga undir höndum að hann verður ekki of sæll né sjómenn of sælir af stöðu sjóðsins þó að þessi upphæð renni til hans.
    Í öðru lagi vil ég, frú forseti, víkja að þeim sérstöku tilmælum sem hv. sjútvn. beinir til sjútvrh. vegna beinna áhrifa á hlutaskipti sjómanna í núverandi fyrirkomulagi verðjöfnunar. Ég vil staðfesta það að ég mun beita mér fyrir þeim breytingum sem hv. nefnd óskar eftir og í fullu samræmi við samtöl sem fram fóru við formann Sjómannasambandsins af þessu tilefni. Ég tel rétt og skylt að staðfesta að í þessu máli mun ég beita mér í samræmi við ábendingar hv. nefndar.
    Ég vil svo sérstaklega nota þetta tækifæri til að þakka hv. sjútvn. fyrir skjót vinnubrögð og fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna sérstaklega fyrir að hafa greitt fyrir framgangi málsins. Mér er það mætavel ljóst að ágreiningur er á milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðu um mörg meginefnisatriði efnahagsstefnunnar. En ég met það mjög mikils að um framgang þessa máls og reyndar stuðning við það efnislega hefur tekist svo góð samstaða sem raun ber vitni og ítreka þakklæti mitt fyrir það.