Skýrsla um málefni og hag aldraðra

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 21:12:49 (6940)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það vekur vissulega athygli að sjá að 40. mál á prentaðri dagskrá er 3. mál þingsins. Það er umhugsunarefni svo ekki sé meira sagt hvernig staðið er að þinghaldi. Þriðja mál þingsins er orðið 40. mál á þeim degi sem ekki lifir af nema tæpir þrír tímar þar til komið er að lokadegi þingsins ef allt gengur fram sem hér hefur verið samið um. Þetta er beiðni um skýrslu sem hér hefur verið sett fram.
    Það hlýtur að vera mjög vandséð hvenær stjórnarandstæðingar eiga að leggja fram sín mál á Alþingi Íslendinga svo tryggt sé að þau séu tekin fyrir miðað við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð af forsætisnefnd þingsins. Það er nánast nauðsyn að brjóta þingsköpin og koma þeim á dagskrá á undan fjárlögunum. Það virðist ekkert annað duga og hér eru efasemdir um að það dugi.
    Ég vil vekja athygli á því að á þskj. 888 liggur fyrir svar við annarri skýrslu. Það er skýrsla utanrrh. um samning við Flugleiðir hf. um rekstur flugþjónustu á Keflavíkurflugvelli. Ég ítreka ósk mína um

að sú skýrsla verði rædd á Alþingi Íslendinga og menn geri sér grein fyrir því að það er ekki hægt að standa þannig að þinghaldi þegar farið er eftir þingsköpum með eðlilegum hætti. Hópur þingmanna leggur fram beiðni um skýrslu, að sjálfsögðu í þeirri von að skýrslan komi og hægt verði að ræða skýrsluna. Þá er hægt að hundsa málin með þeim hætti sem hér er gert.
    Herra forseti. Mér sýnist eiginlega að það sé ekki hægt að vera öllu lengur til friðs. Friðurinn virðist lítið hafa gefið í aðra hönd í þessum efnum og því spurning hvort ófriður þýðir eitthvað. En hitt er fullreynt að friður hefur ekki borið árangur í þessum efnum.